Egla, 62

From WikiSaga
Revision as of 15:05, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 62

Kafli 62

Egill flutti kvæðið

Eiríkur konungur gekk til borða að vanda sínum og var þá fjölmenni mikið með honum. Og er Arinbjörn varð þess var þá gekk hann með alla sveit sína alvopnaða í konungsgarð þá er konungur sat yfir borðum. Arinbjörn krafði sér inngöngu í höllina. Honum var það og heimult gert. Ganga þeir Egill inn með helming sveitarinnar. Annar helmingur stóð úti fyrir dyrum.

Arinbjörn kvaddi konung en konungur fagnaði honum vel. Arinbjörn mælti: „Nú er hér kominn Egill. Hefir hann ekki leitað til brotthlaups í nótt. Nú viljum vér vita herra hver hans hluti skal vera. Vænti eg góðs af yður. Hefi eg það gert sem vert var að eg hefi engan hlut til þess sparað að gera og mæla svo að yðvar vegur væri þá meiri en áður. Hefi eg og látið allar mínar eigur og frændur og vini er eg átti í Noregi og fylgt yður en allir lendir menn yðrir skildust við yður og er það maklegt því að þú hefir marga hluti til mín stórvel gert.“

Þá mælti Gunnhildur: „Hættu Arinbjörn og tala ekki svo langt um þetta. Margt hefir þú vel gert við Eirík konung og hefir hann það fullu launað. Er þér miklu meiri vandi á við Eirík konung en Egil. Er þér þess ekki biðjanda að Egill fari refsingalaust héðan af fundi Eiríks konungs slíkt sem hann hefir til saka gert.“

Þá segir Arinbjörn: „Ef þú konungur og þið Gunnhildur hafið það einráðið að Egill skal hér enga sætt fá, þá er það drengskapur að gefa honum frest og fararleyfi um viku sakir að hann forði sér, þó hefir hann að sjálfvilja sínum farið hingað á fund yðvarn og vænti sér af því friðar. Fara þá enn skipti yður sem verða má þaðan frá.“

Gunnhildur mælti: „Sjá kann eg á þessu Arinbjörn að þú ert hollari Agli en Eiríki konungi. Ef Egill skal ríða héðan viku í brott í friði þá mun hann kominn til Aðalsteins konungs á þessi stundu. En Eiríkur konungur þarf nú ekki að dyljast í því að honum verða nú allir konungar ofureflismenn en fyrir skömmu mundi það þykja ekki líklegt að Eiríkur konungur mundi eigi hafa til þess vilja og atferð að hefna harma sinna á hverjum manni slíkum sem Egill er.“

Arinbjörn segir: „Engi maður mun Eirík kalla að meira mann þó að hann drepi einn bóndason útlendan, þann er gengið hefir á vald hans. En ef hann vill miklast af þessu þá skal eg það veita honum að þessi tíðindi skulu heldur þykja frásagnarverð því að við Egill munum nú veitast að svo að jafnsnemma skal okkur mæta báðum. Muntu konungur þá dýrt kaupa líf Egils um það er vér erum allir að velli lagðir, eg og sveitungar mínir. Mundi mig annars vara af yður en þú mundir mig vilja leggja heldur að jörðu en láta mig þiggja líf eins manns er eg bið.“

Þá segir konungur: „Allmikið kapp leggur þú á þetta Arinbjörn, að veita Agli lið. Trauður mun eg til vera að gera þér skaða ef því er að skipta ef þú vilt heldur leggja fram líf þitt en hann sé drepinn. En ærnar eru sakir til við Egil hvað sem eg læt gera við hann.“

Og er konungur hafði þetta mælt þá gekk Egill fyrir hann og hóf upp kvæðið og kvað hátt og fékk þegar hljóð.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links