Egla, 44

From WikiSaga
Revision as of 14:27, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 44

Kafli 44

Dráp Bárðar

Eiríkur konungur og Gunnhildur komu það sama kveld í Atley og hafði Bárður þar búið veislu móti honum og skyldi þar vera dísablót og var þar veisla hin besta og drykkja mikil inni í stofunni.

Konungur spurði hvar Bárður væri „er eg sé hann hvergi.“

Maður segir: „Bárður er úti og greiðir fyrir gestum sínum.“

„Hverjir eru gestir þeir,“ segir konungur, „er hann lætur sér það skyldara en vera inni hér hjá oss?“

Maðurinn sagði honum að þar voru komnir húskarlar Þóris hersis.

Konungur mælti: „Gangið eftir þeim sem tíðast og kallið þá inn hingað.“ Og var svo gert, sagt að konungur vill hitta þá.

Síðan ganga þeir. Fagnaði konungur vel Ölvi og bað hann sitja gagnvert sér í öndvegi og þar förunauta hans utar frá. Þeir gerðu svo. Sat Egill næstur Ölvi.

Síðan var þeim borið öl að drekka. Fóru minni mörg og skyldi horn drekka í minni hvert. En er á leið um kveldið þá kom svo að förunautar Ölvis gerðust margir ófærir, sumir spjóu þar inni í stofunni en sumir komust út fyrir dyr. Bárður gekk þá að fast að bera þeim drykk.

Þá tók Egill við horni því er Bárður hafði fengið Ölvi og drakk af. Bárður sagði að hann þyrsti mjög og færði honum þegar hornið fullt og bað hann af drekka. Egill tók við horninu og kvað vísu:

Sögðuð sverri flagða
sumbleklu þér, kumbla,
því tel eg, brjótr, þar er blétuð,
bragðvísan þig, dísir.
Leynduð alls til illa
ókunna þér runna,
illt hafi bragð af brugðið,
Báröðr, hugar fári.

Bárður bað hann drekka og hætta flimtun þeirri. Egill drakk full hvert er að honum kom og svo fyrir Ölvi.

Þá gekk Bárður til drottningar og sagði henni að þar var maður sá er skömm færði að þeim og aldregi drakk svo að eigi segði hann sig þyrsta. Drottning og Bárður blönduðu þá drykkinn ólyfjani og báru þá inn. Signdi Bárður fullið, fékk síðan ölseljunni. Færði hún Agli og bað hann drekka. Egill brá þá knífi sínum og stakk í lófa sér. Hann tók við horninu og reist á rúnar og reið á blóðinu. Hann kvað:

Ristum rún á horni,
Rjóðum spjöll í dreyra.
Þau vel eg orð til eyrna
óðs dýrs viðar róta.
Drekkum veig sem viljum
vel glýjaðra þýja.
Vitum hve oss of eiri
öl það er Bárðr of signdi.

Hornið sprakk í sundur en drykkurinn fór niður í hálm. Þá tók að líða að Ölvi og stóð þá Egill upp og leiddi hann út til dyranna. Egill kastaði yfirhöfn sinni á öxl sér og hélt á sverðinu undir skikkjunni. En er þeir koma að dyrunum þá gekk Bárður eftir þeim Agli með horn fullt og bað Ölvi drekka brautfararminni sitt. Egill stóð í dyrunum og kvað vísu:

Ölvar mig því að Ölvi
öl gerir nú fölvan.
Atgeira læt eg ýrar
ýring of grön skýra.
Öllungis kanntu illa,
oddskýs, fyr þér nýsa,
rigna getr að regni,
regnbjóðr, Háars þegna.

Egill kastaði þegar niður horninu og greip sverðið og brá. Myrkt var orðið í stofunni. Egill lagði sverðinu að Bárði miðjum svo að blóðrefillinn gekk út um bakið. Féll Bárður niður dauður en blóð hljóp út úr undinni. Þá féll Ölvir og gaus spýja úr honum. Egill hljóp út um forstofudyrnar en niðamyrkur var úti. Tók Egill þegar á rás af bænum.

Gengu menn út úr stofunni og sáu að þeir voru fallnir báðir, Bárður og Ölvir, og hugðu menn fyrst að hvorir þeirra mundu hafa vegið annan. En af því að dimmt var lét konungur bera til ljós og sá þá hvað títt var um Ölvi, að hann lá þar í spýju sinni í óviti, en Bárður dauður og flaut í blóði hans gólf allt.

Þá spurði konungur hvar sá hinn mikli maður var er mest hafði drukkið um kveldið. Menn sögðu að hann gekk fram fyrir Ölvi.

„Leitið að honum,“ segir konungur, „og látið hann koma til mín.“

Síðan var hans leitað um bæinn og fannst hann hvergi. En er þeir komu í eldahús það er þeir höfðu matast í um kveldið þá lágu þar margir förunautar Ölvis en sumir lágu úti undir húsveggjum. Konungsmenn spurðu hvort Egill hefði nokkuð þar komið.

Þeim var sagt að hann hefði hlaupið þar inn og tekið ofan vopn sín og gengið út síðan.

Þeir fóru inn í stofu og sögðu konungi allt þetta. Konungur bað menn sína fara sem hvatast og taka skip öll er voru í eynni „en á morgun sem ljóst er skal rannsaka eyna.“

Egill fór um nóttina og leitaði þar til er skipin voru. En hvar sem hann kom til strandar þá voru þar alls staðar menn fyrir. Fór hann svo nótt þá alla að hann fékk ekki skip.

En er dagaði og lýsa tók þá var hann staddur á nesi nokkuru. Hann sá þá ey aðra og var þar sund í milli furðulega langt. Það var ráð hans að taka hjálminn og sverðið, kesjuna braut hann af skafti og skaut skaftinu á sjó út, en vopnin batt hann í bagga í yfirhöfn sinni og batt svo milli herða sér. Síðan gekk hann á sund og synti til eyjarinnar. Er það ekki mikið land en grasloðin og víða skógarrunnar. Fénaður var þar stórmargur af nautum og sauðum sem konungur hafði til bús síns í Atley. En er Egill kom í eyna þá vatt hann sjó úr fötum sínum og bjóst um. Þá var dagur orðinn allljós og sól farin.

Eiríkur konungur lét þegar rannsaka eyna er lýsa tók og varð það seint að eyin yrði öll könnuð því að Atley er mikið land og fannst Egill eigi.

Þá lét konungur fara til annarra eyja og leita hans. Það var síðast um kveldið að tólf menn fara til Sauðeyjar á skútu og skyldu þar leita Egils og áttu að hafa þaðan sláturfé mikið. Egill sá skipförina til eyjarinnar. Lagðist hann þá niður í hrísið og falst áður skipið kom að landi.

En er þeir gengu upp þá létu þeir eftir þrjá menn að gæta skips en níu gengu upp og skiptu þeir leitinni og fóru þrír í hvern stað. En er leiti bar í milli þeirra og skipsins þá stóð Egill upp og hafði áður greitt til um vopn sín. Hann gekk þvers til sjóvarins og fram með sjónum. En þeir sem skipsins gættu fundu eigi fyrr en hann kom að þeim og hjó þegar einn þeirra banahögg en annar tók þegar á rás og var þar að hlaupa upp á bakka nokkurn. Egill hjó eftir honum og tók af fótinn. Hinn þriðji hljóp á skipið út og skaust undan landi. Egill tók í festina og dró að sér skipið og hljóp síðan út á það. Skiptust þeir litla hríð höggum við áður Egill drap hann og færði útbyrðis. Síðan tók hann árar og reri í brott skipinu og þá nóttu alla og eftir um daginn. Létti hann eigi sinni ferð fyrr en hann kom heim til Þóris.

En Ölvir og þeir förunautar hans voru fyrst að öngu færir. En þegar þeir hresstust leituðu þeir heim. Lét konungur þá fara í friði af þeim sökum.

En þeir menn er í Sauðey voru, voru þar nokkurar nætur og drápu fénað til matar sér og gerðu seyði og bál mikið þar á eynni er vissi til Atleyjar, lögðu þar í eld og gerðu þar vita. En er þetta var séð úr Atley þá var róið til þeirra og voru fluttir til lands þeir er eftir lifðu. Konungur var þá brott úr Atley. Fór hann þá til annarrar veislu.

En af Ölvi er það að segja að hann kom fyrri heim en Egill og voru þeir Þórólfur og Þórir þó áður heim komnir. Ölvir sagði tíðindi, dráp Bárðar og alla þá atburði er áður höfðu gerst. En hann vissi ekki til ferða Egils síðan. Þórólfur varð nú allókátur og svo Arinbjörn, þótti þeim sem Egill mundi eigi aftur koma. En eftir um morguninn þá er ljóst var þá sáu menn að Egill lá í rúmi sínu. En er Þórólfur varð þess vís þá stóð hann upp og gekk til fundar við Egil og spurði með hverju móti hann hafði undan komist eða hvað til tíðinda hefði orðið í ferð hans. Þá kvað Egill vísu:

Svo hef eg leyst úr Lista
láðvarðaðar garði,
né eg fága dul drjúgan,
dáðmildr, og Gunnhildar,
að þrifreynis þjónar
þrír nokkurir Hlakkar
til hásalar Heljar
helgengnir för dvelja.

Arinbjörn lét vel yfir þessum verkum og sagði föður sínum að hann væri skyldur til að sætta Egil og konung.

Þórir sagði að það mun mál manna að Bárður hafði verðleika til að hann væri drepinn „en þér, Egill, er of mjög ættgengt að sjá lítt við því að þú fáir konungs reiði því að flestum verður það þungbært. En þó mun eg við leita að sinni að koma þér í sætt við Eirík konung.“

Þórir gerði brátt heimanferð sína á fund Eiríks konungs en Arinbjörn var heima á meðan og lét hann halda njósnum fyrir þeim Agli og sagði að eitt skyldi yfir þá ganga alla. En er Þórir kom á fund konungs þá bauð hann boð fyrir Egil, bauð festu sína og dóm konungs. Konungur var hinn reiðasti og var við hann orðum allóhægt að koma, sagði að það mundi sannast er Haraldur konungur hafði sagt að þá frændur mundi seint að tryggja mega, bað Þóri svo til haga að Egill væri ekki langvistum í hans ríki „en fyrir sakar bænar þinnar Þórir þá mun eg taka sátt og fébætur fyrir menn þessa.“

Síðan festi Þórir konungi dóm sinn fyrir menn þá er látist höfðu. Skildu þeir konungur svo. Fór Þórir heim. Þórólfur og Egill voru þann vetur með Þóri og Arinbirni í góðu yfirlæti.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links