Egla, 17

From WikiSaga
Revision as of 13:58, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 17

Kafli 17

Af Hildiríðarsonum Hildiríðarsynir tóku við sýslu á Hálogalandi. Mælti engi maður í móti fyrir ríki konungs en mörgum þótti þetta skipti mjög í móti skapi, þeim er voru frændur Þórólfs eða vinir. Þeir fóru um veturinn á fjall og höfðu með sér þrjá tigu manna. Þótti Finnum miklu minni vegur að þessum sýslumönnum en þá er Þórólfur fór. Greiddist allt miklu verr gjald það er Finnar skyldu reiða.

Þann sama vetur fór Þórólfur upp á fjall með hundrað manna, fór þá þegar austur á Kvenland og hitti Faravið konung. Gerðu þeir þá ráð sitt og réðu það að fara á fjall enn sem hinn fyrra vetur og höfðu fjögur hundruð manna og komu ofan í Kirjálaland, hlupu þar í byggðir er þeim þótti sitt færi vera fyrir fjölmennis sakir, herjuðu þar og fengu of fjár, fóru þá aftur er á leið veturinn upp á mörkina.

Fór Þórólfur heim um vorið til bús síns. Hann hafði þá menn í skreiðfiski í Vogum en suma í síldfiski og leitaði alls konar fanga til bús síns.

Þórólfur átti skip mikið. Það var lagt til hafs. Það var vandað að öllu sem mest, steint mjög fyrir ofan sjó. Þar fylgdi segl stafað með vendi blám og rauðum. Allur var reiði vandaður mjög með skipinu. Það skip lætur Þórólfur búa og fékk til húskarla sína með að fara, lét þar á bera skreið og húðir og vöru ljósa. Þar lét hann og fylgja grávöru mikla og aðra skinnavöru þá er hann hafði haft af fjalli og var það fé stórmikið. Skipi því lét hann Þorgils gjallanda halda vestur til Englands að kaupa sér klæði og önnur föng þau er hann þurfti. Héldu þeir skipi því suður með landi og síðan í haf og komu fram á Englandi, fengu þar góða kaupstefnu, hlóðu skipið með hveiti og hunangi, víni og klæðum, og héldu aftur um haustið. Þeim byrjaði vel, komu að Hörðalandi.

Það sama haust fóru Hildiríðarsynir með skatt og færðu konungi. En er þeir reiddu skattinn af hendi þá var konungur sjálfur við og sá. Hann mælti: „Er nú allur skatturinn af höndum reiddur, sá er þið tókuð við á Finnmörk?“

„Svo er,“ sögðu þeir.

„Bæði er nú,“ sagði konungur, „skatturinn miklu minni og verr af hendi goldinn en þá er Þórólfur heimti, og sögðuð þér að hann færi illa með sýslunni.“

„Vel er það konungur,“ segir Hárekur, „er þú hefir hugleitt hversu mikill skattur er vanur að koma af Finnmörk því að þá veistu gerr hversu mikils þér missið ef Þórólfur eyðir með öllu finnskattinum fyrir yður. Vér vorum í vetur þrír tigir manna á mörkinni svo sem fyrr hefir verið vandi sýslumanna. Síðan kom þar Þórólfur með hundrað manna. Spurðum vér það til orða hans að hann ætlaði af lífi að taka okkur bræður og alla þá menn er okkur fylgdu og fann hann það til saka er þú konungur hafðir selt okkur í hendur sýslu þá er hann vildi hafa. Sáum vér þann helst vorn kost að firrast fund hans og forða oss og komum vér fyrir þá sök skammt frá byggðum á fjallið en Þórólfur fór um alla mörkina með her manns. Hafði hann kaup öll. Guldu Finnar honum skatt en hann bast í því að sýslumenn yðrir skyldu ekki koma á mörkina. Ætlar hann að gerast konungur yfir norður þar, bæði yfir mörkinni og Hálogalandi, og er það undur er þér látið honum hvetvetna hlýða. Munu hér sönn vitni til finnast um fjárdrátt þann er Þórólfur hefir af mörkinni því að knörr sá er mestur var á Hálogalandi var búinn í vor á Sandnesi og kallaðist Þórólfur eiga einn farm allan þann er á var. Hygg eg að nær væri hlaðinn af grávöru og þar hygg eg að finnast mundi bjór og safali meiri en það er Þórólfur færði þér og fór með Þorgils gjallandi. Ætla eg að hann hafi siglt vestur til Englands. En ef þú vilt vita sannindi af þessu þá haldið til njósn um ferð Þorgils þá er hann fer austur, því að eg hygg að á ekki kaupskip hafi komið jafnmikið fé á vorum dögum. Ætla eg það sannast að segja að þér konungur eigið hvern pening þann er þar var á.“

Þetta sönnuðu förunautar hans allt er Hárekur sagði en hér kunnu engir í móti að mæla.

Breyta

[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links