Egla, 80
Egils saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
Chapter 80
Kafli 80
Ólafur fékk Þorgerðar
Ólafur hét maður, son Höskulds Dala-Kollssonar og son Melkorku dóttur Mýrkjartans Írakonungs. Ólafur bjó í Hjarðarholti í Laxárdal vestur í Breiðafjarðardölum. Ólafur var stórauðigur að fé. Hann var þeirra manna fríðastur sýnum er þá voru á Íslandi. Hann var skörungur mikill.
Ólafur bað Þorgerðar dóttur Egils. Þorgerður var væn kona og kvenna mest, vitur og heldur skapstór en hversdaglega kyrrlát. Egill kunni öll deili á Ólafi og vissi að það gjaforð var göfugt og fyrir því var Þorgerður gift Ólafi. Fór hún til bús með honum í Hjarðarholt. Þeirra börn voru þau Kjartan, Þorbergur, Halldór, Steindór, Þuríður, Þorbjörg, Bergþóra. Hana átti Þórhallur goði Oddason. Þorbjörgu átti fyrr Ásgeir Knattarson en síðar Vermundur Þorgrímsson. Þuríði átti Guðmundur Sölmundarson. Voru þeirra synir Hallur og Víga-Barði.
Össur Eyvindarson bróðir Þórodds í Ölfusi fékk Beru dóttur Egils.
Böðvar son Egils var þá frumvaxta. Hann var hinn efnilegasti maður, fríður sýnum, mikill og sterkur svo sem verið hafði Egill eða Þórólfur á hans aldri. Egill unni honum mikið. Var Böðvar og elskur að honum.
Það var eitt sumar að skip var í Hvítá og var þar mikil kaupstefna. Hafði Egill þar keypt við margan og lét flytja heim á skipi. Fóru húskarlar og höfðu skip áttært er Egill átti. Það var þá eitt sinn að Böðvar beiddist að fara með þeim og þeir veittu honum það. Fór hann þá inn á Völlu með húskörlum. Þeir voru sex saman á áttæru skipi. Og er þeir skyldu út fara þá var flæðurin síð dags og er þeir urðu hennar að bíða þá fóru þeir um kveldið síð. Þá hljóp á útsynningur steinóði en þar gekk í móti útfallsstraumur. Gerði þá stórt á firðinum sem þar kann oft verða. Lauk þar svo að skipið kafði undir þeim og týndust þeir allir. En eftir um daginn skaut upp líkunum. Kom lík Böðvars inn í Einarsnes en sum komu fyrir sunnan fjörðinn og rak þangað skipið. Fannst það inn við Reykjarhamar.
Þann dag spurði Egill þessi tíðindi og þegar reið hann að leita líkanna. Hann fann rétt lík Böðvars. Tók hann það upp og setti í kné sér og reið með út í Digranes til haugs Skalla-Gríms. Hann lét þá opna hauginn og lagði Böðvar þar niður hjá Skalla-Grími. Var síðan aftur lokinn haugurinn og var eigi fyrr lokið en um dagsetursskeið. Eftir það reið Egill heim til Borgar og er hann kom heim þá gekk hann þegar til lokrekkju þeirrar er hann var vanur að sofa í. Hann lagðist niður og skaut fyrir loku. Engi þorði að krefja hann máls.
En svo er sagt, þá er þeir settu Böðvar niður, að Egill var búinn, hosan var strengd fast að beini. Hann hafði fustanskyrtil rauðan, þröngvan upphlutinn og lás að síðu. En það er sögn manna að hann þrútnaði svo að kyrtillinn rifnaði af honum og svo hosurnar.
En eftir um daginn lét Egill ekki upp lokrekkjuna. Hann hafði þá og engan mat né drykk. Lá hann þar þann dag og nóttina eftir. Engi maður þorði að mæla við hann.
En hinn þriðja morgun þegar er lýsti þá lét Ásgerður skjóta hesti undir mann, reið sá sem ákaflegast vestur í Hjarðarholt, og lét segja Þorgerði þessi tíðindi öll saman og var það um nónskeið er hann kom þar. Hann sagði og það með að Ásgerður hafði sent henni orð að koma sem fyrst suður til Borgar.
Þorgerður lét þegar söðla sér hest og fylgdu henni tveir menn. Riðu þau um kveldið og nóttina til þess er þau komu til Borgar. Gekk Þorgerður þegar inn í eldahús. Ásgerður heilsaði henni og spurði hvort þau hefðu náttverð etið.
Þorgerður segir hátt: „Engvan hefi eg náttverð haft og engan mun eg fyrr en að Freyju. Kann eg mér eigi betri ráð en faðir minn. Vil eg ekki lifa eftir föður minn og bróður.“
Hún gekk að lokhvílunni og kallaði: „Faðir, lúk upp hurðunni, vil eg að við förum eina leið bæði.“
Egill spretti frá lokunni. Gekk Þorgerður upp í hvílugólfið og lét loku fyrir hurðina. Lagðist hún niður í aðra rekkju er þar var.
Þá mælti Egill: „Vel gerðir þú dóttir er þú vilt fylgja föður þínum. Mikla ást hefir þú sýnt við mig. Hver von er að eg muni lifa vilja við harm þenna?“
Síðan þögðu þau um hríð.
Þá mælti Egill: „Hvað er nú dóttir, tyggur þú nú nokkuð?“
„Tygg eg söl,“ segir hún, „því að eg ætla að mér muni þá verra en áður. Ætla eg ella að eg muni of lengi lifa.“
„Er það illt manni?“ segir Egill.
„Allillt,“ segir hún, „viltu eta?“
„Hvað mun varða?“ segir hann.
En stundu síðar kallaði hún og bað gefa sér drekka. Síðan var henni gefið vatn að drekka.
Þá mælti Egill: „Slíkt gerir að er sölin etur, þyrstir æ þess að meir.“
„Viltu drekka faðir?“ segir hún.
Hann tók við og svalg stórum og var það í dýrshorni.
Þá mælti Þorgerður: „Nú erum við vélt. Þetta er mjólk.“
Þá beit Egill skarð úr horninu, allt það er tennur tóku, og kastaði horninu síðan.
Þá mælti Þorgerður: „Hvað skulum við nú til ráðs taka? Lokið er nú þessi ætlan. Nú vildi eg faðir að við lengdum líf okkart svo að þú mættir yrkja erfikvæði eftir Böðvar en eg mun rísta á kefli, en síðan deyjum við ef okkur sýnist. Seint ætla eg Þorstein son þinn yrkja kvæðið eftir Böðvar en það hlýðir eigi að hann sé eigi erfður því að eigi ætla eg okkur sitja að drykkjunni þeirri að hann er erfður.“
Egill segir að það var þá óvænt að hann mundi þá yrkja mega þótt hann leitaði við „en freista má eg þess,“ segir hann.
Egill hafði þá átt son er Gunnar hét og hafði sá og andast litlu áður.
Og er þetta upphaf kvæðis:
1. Mjök erum tregt
tungu að hræra
eða loftvægi
ljóðpundara.
Era nú vænlegt
um Viðris þýfi
né hógdrægt
úr hugar fylgsni.
2. Era andþeystr
því að ekki veldr
höfuglegr,
úr hyggju stað
fagnafundr
Þriggja niðja,
ár borinn
úr jötunheimum,
3. Lastalaus
er lifnaði
á Nökkvers
nökkva bragi.
Jötuns háls
undir flota
Náins niðr
fyr naustdurum.
4. Því að ætt mín
á enda stendr,
sem hræbarnir
hlynnar marka.
Era karskr maðr
sá er köggla ber
frænda hrörs
af fletjum niðr.
5. Þó mun ég mitt
og móður hrör
föður fall
fyrst um telja.
Það ber ég út
úr orðhofi
mærðar timbur
máli laufgað.
6. Grimmt varum hlið
það er hrönn um braut
föður míns
á frændgarði.
Veit ég ófullt
og opið standa
sonar skarð
er mér sjár um vann.
7. Mjög hefr Rán
ryskt um mig.
Er ég ofsnauðr
að ástvinum.
Sleit mar bönd
minnar ættar,
... þátt
af sjálfum mér.
8. Veistu um þá sök
sverði of rækag,
var ölsmiðr
allra tíma.
Hroða vogs bræðr,
ef vega mættag,
færi ég andvígr
Ægis mani.
9. En ég ekki
eiga þóttumst
sakar afl
við súðs bana
því að alþjóð
fyr augum verðr
gamals þegns
gengileysi.
10. Mig hefr mar
miklu ræntan,
grimmt er fall
frænda að telja,
síðan er minn
á munvega
ættar skjöldr
aflífi hvarf.
11. Veit ég það sjálfr
að í syni mínum
vara ills þegns
efni vaxið
ef sá randviðr
röskvask næði
uns her-Gauts
hendr of tæki.
12. Æ lét flest
það er faðir mælti
þótt öll þjóð
annað segði,
mér upp hélt
of verbergi
og mitt afl
mest um studdi.
13. Oft kemr mér
mána bjarnar
í byrvind
bræðraleysi.
Hyggjumst um
er hildr þróast,
nýsumst hins
og hygg að því
14. hver mér hugaðr
á hlið standi
annar þegn
við óðræði.
Þarf ég hans oft
of hergjörum.
Verð ég varfleygr,
er vinir þverra.
15. Mjög er torfyndr
sá er trúa knegum
of alþjóð
Elgjar gálga
því að niflgóðr
niðja steypir
bróður hrör
við baugum selur.
16. Finn ek það oft,
er fjár beiðir ...
17. Það er og mælt
að enginn geti
sonar iðgjöld
nema sjálfr ali túni
þann nið
er öðrum sé
borinn maðr
í bróður stað.
18. Erumka þokkt
þjóða sinni
þótt sérhver
sátt um haldi.
Bir er Bískips
í bæ kominn,
kvonar son,
kynnis leita.
19. En mér fannst
í föstum þokk
hrosta hilmir
á hendi stendr.
Máka eg upp
í aróar grímu,
rýnisreið,
réttri halda,
20. síð er son minn
sóttar brími
heiftuglegr
úr heimi nam,
þann eg veit
að varnaði
vamma var
við námæli.
21. Það man ég enn
er upp um hóf
í goðheim
Gauta spjalli
ættar ask
þann er óx af mér,
og kynvið
kvonar minnar.
22. Átti ég gott
við geira drottin.
Gerðumst tryggr
að trúa honum,
áðr um að
vagna runni,
sigrhöfundr,
um sleit við mig.
23. Blótka eg því
bróður Vílis,
goðs jaðar,
að eg gjarn sék.
Þó hefr Míms vinur
mér um fengnar
bölva bætr
ef hið betra teldi.
24. Gafumst íþrótt
úlfs um bági
vígi vanur
vammi firrða
og það geð
er eg gerði mér
vísa fjandr
af vélöndum.
25. Nú er mér torvelt.
Tveggja bága
njörva nift
á nesi stendr.
Skal eg þó glaður
með góðan vilja
og óhryggr
heljar bíða.
Egill tók að hressast svo sem fram leið að yrkja kvæðið og er lokið var kvæðinu þá færði hann það Ásgerði og Þorgerði og hjónum sínum. Reis hann þá upp úr rekkju og settist í öndvegi. Kvæði þetta kallaði hann Sonatorrek.[1] Síðan lét Egill erfa sonu sína eftir fornri siðvenju. En er Þorgerður fór heim þá leiddi Egill hana með gjöfum í brott.
Egill bjó að Borg langa ævi og varð maður gamall en ekki er getið að hann ætti málaferli við menn hér á landi. Ekki er og sagt frá hólmgöngum hans eða vígaferlum síðan er hann staðfestist hér á Íslandi.
Svo segja menn að Egill færi ekki í brott af Íslandi síðan er þetta var tíðinda er nú var áður frá sagt, og bar það mest til þess að Egill mátti ekki vera í Noregi af þeim sökum sem fyrr var frá sagt að konungar þóttust eiga við hann. Bú hafði hann rausnarsamlegt því að fé skorti eigi. Hann hafði og gott skaplyndi til þess.
Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð fyrir Noregi langa stund en hinn efra hlut ævi hans þá komu synir Eiríks til Noregs og deildu til ríkis í Noregi við Hákon konung og áttu þeir orustu saman og hafði Hákon jafnan sigur. Hina síðustu orustu áttu þeir á Hörðalandi, í Storð á Fitjum. Þar fékk Hákon konungur sigur og þar með banasár. Eftir það tóku þeir konungdóm í Noregi Eiríkssynir.
Arinbjörn hersir var með Haraldi Eiríkssyni og gerðist ráðgjafi hans og hafði af honum veislur stórlega miklar. Var hann forstjóri fyrir liði og landvörn. Arinbjörn var hermaður mikill og sigursæll. Hann hafði að veislum Fjarðafylki.
Egill Skalla-Grímsson spurði þessi tíðindi, að konungaskipti var orðið í Noregi, og það með að Arinbjörn var þá kominn í Noreg til búa sinna og hann var þá í virðing mikilli. Þá orti Egill kvæði um Arinbjörn og er þetta upphaf að:
1. Emk hraðkvæðr
hilmi at mæra,
en glapmáll
um glöggvinga,
opinspjallr
of jöfurs dáðum,
en þagmælskr
um þjóðlygi.
2. skaupi gnægðr
skrökberöndum,
emk vilkvæðr
um vini mína.
sótt hefi eg mörg
mildinga sjöt
með grunlaust
grepps um æði.
3. Hafði eg endr
Ynglings burar,
ríks konungs,
reiði fengna;
Dró eg djarfhött
um dökkva skör,
lét eg hersi
heim um sóttan.
4. þar er allvaldr
und ægishjalmi,
ljóðfrömuðr,
að landi sat.
Stýrir konungr
við stirðan hug
í Jórvík
úrgum hjörvi.
5. Vara það tunglskin
tryggt að líta,
né ógnlaust,
Eiríks bráa;
þá er ormfránn
ennimáni
skein allvalds
ægigeislum.
6. Þó eg bólstrverð
um bera þorði
maka hængs
markar dróttni,
svo að Yggs full
ýranda kom
að hvers manns
hlusta munnum.
7. Né hamfagrt
hölðum þótti
skaldfé mitt
að skata húsum,
þá er ulfgrátt
við Yggjar miði
hattar staup
at hilmi þák.
8. Við því tók,
en tiru fylgðu
sökk svartleit
síðra brúna
ok sá munnr,
er mína bar
höfuðlausn
fyr hilmis kné.
9. Þar er tannfjöld
með tungu þák
ok hlertjöld
hlustum göfguð
en sú gjöf
gulli betri
hróðugs konungs
um heitin var.
10. Þar stóð mér
mörgum betri
hoddfinnendum
á hlið aðra
tryggr vinr minn,
sá er trúa knáttag,
heiðþróaðr,
hverju ráði.
11. Arinbjörn,
er oss einn um hóf,
knía fremstr,
frá konungs fjónum,
vin þjóðans,
er vætki laug
í herskás
hilmis garði.
12. Ok . . .
. . . stuðli lét
margframaðr
minna dáða,
sem en . . . að . . .
. . . Halfdanar
að í væri
ættar skaði.
13. Mun eg vinþjófr
verða heitinn
ok váljúgt
at Viðris fulli,
hróðrs örverðr
ok heitrofi,
nema þess gagns
gjöld um vinnag.
14. Nú er það sét,
hvar er setja skal
bragar fótum
brattstiginn
fyr mannfjöld,
margra sjónir,
hróðr máttigs
hersa kundar.
15. Nú erumk auðskæf
ómunlokri
magar Þóris
mærðar efni,
vinar míns,
því að valið liggja
tvenn ok þrenn
á tungu mér.
16. Það tel eg fyrst,
er flestr um veit
og alþjóð
eyrun sækir,
hvé mildgeðr
mönnum þótti
bjóða björn
birkis ótta.
17. Það allsheri
at undri gefst,
hvé hann urþjóð
auði gnægir,
en grjótbjörn
um gæddan hefr
Freyr ok Njörðr
af fjár afli.
18. En Hróalds
á höfuðbaðmi
auðs iðgnótt
að ölnum sifjar,
sé . . .
af vegum öllum
á vindkers
víðum botni.
19. Hann drógseil
um eiga gat
sem hildingr
heyrnar spanna,
goðum ávarðr
með gumna fjöld,
vinr véþorms,
veklinga tæs.
20. Það hann vinnr,
er þrjóta mun
flesta menn,
þótt fé eigi.
Kveðka eg skammt
meðal skata húsa
né auðskeft
almanna spjör.
21. Gekk maðr engi
að Arinbjarnar
úr legvers
löngum knerri
háði leiddr
né heiftkviðum
með atgeirs
auðar toftir.
22. Hinn er fégrimmr,
er í Fjörðum býr,
sá eg um dólgr
Draupnis niðja,
en sökunautr
Sónar hvinna,
hringum . . .
hoddvegandi.
23. Hann aldrteig
um eiga gat
fjölsáinn
með friðar spjöllum
. . .
24. Það er órétt,
ef orpið hefr
á máskeið
mörgu gagni,
rammriðin
Rökkva stóði,
vellvönuðr,
því er veitti mér.
25. Vask árvakr,
bark orð saman
með málþjóns
morgunverkum,
hlóð eg lofköst
þann er lengi stendr
óbrotgjarn
í bragar túni.
References
- ↑ torrek: „Mjer þykir líklegt, að Egill hafi myndað orðið torrek við þetta tækifæri. Síðar hefur merking þess færzt nokkuð til, en þó á eðlilegan hátt (torsótt hefnd, torbætt tjón, þungbær missir)“ Árni Pálsson. Sonatorrek (p. 153).