Egla, 75

From WikiSaga
Revision as of 15:21, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 75

Kafli 75

Egill kom til Álfs bónda

Egill segir förunautum sínum að hann vill fara ferð sína og bíða eigi lengur. Þorfinnur átti son er Helgi hét. Hann var vasklegur maður. Þeir feðgar buðu Agli föruneyti sitt um skóginn. Sögðu þeir að þeir vissu til sanns að Ármóður skegg hafði gert menn sex á skóginn fyrir þá og þó líkara að vera mundu fleiri sátirnar á skóginum ef hin fyrsta slyppi. Voru þeir Þorfinnur fjórir saman er til ferðar buðust. Þá kvað Egill vísu:

Veistu, ef eg fer með fjóra,
færat þú sex þá er víxli
hlífa hneitiknífum
hjaldrgoðs við mig roðnum.
En ef eg er með átta,
erat þeir tólf er skelfi
að samtogi sverða
svarbrúnum mér hjarta.

Þeir Þorfinnur réðu þessu að þeir fóru á skóginn með Agli og voru þeir þá átta saman. Og er þeir komu þar er sátin var fyrir þá sáu þeir þar menn. En þeir húskarlar Ármóðar er þar sátu sáu að þar fóru átta menn og þótti þeim sér ekki færi til að ráða, leyndust þá í brott á skóginn. En er þeir Egill komu þar sem njósnarmenn höfðu verið þá sáu þeir að ei var allt fritt. Þá mælti Egill að þeir Þorfinnur skyldu aftur fara en þeir buðu að fara lengra. Egill vildi það eigi og bað þá fara heim og þeir gerðu svo og hurfu aftur en þeir Egill héldu fram ferðinni og voru þá fjórir saman.

Og er á leið daginn urðu þeir Egill varir við að þar voru sex menn á skóginum og þóttust vita að þar mundu vera húskarlar Ármóðs. Njósnarmenn hljópu upp og réðu að þeim en þeir í mót og varð sá fundur þeirra að Egill felldi tvo menn en hinir er eftir voru hljópu þá í skóginn.

Síðan fóru þeir Egill sína leið og gerðist þá ekki til tíðinda áður þeir komu af skóginum og tóku gisting við skóginn að bónda þess er Álfur hét og var kallaður Álfur hinn auðgi. Hann var maður gamall og auðigur að fé, maður einrænn svo að hann mátti ekki hafa hjón með sér nema fá ein. Góðar viðtökur hafði Egill þar og var Álfur við hann málreitinn. Spurði Egill margra tíðinda en Álfur sagði slíkt er hann spurði. Þeir ræddu flest um jarlinn og um sendimenn Noregskonungs þá er fyrr höfðu farið austur þangað að heimta skatt. Álfur var engi vinur jarls í ræðum sínum.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links