Egla, 05

From WikiSaga
Revision as of 13:48, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 5

Kafli 5

Konungur gerði orð Kveld-Úlfi

Haraldur konungur lá með her sinn í Fjörðum. Hann sendi menn þar um land á fund þeirra manna er eigi höfðu komið til hans, er hann þóttisƒt erindi við eiga.

Konungs sendimenn komu til Kveld-Úlfs og fengu þar góðar viðtökur. Þeir báru upp erindi sín, sögðu að konungur vildi að Kveld-Úlfur kæmi á fund hans. „Hann hefir,“ sögðu þeir, „spurn af að þú ert göfugur maður og stórættaður. Muntu eiga kost af honum virðingar mikillar. Er konungi mikið kapp á því að hafa með sér þá menn að hann spyr að afreksmenn eru að afli og hreysti.“

Kveld-Úlfur svarar, sagði að hann var þá gamall svo að hann var þá ekki til fær að vera úti á herskipum „mun eg nú heima sitja og láta af að þjóna konungum.“

Þá mælti sendimaður: „Láttu þá fara son þinn til konungs. Hann er maður mikill og garplegur. Mun konungur gera þig lendan mann ef þú vilt þjóna honum.“

„Ekki vil eg,“ sagði Grímur, „gerast lendur maður meðan faðir minn lifir því að hann skal vera yfirmaður minn meðan hann lifir.“

Sendimenn fóru í brott. En er þeir komu til konungs sögðu þeir honum allt það er Kveld-Úlfur hafði rætt fyrir þeim. Konungur varð við styggur og mælti um nokkurum orðum, sagði að þeir mundu vera menn stórlátir eða hvað þeir mundu fyrir ætlast.

Ölvir hnúfa var þá nær staddur og bað konung vera eigi reiðan „eg mun fara á fund Kveld-Úlfs og mun hann vilja fara á fund yðvarn þegar er hann veit að yður þykir máli skipta.“

Síðan fór Ölvir á fund Kveld-Úlfs og sagði honum að konungur var reiður og eigi mundi duga nema annar hvor þeirra feðga færi til konungs, og sagði að þeir mundu fá virðing mikla af konungi ef þeir vildu hann þýðast, sagði frá mikið, sem satt var, að konungur var góður mönnum sínum bæði til fjár og metnaðar.

Kveld-Úlfur sagði að það var hans hugboð „að vér feðgar munum ekki bera gæfu til þessa konungs og mun eg ekki fara á fund hans. En ef Þórólfur kemur heim í sumar þá mun hann auðbeðinn þessar farar og svo að gerast konungs maður. Segðu svo konungi að eg mun vera vinur hans og alla menn, þá er að mínum orðum láta, halda til vináttu við hann. Eg mun og halda hinu sama um stjórn og umboð af hans hendi sem áður hafði eg af fyrra konungi, ef konungur vill að svo sé, og enn síðar sjá hversu semst með oss konungi.“

Síðan fór Ölvir aftur til konungs og sagði honum að Kveld-Úlfur mundi senda honum son sinn og sagði að sá var betur til fallinn er þá var eigi heima. Lét konungur þá vera kyrrt. Fór hann þá um sumarið inn í Sogn en er haustaði bjóst hann að fara norður til Þrándheims.

[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links