Egla, 89

From WikiSaga
Revision as of 15:41, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 89

Kafli 89

Grímur tók trú

Grímur að Mosfelli var skírður þá er kristni var í lög leidd á Íslandi. Hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna að Þórdís hafi látið flytja Egil til kirkju og er það til jartegna að síðan er kirkja var ger að Mosfelli en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja er Grímur hafði gera látið þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum þá fundust mannabein. Þau voru miklu stærri en annarra manna bein. Þykjast menn það vita af sögn gamalla manna að mundu verið hafa bein Egils.

Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson, vitur maður. Hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn. Var hausinn undarlega mikill en hitt þótti þó meir frá líkindum hve þungur var. Hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins. Tók hann þá handexi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta en þar sem á kom hvítnaði fyrir en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links