Egla, 19

From WikiSaga
Revision as of 14:00, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 19

Kafli 19

Af hernaði Þórólfs

Þá er vor kom og snæ leysti og ísa þá lét Þórólfur fram setja langskip mikið er hann átti, og lét það búa og skipaði húskörlum sínum og hafði með sér meir en hundrað manna. Var það lið hið fríðasta og vopnað allvel.

En er byr gaf hélt Þórólfur skipinu suður með landi og þegar er hann kom suður um Byrðu þá héldu þeir útleið fyrir utan eyjar allar en stundum svo að sjór var í miðjum hlíðum, létu svo ganga suður fyrir landið, höfðu ekki tíðindi af mönnum fyrr en þeir komu austur í Vík. Þá spurðu þeir að Haraldur konungur var í Víkinni og hann ætlaði um sumarið að fara til Upplanda. Ekki vissu landsmenn til um ferð Þórólfs. Honum byrjaði vel og hélt hann suður til Danmerkur og þaðan í Austurveg og herjaði þar um sumarið og varð ekki gott til fjár.

Um haustið hélt hann austan til Danmerkur í þann tíma er leystist Eyrafloti. Þar hafði verið um sumarið, sem vant var, fjöldi skipa af Noregi. Þórólfur lét það lið sigla allt fyrir og gerði ekki vart við sig. Hann sigldi einn dag að kveldi til Mostrasunds. Þar var fyrir í höfninni knörr einn mikill kominn af Eyri. Þórir þruma hét maður sá er stýrði. Hann var ármaður Haralds konungs. Hann réð fyrir búi hans í Þrumu. Það var mikið bú. Sat konungur þar löngum þá er hann var í Víkinni. Þurfti þar stór föng til bús þess. Hafði Þórir farið fyrir þá sök til Eyrar að kaupa þar þunga, malt og hveiti og hunang, og varið þar til fé miklu er konungur átti. Þeir lögðu að knerrinum og buðu þeim Þóri kost á að verjast en fyrir því, að þeir Þórir höfðu engan liðskost til varnar móti fjölmenni því er Þórólfur hafði, gáfust þeir upp. Tók Þórólfur skip það með öllum farmi en setti Þóri upp í eyna. Hélt Þórólfur þá skipum þeim báðum norður með landi.

En er hann kom fyrir Elfina þá lágu þeir þar og biðu nætur. En er myrkt var reru þeir langskipinu upp í ána og lögðu til bæjar þess er þeir áttu, Hallvarður og Sigtryggur. Koma þeir þar fyrir dag og slógu manngarð, æptu síðan heróp og vöknuðu þeir við það er inni voru og hljópu þegar upp til vopna sinna. Flýði Þorgeir þegar út úr svefnskemmunni. Skíðgarður hár var um bæinn. Þorgeir hljóp að skíðgarðinum og greip hendinni upp á garðstaurinn og kastaði sér út um garðinn. Þar var nær staddur Þorgils gjallandi. Hann sveiflaði til sverðinu eftir Þorgeiri og kom á höndina og tók af við garðstaurinn. Hljóp Þorgeir síðan til skógar en Þórður bróðir hans var þar felldur og meir en tuttugu menn. Síðan rændu þeir þar fé öllu og brenndu bæinn, fóru síðan út eftir ánni til hafs. Þeim byrjaði vel og sigldu norður í Víkina. Þá hittu þeir enn fyrir sér kaupskip mikið er áttu Víkverjar, hlaðið af malti og mjölvi. Þeir Þórólfur lögðu að skipi því en þeir er fyrir voru þóttust engi föng hafa til varnar og gáfust upp. Gengu þeir á land upp slyppir en þeir Þórólfur tóku skipið með farmi og fóru leiðar sinnar. Hafði Þórólfur þá þrjú skip er hann sigldi austan um Foldina, sigldu þá þjóðleið til Líðandisness, fóru þá sem skyndilegast, en námu nesnám þar sem þeir komu við og hjuggu strandhögg. En er þeir sigldu norður frá Líðandisnesi fóru þeir meir útleið en þar sem þeir komu við land þá rændu þeir.

En er Þórólfur kom norður fyrir Fjörðu þá sneri hann inn af leið og fór á fund Kveld-Úlfs föður síns og fengu þar góðar viðtökur. Sagði Þórólfur föður sínum hvað til tíðinda hafði orðið í förum hans um sumarið. Þórólfur dvaldist þar litla hríð og leiddi Kveld-Úlfur og þeir feðgar hann til skips.

En áður þeir skildust töluðust þeir við. Sagði Kveld-Úlfur: „Eigi hefir því fjarri farið Þórólfur, sem eg sagði þér þá er þú fórst til hirðar Haralds konungs, að þér mundi svo út ganga að hvorki þér né oss frændum þínum mundi hamingja að verða. Hefir þú nú það ráð upp tekið er eg varaði þig mest við, er þú etur kappi við Harald konung. En þótt þú sért vel búinn að hreysti og allri atgervi þá hefir þú ekki til þess gæfu að halda til jafns við Harald konung er engum hefir öðrum enst hér í landi þótt áður hafi haft ríki mikið og fjölmenni. Er það mitt hugboð að sjá verði fundur okkar hinn síðasti og væri það að sköpuðu fyrir aldurs sakir að þú lifðir lengur okkar. En annan veg ætla eg að verði.“

Síðan steig Þórólfur á skip sitt og hélt á brott leið sína. Er þá ekki sagt frá ferð hans, að til tíðinda yrði, áður hann kom á Sandnes heim og lét flytja til bæjar herfang það allt er hann hafði heim haft en setja upp skip sitt, skorti þá eigi föng að fæða lið sitt um veturinn. Sat Þórólfur heima jafnan og hafði fjölmenni eigi minna en hina fyrri vetur.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links