Egla, 79

From WikiSaga
Revision as of 15:24, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 79

Kafli 79

Dráp Þórðar Lambasonar

Þá er þetta var tíðinda að Egill var út kominn úr þessi ferð þá var héraðið albyggt. Voru þá andaðir allir landnámamenn en synir þeirra lifðu eða sonarsynir og bjuggu þeir þá í héraði.

Ketill gufa kom til Íslands þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska. Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan í brott og inn á Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa. Síðan fór hann inn í Borgarfjörð og sat þar hinn þriðja vetur er síðan er kallað að Gufuskálum en áin Gufá, er þar fellur í ofan, er hann hafði skip sitt í um veturinn.

Þórður Lambason bjó þá á Lambastöðum. Hann var kvongaður og átti son er Lambi hét. Hann var þá vaxinn maður, mikill og sterkur að jöfnum aldri. Eftir um sumarið þá er menn riðu til þings reið Lambi til þings. En Ketill gufa var þá farinn vestur í Breiðafjörð að leita þar um bústaði.

Þá hljópu þrælar hans á brott. Þeir komu fram um nótt að Þórðar á Lambastöðum og báru þar eld að húsum og brenndu þar inni Þórð og hjón hans öll en brutu upp búr hans og báru út gripi og vöru. Síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu og fóru síðan út til Álftaness.

Þann morgun um sólarupprásarskeið kom Lambi heim og hafði hann séð eldinn um nóttina. Þeir voru nokkurir menn saman. Hann reið þegar að leita þrælanna. Ríða þar menn af bæjum til móts við hann. Og er þrælarnir sáu eftirför þá stefndu þeir undan en létu lausan ránsfeng sinn. Hljópu sumir á Mýrar út en sumir út með sjó til þess að fjörður var fyrir þeim.

Þá sóttu þeir Lambi eftir þeim og drápu þar þann er Kóri hét, því heitir þar síðan Kóranes, en Skorri og Þormóður og Svartur gengu á kaf og summu frá landi. Síðan leituðu þeir Lambi að skipum og reru að leita þeirra og fundu þeir Skorra í Skorrey og drápu hann þar. Þá reru þeir út til Þormóðsskers og drápu þar Þormóð. Er við hann skerið kennt. Þeir hentu þrælana enn fleiri sem síðan eru örnefni við kennd.

Lambi bjó síðan að Lambastöðum og var gildur bóndi. Hann var rammur að afli. Engi var hann uppivöðslumaður.

Ketill gufa fór síðan vestur í Breiðafjörð og staðfestist í Þorskafirði. Við hann er kenndur Gufudalur og Gufufjörður. Hann átti Ýri, dóttur Geirmundar heljarskinns. Vali var son þeirra.

Grímur hét maður og var Svertingsson. Hann bjó að Mosfelli fyrir neðan Heiði. Hann var auðigur og ættstór. Rannveig var systir hans sammæðra er átti Þóroddur goði í Ölfusi. Var þeirra son Skafti lögsögumaður. Grímur var og lögsögumaður síðan. Hann bað Þórdísar Þórólfsdóttur, bróðurdóttur Egils og stjúpdóttur. Egill unni Þórdísi engum mun minna en sínum börnum. Hún var hin fríðasta kona. En fyrir því að Egill vissi að Grímur var maður göfugur og sá ráðakostur var góður þá var það að ráði gert. Var Þórdís gift Grími. Leysti Egill þá af hendi föðurarf hennar. Fór hún til bús með Grími og bjuggu þau lengi að Mosfelli.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links