Egla, 03

From WikiSaga
Revision as of 14:59, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 3

Kafli 3

Haraldur son Hálfdanar svarta hafði tekið arf eftir föður sinn. Hann hafði þess heit strengt að láta eigi skera hár sitt né kemba fyrr en hann væri einvaldskonungur yfir Noregi. Hann var kallaður Haraldur lúfa. Síðan barðist hann við þá konunga er næstir voru og sigraði þá og eru þar langar frásagnir. Síðan eignaðist hann Upplönd. Þaðan fór hann norður í Þrándheim og átti þar margar orustur áður hann yrði einvaldi yfir öllum Þrændalögum.

Síðan ætlaðist hann að fara norður í Naumudal á hendur þeim bræðrum, Herlaugi og Hrollaugi, er þá voru konungar yfir Naumudal. En er þeir bræður spurðu til ferðar hans þá gekk Herlaugur í haug þann með tólfta mann er áður höfðu þeir gera látið þrjá vetur. Var síðan haugurinn aftur lokinn. En Hrollaugur konungur veltist úr konungdómi og tók upp jarls rétt og fór síðan á vald Haralds konungs og gaf upp ríki sitt. Svo eignaðist Haraldur konungur Naumdælafylki og Hálogaland. Setti hann þar menn yfir ríki sitt.

Síðan bjóst Haraldur konungur úr Þrándheimi með skipaliði og fór suður á Mæri, átti þar orustu við Húnþjóf konung og hafði sigur. Féll þar Húnþjófur. Þá eignaðist Haraldur konungur Norð-Mæri og Raumsdal.[1]

En Sölvi klofi son Húnþjófs hafði undan komist og fór hann á Sunn-Mæri til Arnviðar konungs og bað hann sér fulltings og sagði svo: „Þótt þetta vandræði hafi nú borið oss að hendi þá mun eigi langt til að sama vandræði mun til yðvar koma því að Haraldur ætla eg að skjótt mun hér koma þá er hann hefir alla menn þrælkað og áþjáð sem hann vill á Norð-Mæri og í Raumsdal. Munuð þér hinn sama kost fyrir höndum eiga sem vér áttum, að verja fé yðvart og frelsi og kosta þar til allra þeirra manna er yður er liðs að von, og vil eg bjóðast til með mínu liði móti þessum ofsa og ójafnaði. En að öðrum kosti munuð þér vilja taka upp það ráð sem Naumdælar gerðu, að ganga með sjálfvilja í ánauð og gerast þrælar Haralds. Það þótti föður mínum sigur að deyja í konungdómi með sæmd heldur en gerast undirmaður annars konungs á gamals aldri. Hygg eg að þér muni og svo þykja og öðrum þeim er nokkurir eru borði og kappsmenn vilja vera.“

Af slíkum fortölum var konungurinn fastráðinn til þess að safna liði og verja land sitt. Bundu þeir Sölvi þá samlag sitt og sendu orð Auðbirni konungi er réð fyrir Firðafylki að hann skyldi koma til liðs við þá. En er sendimenn komu til Auðbjarnar konungs og báru honum þessa orðsending þá réðst hann um við vini sína og réðu honum það allir að safna liði og fara til móts við Mæri sem honum voru orð til send. Auðbjörn konungur lét skera upp herör og fara herboð um allt ríki sitt. Hann sendi menn til ríkismanna að boða þeim til sín.

En er sendimenn konungs komu til Kveld-Úlfs og sögðu honum sín erindi og það að konungur vill að Kveld-Úlfur komi til hans með alla húskarla sína, Kveld-Úlfur svarar svo: „Það mun konungi skylt þykja að eg fari með honum ef hann skal verja land sitt og sé herjað í Firðafylki. En hitt ætla eg mér allóskylt að fara norður á Mæri og berjast þar og verja land þeirra. Er yður það skjótast að segja, þá er þér hittið konung yðvarn, að Kveld-Úlfur mun heima sitja um þetta herhlaup og hann mun eigi herliði safna og eigi gera sína þá heimanferð að berjast móti Haraldi lúfu því að eg hygg að hann hafi þar byrði nóga hamingju er konungur vor hafi eigi krepping fullan.“

Fóru sendimenn heim til konungs og sögðu honum erindislok sín en Kveld-Úlfur sat heima að búm sínum.

References

  1. Uppgangur Haralds Einnig er fjallað um uppgang Haralds í Noregi í upphafsköflum Haralds sögu hárfagra í Heimskringlu, sem og í Haralds þætti og Ágripi. Berman, Melissa. Egils saga and Heimskringla

Links