Egla, 86
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 86
Kafli 86
Af Þorgeiri
Þorgeir blundur var þar á þinginu, systurson Egils, og hafði mikið lið veitt Þorsteini í þessum málum. Hann bað þá feðga gefa sér land nokkuð út þar á Mýrunum. Hann bjó áður fyrir sunnan Hvítá fyrir neðan Blundsvatn. Egill tók vel á því og fýsti Þorstein að hann léti hann þangað fara. Þeir settu Þorgeir niður að Ánabrekku en Steinar færði bústað sinn út yfir Langá og settist niður að Leirulæk. En Egill reið heim suður á Nes og skildust þeir með blíðskap feðgar.
Maður sá var með Þorsteini er Íri hét, hverjum manni fóthvatari og allra manna skyggnastur. Hann var útlendur og lausingi Þorsteins en þó hafði hann fjárgæslur og þær mest að safna geldfé upp til fjalls á vorum en á haust ofan til réttar. En nú eftir fardaga lét Þorsteinn safna geldfé því er eftir hafði verið um vorið og ætlaði að láta reka það til fjalls. Íri var þá í fjárréttinum en Þorsteinn og húskarlar hans reið upp til fjalls og voru þeir átta saman.
Þorsteinn lét gera garð um þvera Grísartungu milli Langavatns og Gljúfurár. Lét hann þar að vera marga menn um vorið. Og er Þorsteinn hafði litið yfir verk húskarla sinna þá reið hann heim. Og er hann kom gegnt þingstöð þá kom Íri þar hlaupandi í móti þeim og sagði að hann vill mæla við Þorstein einmæli. Þorsteinn mælti að förunautar hans skyldu ríða fyrir meðan þeir töluðu.
Íri segir Þorsteini að hann hefði farið upp á Einkunnir um daginn og séð til sauða. „En eg sá,“ segir hann, „í skóginum fyrir ofan veturgötu að skinu við tólf spjót og skildir nokkurir.“
Þorsteinn segir hátt svo að förunautar hans heyrðu svo beint: „Hví mun honum svo annt að hitta mig að eg megi eigi ríða heim leiðar minnar. En þó mun Ölvaldi þykja ósannlegt að eg synji honum máls ef hann er sjúkur.“
Íri hljóp þá sem mest mátti hann til fjalls upp.
Þorsteinn segir förunautum sínum: „Lengja ætla eg nú leiðina ef vér skulum fyrst ríða suður til Ölvaldsstaða. Ölvaldur sendi mér orð að eg skyldi finna hann. Mun honum þó eigi miklu þykja launaður uxinn er hann gaf mér í fyrra haust að eg hitti hann ef honum þykir máli skipta.“
Síðan riðu þeir Þorsteinn suður um mýrar fyrir ofan Stangarholt og svo suður til Gufár og ofan með ánni reiðgötur. Og er hann kom niður frá Vatni þá sáu þeir fyrir sunnan ána naut mörg og mann hjá. Var þar húskarl Ölvalds. Spurði Þorsteinn hvernig þar væri heilt. Hann sagði að þar var vel heilt og Ölvaldur var í skógi að viðarhöggvi.
„Þá skaltu,“ segir Þorsteinn, „segja honum ef hann á við mig skylt erindi að hann komi til Borgar en eg mun nú ríða heim.“ Og svo gerði hann.
En það spurðist þó síðan að Steinar Sjónason hafði þann sama dag setið uppi við Einkunnir með tólfta mann. Þorsteinn lét sem hann hefði ekki spurt og var það kyrrt síðan.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)