Egla, 11
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 11
Kafli 11
Þórólfur bauð konungi
Haraldur konungur fór það sumar á Hálogaland og voru gervar veislur í móti honum, bæði þar er hans bú voru og svo gerðu lendir menn og ríkir bændur.
Þórólfur bjó veislu í móti konungi og lagði á kostnað mikinn. Var það ákveðið nær konungur skyldi þar koma. Þórólfur bauð þangað fjölda manns og hafði þar allt hið besta mannval það er kostur var. Konungur hafði nær þrjú hundruð manna er hann kom til veislunnar, en Þórólfur hafði fyrir fimm hundruð manna. Þórólfur hafði látið búa kornhlöðu mikla er þar var, og látið leggja bekki í og lét þar drekka því að þar var engi stofa svo mikil er það fjölmenni mætti allt inni vera. Þar voru og festir skildir umhverfis í húsinu.
Konungur settist í hásæti. En er alskipað var hið efra og hið fremra þá sást konungur um og roðnaði og mælti ekki og þóttust menn finna að hann var reiður. Veisla var hin prúðlegasta og öll föng hin bestu. Konungur var heldur ókátur og var þar þrjár nætur sem ætlað var.
Þann dag er konungur skyldi brott fara, gekk Þórólfur til hans og bað að þeir skyldu fara ofan til strandar. Konungur gerði svo. Þar flaut fyrir landi dreki sá er Þórólfur hafði gera látið, með tjöldum og öllum reiða. Þórólfur gaf konungi skipið og bað að konungur skyldi svo virða sem honum hafði til gengið að hann hafði fyrir því haft fjölmenni svo mikið að það væri konungi vegsemd en ekki fyrir kapps sakir við hann. Konungur tók þá vel orðum Þórólfs og gerði sig þá blíðan og kátan. Lögðu þá og margir góð orð til, sögðu sem satt var, að veislan var hin vegsamlegasta og útleiðslan hin skörulegasta og konungi var styrkur mikill að slíkum mönnum, skildust þá með kærleik miklum.
Fór konungur norður á Hálogaland sem hann hafði ætlað og sneri aftur suður er á leið sumarið, fór þá enn að veislum þar sem fyrir honum var búið.
References
- ↑ REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)