Egla, 76
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 76
Kafli 76
Egill heimti skatt
Egill bjóst snemma um morguninn til farar og þeir förunautar en að skilnaði gaf Egill Álfi loðúlpu. Álfur tók þakksamlega við gjöfinni „og má hér gera mér af loðkápu“ og bað Egil þar koma til sín er hann færi aftur. Skildust þeir vinir og fór Egill ferðar sinnar og kom aftan dags til hirðar jarlsins Arnviðar og fékk þar allgóðar viðtökur. Var þeim förunautum skipað næst öndvegismanni.
Og er þeir Egill höfðu þar verið um nótt þá bera þeir upp erindi sín við jarlinn og orðsending konungs úr Noregi og segja að hann vill hafa skatt þann allan af Vermalandi sem áður hefir eftir staðið síðan Arnviður var þar yfir settur.
Jarlinn segir að hann hefði af höndum greitt allan skatt og fengið í hendur sendimönnum konungs „en eigi veit eg hvað þeir hafa síðan við gert, hvort þeir hafa fengið konungi eða hafa þeir hlaupið af landi á brott með. En því að þér berið sannar jartegnir til að konungur hefir yður sent þá mun eg greiða skatt þann allan sem hann á að réttu og fá yður í hönd en eigi vil eg ábyrgjast síðan hvernig yður ferst með.“
Dveljast þeir Egill þar um hríð. En áður Egill færi í brott greiðir jarl þeim skattinn. Var það sumt í silfri, sumt í grávöru.
Og er þeir Egill voru búnir þá fóru þeir aftur á leið. Segir Egill jarli að skilnaði þeirra: „Nú munum vér færa konungi skatt þenna er vér höfum við tekið en það skaltu vita jarl að þetta er fé miklu minna en konungur þykist hér eiga og er það þó ekki talið er honum mun þykja, að þér eigið að gjalda aftur sendimenn hans manngjöldum þá er menn kalla að þér munuð hafa drepa látið.“
Jarl segir að það var eigi satt. Skildust þeir að þessu.
Og er Egill var á brottu þá kallaði jarl til sín bræður tvo er hvortveggi hét Úlfur. Hann mælti svo: „Egill sjá hinn mikli er hér var um hríð ætla eg að oss muni allóþarfur er hann kemur til konungs. Megum vér af því marka hvernig hann mun bera fyrir konung vort mál er hann jós slíku í augu oss upp, aftöku konungsmanna. Nú skuluð þið fara eftir þeim og drepa þá alla og láta þá ekki bera róg þetta fyrir konung. Þykir mér það ráðlegast að þér sætið þeim á Eiðaskógi. Hafið með yður menn svo marga að það sé víst að engi þeirra komist undan en þér fáið ekki mannspell af þeim.“
Nú búast þeir bræður til ferðar og höfðu þrjá tigu manna. Fóru þeir á skóginn og kunnu þeir þar hvern stíg fyrir. Héldu þeir þá njósn um ferð Egils.
Á skóginum voru tvennar leiðir. Var önnur að fara yfir ás nokkurn og var þar klif bratt og einstigi yfir að fara, var sú leiðin skemmri, en önnur var fyrir framan ásinn að fara og voru þar fen stór og höggnar á lágir, og var þar og einstigi yfir að fara, og sátu fimmtán í hvorum stað.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)