Egla, 81
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 81
Kafli 81
Einar hét maður. Hann var son Helga Óttarssonar, Bjarnarsonar hins austræna er nam lönd í Breiðafirði. Einar var bróðir Ósvífurs hins spaka. Einar var þegar á unga aldri mikill og sterkur og hinn mesti atgervimaður. Hann tók að yrkja þegar er hann var ungur og var maður námgjarn.
Það var eitt sumar á alþingi að Einar gekk til búðar Egils Skalla-Grímssonar og tókust þeir að orðum og kom þar brátt talinu að þeir ræddu um skáldskap. Þótti hvorumtveggja þær ræður skemmtilegar.
Síðan vandist Einar oftlega að ganga til tals við Egil. Gerðist þar vinátta mikil. Einar hafði litlu áður komið út úr för. Egill spurði Einar mjög austan tíðinda og að vinum sínum, svo og að þeim er hann þóttist vita að óvinir hans voru. Hann spurði og mjög eftir stórmenni. Einar spurði og í móti Egil frá þeim tíðindum er fyrr höfðu gerst um ferðir Egils og stórvirki hans, en það tal þótti Egli gott og rættist af vel. Einar spurði Egil hvar hann hefði þess verið staddur að hann hafði mest reynt sig og bað hann það segja sér. Egill kvað:
Börðumk einn við átta,
en við ellifu tysvar,
svá fengum val vargi,
varðk einn bani þeira;
skiptumsk hart af heiptum
hlífar skelfiknífum;
létk af Emblu aski
eld valbasta kastat.
Þeir Egill og Einar mæltu til vináttu með sér að skilnaði. Einar var löngum utanlendis með tignum mönnum. Einar var ör maður og oftast félítill en skörungur mikill og drengur góður. Hann var hirðmaður Hákonar jarls Sigurðarsonar.
Í þann tíma var í Noregi ófriður mikill og bardagar með þeim Hákoni jarli og Eiríkssonum og stukku ýmsir úr landi. Haraldur konungur Eiríksson féll suður í Danmörk, að Hálsi í Limafirði, og var hann svikinn. Þá barðist hann við Harald Knútsson er kallaður var Gull-Haraldur, og þá Hákon jarl.
Þar féll og þá með Haraldi konungi Arinbjörn hersir er fyrr var frá sagt. Og er Egill spurði fall Arinbjarnar þá kvað hann:
Þverra nú, þeirs þverrðu,
þingbirtingar Ingva,
hvar skalk manna mildra,
mjaðveitar dag, leita,
þeira's hauks fyr handan
háfjöll digulsnjávi
jarðar gjörð við orðum
eyneglda mér hegldu.
Einar Helgason skáld var kallaður skálaglamm. Hann orti drápu um Hákon jarl er kölluð er Vellekla og var það mjög lengi að jarlinn vildi eigi hlýða kvæðinu því að hann var reiður Einari. Þá kvað Einar:
Gerðak veig um virða
vörð, þanns sitr at jörðu,
iðrumk þess, meðan aðrir,
örr Váfaðar, sváfu;
hykk, at hodda stökkvi,
hinig sóttak gram, þótti,
fýsinn, fræknum vísa,
ferri, skald in verra.
Og enn kvað hann:
Sækjum jarl, þanns auka
ulfs verð þorir sverðum;
skipum borðróinn barða
baugskjöldum Sigvalda;
drepr eigi sá sveigir
sárlinns, es gram finnum,
rönd berum út á andra
Endils, við mér hendi.
Jarlinn vildi eigi að Einar færi á brott og hlýddi þá kvæðinu og síðan gaf hann Einari skjöld og var hann hin mesta gersemi. Hann var skrifaður fornsögum en allt milli skriftanna voru lagðar yfir spengur af gulli og settur steinum. Einar fór til Íslands og til vistar með Ósvífi bróður sínum.
En um haustið reið Einar vestan og kom til Borgar og gisti þar. Egill var þá eigi heima og var hann farinn norður til héraða og var hans þá heim von. Einar beið hans þrjár nætur en það var engi siður að sitja lengur en þrjár nætur að kynni. Bjóst Einar þá í brott. Og er hann var búinn þá gekk hann til rúms Egils og festi þar upp skjöldinn þann hinn dýra og sagði heimamönnum að hann gaf Agli skjöldinn.
Síðan reið Einar í brott en þann sama dag kom Egill heim. En er hann kom inn til rúms síns þá sá hann skjöldinn og spurði hver gersemi þá ætti. Honum var sagt að Einar skálaglamm hafði þar komið og hann hafði gefið honum skjöldinn.
Þá mælti Egill: „Gefi hann allra manna armastur. Ætlar hann að eg skuli þar vaka yfir og yrkja um skjöld hans? Nú takið hest minn. Skal eg ríða eftir honum og drepa hann.“
Honum var þá sagt að Einar hafði riðið snemma um morguninn „mun hann nú kominn vestur til Dala.“
Síðan orti Egill drápu og er þetta upphaf að:
Mál es lofs at lýsa
ljósgarð, es þák, barða,
mér kom heim at hendi
hoddsendis boð, enda;
skalat at grundar Gylfa
glaums misfengnir taumar,
hlýðið ér til orða,
erðgróins mér verða.
Egill og Einar héldu vináttu sinni meðan þeir lifðu báðir. En svo er sagt að færi skjöldurinn um síðir að Egill hafði hann með sér í brúðför þá er hann fór norður á Víðimýri með Þorkatli Gunnvaldssyni og þeir Rauða-Bjarnarsynir, Trefill og Helgi. Þá var spillt skildinum og kastað í sýruker. En síðan lét Egill taka af búnaðinn og voru tólf aurar gulls í spöngunum.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)