Egla, 14

From WikiSaga
Revision as of 13:56, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 14

Kafli 14

Af Þórólfi

Þórólfur fór þann vetur enn á mörkina og hafði með sér nær hundraði manna. Fór hann enn sem hinn fyrra vetur, átti kaupstefnu við Finna og fór víða um mörkina.

En er hann sótti langt austur og þar spurðist til ferðar hans þá komu Kvenir til hans og sögðu að þeir voru sendir til hans og það hafði gert Faravið konungur af Kvenlandi, sögðu að Kirjálar herjuðu á land hans en hann sendi til þess orð að Þórólfur skyldi fara þangað og veita honum lið. Fylgdi það orðsending að Þórólfur skyldi hafa jafnmikið hlutskipti sem konungur en hver manna hans sem þrír Kvenir.

En það voru lög með Kvenum að konungur skyldi hafa úr hlutskipti þriðjung við liðsmenn og umfram að afnámi bjórskinn öll og safala og askraka.

Þórólfur bar þetta fyrir liðsmenn sína og bauð þeim kost á hvort fara skyldi eða eigi, en það kjöru flestir að hætta til er féfang lá við svo mikið og var það af ráðið að þeir fóru austur með sendimönnum.

Finnmörk er stórlega víð. Gengur haf fyrir vestan og þar af firðir stórir, svo og fyrir norðan og allt austur um, en fyrir sunnan er Noregur og tekur mörkin nálega allt hið efra suður svo sem Hálogaland hið ytra. En austur frá Naumudal er Jamtaland og þá Helsingjaland og þá Kvenland, þá Finnland, þá Kirjálaland en Finnmörk liggur fyrir ofan þessi öll lönd og eru víða fjallbyggðir upp á mörkina, sumt í dali en sumt með vötnum. Á Finnmörk eru vötn furðulega stór og þar með vötnunum marklönd stór en há fjöll liggja eftir endilangri mörkinni og eru það kallaðir Kilir.

En er Þórólfur kom austur til Kvenlands og hitti konung Faravið þá búast þeir til ferðar og höfðu þrjú hundruð manna en Norðmenn hið fjórða, og fóru hið efra um Finnmörk og komu þar fram er Kirjálar voru á fjalli, þeir er fyrr höfðu herjað á Kveni. En er þeir urðu varir við ófrið söfnuðust þeir saman og fóru í mót, væntu sér enn sem fyrr sigurs. En er orusta tókst gengu Norðmenn hart fram. Höfðu þeir skjöldu enn traustari en Kvenir. Sneri þá mannfalli í lið Kirjála, féll margt en sumir flýðu. Fengu þeir Faravið konungur og Þórólfur þar ógrynni fjár, sneru aftur til Kvenlands en síðan fór Þórólfur og hans lið á mörkina. Skildu þeir Faravið konungur með vináttu.

Þórólfur kom af fjallinu ofan í Vefsni, fór þá fyrst til bús síns á Sandnes, dvaldist þar um hríð, fór norðan um vorið með liði sínu til Torga. En er hann kom þar var honum sagt að Hildiríðarsynir höfðu verið um veturinn í Þrándheimi með Haraldi konungi og það með að þeir mundu ekki af spara að rægja Þórólf við konung. Var Þórólfi margt sagt frá því hvert efni þeir höfðu í um rógið.

Þórólfur svarar svo: „Eigi mun konungur trúa því þótt slík lygi sé upp borin fyrir hann því að hér eru engi efni til þessa, að eg muni svíkja hann því að hann hefir marga hluti gert stórvel til mín en engan hlut illa og er að firr, að eg mundi vilja gera honum mein þótt eg ætti þess kosti, að eg vil miklu heldur vera lendur maður hans en heita konungur og væri annar samlendur við mig sá er mig mætti gera að þræli sér ef vildi.“


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links