Egla, 67
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 67
Kafli 67
Af ferðum Egils
Egill gerði ferð sína suður á Hörðaland. Hann hafði til þeirrar róðrarferju og þar á þrjá tigu manna. Þeir koma einn dag í Fenhring á Ask. Gekk Egill þar til með tuttugu menn en tíu gættu skips. Atli hinn skammi var þar fyrir með nokkura menn. Egill lét hann út kalla og segja að Egill Skalla-Grímsson átti erindi við hann. Atli tók vopn sín og allir þeir menn er þar voru vígir fyrir og gengu út síðan.
Egill mælti: „Svo er mér sagt Atli að þú munir hafa að varðveita fé það er eg á að réttu og Ásgerður kona mín. Muntu heyrt hafa þar fyrr um rætt að eg kallaði mér arf Bjarnar hölds er Berg-Önundur bróðir þinn hélt fyrir mér. Er eg nú kominn að vitja fjár þess, landa og lausaaura, og krefja þig að þú látir laust og greiðir mér í hendur.“
Atli segir: „Lengi höfum vér það heyrt Egill að þú sért ójafnaðarmaður en nú mun eg að raun um koma ef þú ætlar að kalla til þess fjár í hendur mér er Eiríkur konungur dæmdi Önundi bróður mínum. Átti Eiríkur konungur þá að ráða boði og banni hér í landi. Hugði eg nú Egill að þú mundir fyrir því hér kominn að bjóða mér gjöld fyrir bræður mína er þú tókst af lífi og þú mundir bæta vilja rán það er þú rændir hér á Aski. Mundi eg þá veita svör þessu máli ef þú flyttir þetta erindi fram en hér kann eg engu svara.“
„Það vil eg,“ segir Egill, „bjóða þér sem eg bauð Önundi að Gulaþingslög skipi um mál okkur. Tel eg bræður þína hafa fallið ógilda á sjálfra sinna verkum því að þeir höfðu áður rænt mig lögum og landsrétti og tekið fé mitt að herfangi. Hefi eg til þessa konungs leyfi að leita laga við þig um þetta mál. Vil eg stefna þér til Gulaþings og hafa þar lagaúrskurð um þetta mál.“
„Koma mun eg,“ segir Atli, „til Gulaþings og megum við þar ræða um þessi mál.“
Síðan fór Egill í brott með föruneyti sitt. Fór hann þá norður í Sogn og inn á Aurland til Þórðar mágs síns og dvaldist þar til Gulaþings.
Og er menn komu til þings þá kom Egill þar. Atli hinn skammi var og þar kominn. Tóku þeir þá að tala sín mál og fluttu fram fyrir þeim mönnum er um skyldu dæma. Flutti Egill fram fjárheimtu en Atli bauð lögvörn í mót, tylftareiða, að hann hefði ekki fé það að varðveita er Egill ætti.
Og er Atli gekk að dómum með eiðalið sitt þá gekk Egill mót honum og segir að eigi vill hann eiða hans taka fyrir fé sitt „vil eg bjóða þér önnur lög, þau að við göngum á hólm hér á þinginu og hafi sá fé þetta er sigur fær.“
Það voru og lög er Egill mælti og forn siðvenja að hverjum manni var rétt að skora á annan til hólmgöngu hvort er hann skyldi verja sakir fyrir sig eða sækja.
Atli sagði að hann mundi eigi synja að ganga á hólm við Egil „því að þú mælir það er eg ætti að mæla því að ærinna harma á eg að hefna á þér. Þú hefir að jörðu lagt bræður mína tvo og er mér mikilla muna vant að eg haldi réttu máli ef eg skal heldur láta lausar eignir mínar aflaga fyrir þér en berjast við þig er þú býður mér það.“
Síðan taka þeir Atli og Egill höndum saman og festa það með sér að þeir skuli á hólm ganga og sá er sigur fær skal eiga jarðir þær er þeir deildu áður um.
Eftir það búast þeir til hólmgöngu. Gekk Egill fram og hafði hjálm á höfði og skjöld fyrir sér og kesju í hendi en sverðið Dragvandil festi hann við hægri hönd sér. Það var siður hólmgöngumanna að þurfa ekki að bregða sverði sínu á hólmi, láta heldur sverðið hendi fylgja svo að þegar væri sverðið tiltækt er hann vildi. Atli hafði hinn sama búnað sem Egill. Hann var vanur hólmgöngum. Hann var sterkur maður og hinn mesti fullhugi.
Þar var leiddur fram graðungur mikill og gamall. Var það kallað blótnaut. Það skyldi sá höggva er sigur hefði. Var það stundum eitt naut, stundum lét sitt hvor fram leiða sá er á hólm gekk.
Og er þeir voru búnir til hólmgöngu þá hlaupast þeir að og skutu fyrst spjótum og festi hvorki spjótið í skildi, námu bæði í jörðu staðar. Síðan taka þeir báðir til sverða sinna, gengust þá að fast og hjuggust til. Gekk Atli ekki á hæl. Þeir hjuggu títt og hart og ónýttust skjótt skildirnir. Og er skjöldur Atla var mjög ónýttur þá kastaði hann honum, tók þá sverðið tveim höndum og hjó sem tíðast. Egill hjó til hans á öxlina og beit ekki sverðið. Hann hjó annað og hið þriðja. Var honum þá hægt að leita höggstaðar á Atla að hann hafði enga hlíf. Egill reiddi sverðið af öllu afli en ekki beit hvar sem hann hjó til.
Sér þá Egill að eigi mun hlýða svo búið því að skjöldur hans gerðist þá ónýtur. Þá lét Egill laust sverðið og skjöldinn og hljóp að Atla og greip hann höndum. Kenndi þá aflsmunar og féll Atli á bak aftur en Egill greyfðist að niður og beit í sundur í honum barkann. Lét Atli þar líf sitt. Egill hljóp upp skjótt og þar til er blótnautið stóð, greip annarri hendi í granarnar en annarri í hornið og snaraði svo að fætur vissu upp en í sundur hálsbeinið. Síðan gekk Egill þar til er stóð föruneyti hans. Þá kvað Egill:
Beitat nú, sá er brugðum,
blár Dragvandill randir
af því að eggjar deyfði
Atli fram hinn skammi.
Neytti eg afls við ýti
örmálgastan hjörva.
Jaxlbróður lét eg eyða,
eg bar sauð með nauðum.
Síðan eignaðist Egill jarðir þær allar er hann hafði til deilt og hann kallaði að Ásgerður kona hans hefði átt að taka eftir föður sinn. Ekki er getið að þá yrði fleira til tíðinda á því þingi. Egill fór þá fyrst inn í Sogn og skipaði jarðir þær er hann hafði þá fengið að eiginorði. Dvaldist hann þar mjög lengi um vorið. Síðan fór hann með föruneyti sitt austur í Vík. Fór hann þá á fund Þorsteins og var þar um hríð.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)