Egla, 36

From WikiSaga
Revision as of 14:19, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 36

Kafli 36

Eiríkur þá karfann

Haraldur konungur hafði löngum aðsetu sína á Hörðalandi eða Rogalandi að stórbúum þeim er hann átti að Útsteini eða Ögvaldsnesi eða á Fitjum, á Álreksstöðum eða í Lygru, á Sæheimi. En þann vetur, er nú var frá sagt, var konungur norður í landi. En er þeir Björn og Þórólfur höfðu verið einn vetur í Noregi og vor kom þá bjuggu þeir skip og öfluðu manna til, fóru um sumarið í víking í Austurveg en fóru heim að hausti og höfðu aflað fjár mikils. En er þeir komu heim þá spurðu þeir að Haraldur konungur var þá á Rogalandi og mundi þar sitja um veturinn. Þá tók Haraldur konungur að eldast mjög en synir hans voru þá mjög á legg komnir margir.

Eiríkur son Haralds konungs er kallaður var blóðöx var þá á ungum aldri. Hann var á fóstri með Þóri hersi Hróaldssyni. Konungur unni Eiríki mest sona sinna. Þórir var þá í hinum mestum kærleikum við konung.

Björn og þeir Þórólfur fóru fyrst á Aurland er þeir komu heim en síðan byrjuðu þeir ferð sína norður í Fjörðu að sækja heim Þóri hersi. Þeir höfðu karfa þann er reru á borð tólf menn eða þrettán og höfðu nær þrjá tigu manna. Skip það höfðu þeir fengið um sumarið í víking. Það var steint mjög fyrir ofan sjó og var hið fegursta. En er þeir komu til Þóris fengu þeir þar góðar viðtökur og dvöldust þar nokkura hríð en skipið flaut tjaldað fyrir bænum.

Það var einn dag er þeir Þórólfur og Björn gengu ofan til skipsins. Þeir sáu að Eiríkur konungsson var þar, gekk stundum á skipið út en stundum á land upp, stóð þá og horfði á skipið.

Þá mælti Björn til Þórólfs: „Mjög undrast konungsson skipið og bjóð þú honum að þiggja að þér því að eg veit að okkur verður það að liðsemd mikilli við konung ef Eiríkur er flutningsmaður okkar. Hefi eg heyrt það sagt að konungur hafi þungan hug á þér af sökum föður þíns.“

Þórólfur sagði að það mundi vera gott ráð. Gengu þeir síðan ofan til skipsins og mælti Þórólfur: „Vandlega hyggur þú að skipinu konungsson. Hversu líst þér á?“

„Vel,“ segir hann, „hið fegursta er skipið,“ segir hann.

„Þá vil eg gefa þér,“ sagði Þórólfur, „skipið ef þú vilt þiggja.“

„Þiggja vil eg,“ segir Eiríkur, „en þér munu lítil þykja launin þótt eg heiti þér vináttu minni en það stendur þó til vonar ef eg held lífi.“

Þórólfur segir að þau laun þótti honum miklu meira verð en skipið. Skildust þá síðan en þaðan af var konungsson allkátur við þá Þórólf.

Þeir Björn og Þórólfur koma á ræðu við Þóri hvað hann ætlar, hvort það sé með sannindum að konungur hafi þungan hug á Þórólfi. Þórir dylur þess ekki að hann hefði það heyrt.

„Þá vildi eg það,“ sagði Björn, „að þú færir á fund konungs og flyttir mál Þórólfs fyrir honum því að eitt skal ganga yfir okkur Þórólf báða. Gerði hann svo við mig þá er eg var á Íslandi.“

Svo kom að Þórir hét ferðinni til konungs og bað þá freista ef Eiríkur konungsson vildi fara með honum. En er þeir Þórólfur og Björn komu á þessar ræður fyrir Eirík þá hét hann sinni umsýslu við föður sinn.

Síðan fóru þeir Þórólfur og Björn leið sína í Sogn en Þórir og Eiríkur konungsson skipuðu karfa þann hinn nýgefna og fóru suður á fund konungs og hittu hann á Hörðalandi. Tók hann feginsamlega við þeim. Dvöldust þeir þar um hríð og leituðu þess dagráðs að hitta konung að hann var í góðu skapi, báru þá upp þetta mál fyrir konung, sögðu að sá maður var þar kominn er Þórólfur hét, son Skalla-Gríms „vildum vér þess biðja konungur að þú minntist þess er frændur hans hafa vel til þín gert en létir hann eigi gjalda þess er faðir hans gerði þótt hann hefndi bróður síns.“

Talaði Þórir um það mjúklega en konungur svaraði heldur stutt, sagði að þeim hafði ótili mikill staðið af Kveld-Úlfi og sonum hans og lét þess von að sjá Þórólfur mundi enn vera skaplíkur frændum sínum. „Eru þeir allir,“ sagði hann, „ofsamenn miklir svo að þeir hafa ekki hóf við og hirða eigi við hverja þeir eiga að skipta.“

Síðan tók Eiríkur til máls, sagði að Þórólfur hefði vingast við hann og gefið honum ágætan grip, skip það er þeir höfðu þar „hefi eg heitið honum vináttu minni fullkominni. Munu fáir til verða að vingast við mig ef þessum skal ekki tjá. Muntu eigi það vera láta faðir um þann mann er til þess hefir fyrstur orðið að gefa mér dýrgripi.“

Svo kom að konungur hét þeim því áður létti að Þórólfur skyldi í friði vera fyrir honum. „En ekki vil eg,“ kvað hann, „að hann komi á minn fund. En gera máttu Eiríkur hann svo kæran þér sem þú vilt, eða fleiri þá frændur, en vera mun annaðhvort að þeir munu þér verða mjúkari en mér hafa þeir orðið eða þú munt þessar bænar iðrast og svo þess ef þú lætur þá lengi með þér vera.“

Síðan fór Eiríkur blóðex og þeir Þórir heim í Fjörðu, sendu síðan orð og létu segja Þórólfi hvert þeirra erindi var orðið til konungs.

Þeir Þórólfur og Björn voru þann vetur með Brynjólfi en mörg sumur lágu þeir í víking en um vetrum voru þeir með Brynjólfi en stundum með Þóri.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links