Egla, 07: Difference between revisions
No edit summary |
No edit summary |
||
Line 1: | Line 1: | ||
{{Egla_TOC}} | {{Egla_TOC}} | ||
==Chapter 7== | ==Chapter 7== | ||
==Kafli 7== | ==Kafli 7== |
Revision as of 13:53, 8 November 2011
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 7
Kafli 7
Af Björgólfi
Björgólfur hét maður á Hálogalandi[1] . Hann bjó í Torgum. Hann var lendur maður, ríkur og auðigur, en hálfbergrisi að afli og vexti og kynferð. Hann átti son er hét Brynjólfur. Hann var líkur föður sínum. Björgólfur var þá gamall og önduð kona hans og hafði hann selt í hendur öll ráð syni sínum og leitað honum kvonfangs. Brynjólfur átti Helgu, dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Bárður er nefndur sonur þeirra. Hann var snemma mikill og fríður sýnum og varð hinn mesti atgervismaður.
Það var eitt haust að þar var gildi fjölmennt og voru þeir Björgólfur feðgar í gildinu göfgastir menn. Þar var hlutaður tvímenningur á öftnum sem siðvenja var til. En þar að gildinu var sá maður er Högni hét. Hann átti bú í Leku. Hann var maður stórauðigur, allra manna fríðastur sýnum, vitur maður og ættsmár og hafði hafist af sjálfum sér. Hann átti dóttur allfríða er nefnd er Hildiríður. Hún hlaut að sitja hjá Björgólfi. Töluðu þau margt um kveldið, leist honum mærin fögur. Litlu síðar var slitið gildinu.
Það sama haust gerði Björgólfur gamli heimanför sína og hafði skútu er hann átti og á þrjátíu menn. Hann kom fram í Leku og gengu þeir heim til húss tuttugu en tíu gættu skips. En er þeir komu á bæinn þá gekk Högni á mót honum og fagnaði vel, bauð honum þar að vera með sínu föruneyti en hann þekktist það og gengu þeir inn í stofu. En er þeir höfðu afklæðst og tekið upp yfirhafnir þá lét Högni bera inn skaptker og mungát. Hildiríður bóndadóttir bar öl gestum.
Björgólfur kallar til sín Högna bónda og segir honum að „erindi er það hingað að eg vil að dóttir þín fari heim með mér og mun eg nú gera til hennar lausabrullaup.“
En Högni sá engan annan sinn kost en láta allt svo vera sem Björgólfur vildi. Björgólfur keypti hana með eyri gulls og gengu þau í eina rekkju bæði. Fór Hildiríður heim með Björgólfi í Torgar. Brynjólfur lét illa yfir þessi ráðagerð.
Þau Björgólfur og Hildiríður áttu tvo sonu. Hét annar Hárekur en annar Hrærekur.
Síðan andast Björgólfur. En þegar hann var út hafinn þá lét Brynjólfur Hildiríði á brott fara með sonu sína. Fór hún þá í Leku til föður síns og fæddust þar upp synir Hildiríðar. Þeir voru menn fríðir sýnum, litlir vexti, vel viti bornir, líkir móðurfrændum sínum. Þeir voru kallaðir Hildiríðarsynir. Lítils virti Brynjólfur þá og lét þá ekki hafa af föðurarfi þeirra. Hildiríður var erfingi Högna og tók hún og synir hennar arf eftir hann og bjuggu þá í Leku og höfðu auð fjár. Þeir voru mjög jafnaldrar, Bárður Brynjólfsson og Hildiríðarsynir. Þeir feðgar, Brynjólfur og Björgólfur, höfðu lengi haft finnferð og finnskatt.
Norður á Hálogalandi heitir fjörður Vefsnir. Þar liggur ey í firðinum og heitir Álöst, mikil ey og góð. Í henni heitir bær á Sandnesi. Þar bjó maður er Sigurður hét. Hann var auðgastur norður þar. Hann var lendur maður og spakur að viti. Sigríður hét dóttir hans og þótti kostur bestur á Hálogalandi. Hún var einbirni hans og átti arf að taka eftir Sigurð föður sinn.
Bárður Brynjólfsson gerði heimanferð sína, hafði skútu og á þrjá tigu manna. Hann fór norður í Álöst og kom á Sandnes til Sigurðar. Bárður hefir uppi orð sín og bað Sigríðar. Því máli var vel svarað og líklega og kom svo að Bárði var heitið meyjunni. Ráð þau skyldu takast að öðru sumri. Skyldi þá Bárður sækja norður þangað ráðið.
References
- ↑ Björgólfur hálfbergrisi: „Maðurinn hefur auðsæilega átt samíska móður og svarið sig trúlega í hennar ætt. Nú vill svo skemmtilega til að björgólfur er jötunsheiti í þulum.“ Hermann Pálsson. Úr landnorðri. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar 1997