Egla, 26
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 26
Kafli 26
Guttormur hét maður, son Sigurðar hjartar. Hann var móðurbróðir Haralds konungs. Hann var fósturfaðir konungs og ráðamaður fyrir liði hans því að konungur var þá á barns aldri fyrst er hann kom til ríkis. Guttormur var hertogi fyrir liði Haralds konungs þá er hann vann land undir sig og var hann í öllum orustum þeim er konungur átti þá er hann gekk til lands í Noregi. En er Haraldur var orðinn einvaldskonungur yfir landi öllu og hann settist um kyrrt þá gaf hann Guttormi frænda sínum Vesturfold og Austur-Agðir og Hringaríki og land það allt er átt hafði Hálfdan svarti faðir hans. Guttormur átti sonu tvo og dætur tvær. Synir hans hétu Sigurður og Ragnar en dætur hans Ragnhildur og Áslaug.
Guttormur tók sótt. En er að honum leið þá sendi hann menn á fund Haralds konungs og bað hann sjá fyrir börnum sínum og fyrir ríki sínu. Litlu síðar andaðist hann.
En er konungur spurði andlát hans þá lét hann kalla til sín Hallvarð harðfara og þá bræður, sagði að þeir skyldu fara sendiför hans austur í Vík. Konungur var þá staddur í Þrándheimi.
Þeir bræður bjuggust til ferðar þeirrar sem veglegast, völdu sér lið og höfðu skip það er þeir fengu best. Þeir höfðu það skip er átt hafði Þórólfur Kveld-Úlfsson og þeir höfðu tekið af Þorgísli gjallanda. En er þeir voru búnir ferðar sinnar þá sagði konungur þeim erindi að þeir skyldu fara austur til Túnsbergs. Þar var þá kaupstaður. Þar hafði Guttormur haft aðsetu.
„Skuluð þið,“ sagði konungur, „færa mér sonu Guttorms en dætur hans skulu þar upp fæðast til þess er eg gifti þær. Skal eg fá menn til að varðveita ríkið og veita meyjunum fóstur.“
En er þeir bræður voru búnir þá fara þeir leið sína og byrjaði þeim vel. Komu þeir um vorið í Vík austur til Túnsbergs og báru þar fram erindi sín. Taka þeir Hallvarður við sonum Guttorms og miklu lausafé. Fara þeir þá er þeir eru búnir aftur á leið. Byrjaði þeim þá nokkurum mun seinna og varð ekki til tíðinda í þeirra ferð fyrr en þeir sigla norður um Sognsæ byr góðan og bjart veður og voru þá allkátir.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)