Egla, 25

From WikiSaga
Revision as of 14:06, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 1

Kafli 1

Hryggð Kveld-Úlfs Kveld-Úlfur spurði fall Þórólfs sonar síns. Varð hann hryggur við þessi tíðindi svo að hann lagðist í rekkju af harmi og elli.

Skalla-Grímur kom oft til hans og taldi fyrir honum, bað hann hressa sig, sagði að allt var annað athæfilegra en það að auvirðast og leggjast í kör „er hitt heldur ráð að vér leitum til hefnda eftir Þórólf. Má vera að vér komum í færi við nokkura þá menn er verið hafa að falli Þórólfs en ef það er eigi þá munu þeir vera menn er vér munum ná er konungi mun sér þykja móti skapi.“

Kveld-Úlfur kvað vísu:

Nú frá eg norðr í eyju, norn erum grimm, til snimma Þundr féll þremja vandar Þórólf und lok fóru Létumst þung að þingi Þórs fangvina að ganga, skjótt munat hefnt þótt hvetti hugr, málm-Gnár brugðið.

Haraldur konungur fór það sumar til Upplanda og fór um haustið vestur á Valdres og allt á Vors. Ölvir hnúfa var með konungi og kom oft á mál við konung ef hann mundi vilja bæta Þórólf, veita Kveld-Úlfi og Skalla-Grími fébætur eða mannsóma þann nokkurn er þeir mættu við una. Konungur varnaði þess eigi með öllu ef þeir feðgar færu á fund hans.

Síðan byrjaði Ölvir ferð sína norður í Fjörðu, létti eigi fyrr en hann kom að kveldi dags til þeirra feðga. Tóku þeir þakksamlega við honum. Dvaldist hann þar nokkura hríð.

Kveld-Úlfur spurði Ölvi vandlega frá atburðum þeim er gerst höfðu á Sandnesi þá er Þórólfur féll, svo að því hvað Þórólfur vann til frama áður hann félli, svo og hverjir vopn báru á hann eða hvar hann hafði mest sár eða hvernig fall hans yrði. Ölvir sagði allt það er hann spurði, svo það að Haraldur konungur veitti honum sár það er ærið mundi eitt til bana og Þórólfur féll nær á fætur konungi á grúfu.

Þá svarar Kveld-Úlfur: „Vel hefir þú sagt því að það hafa gamlir menn mælt að þess manns mundi hefnt verða ef hann félli á grúfu, og þeim nær koma hefndin er fyrir yrði er hinn félli. En ólíklegt er að oss verði þeirrar hamingju auðið.“

Ölvir sagði þeim feðgum að hann vænti, ef þeir vildu fara á fund konungs og leita eftir bótum, að það mundi sómaför verða og bað þá til þess hætta og lagði mörg orð til.

Kveld-Úlfur sagði að hann var hvergi fær fyrir elli sakar „mun eg vera heima,“ sagði hann.

„Viltu fara, Grímur?“ sagði Ölvir.

„Ekki erindi ætla eg mig eiga,“ sagði Grímur, „mun konungi eg þykja ekki orðsnjallur. Ætla eg mig ekki lengi munu biðja bótanna.“

Ölvir sagði að hann mundi þess eigi þurfa „skulum vér mæla allt fyrir hönd þína slíkt er vér kunnum.“

En með því að Ölvir sótti það mál mjög þá hét Grímur ferð sinni þá er hann þættist búinn. Kváðu þeir Ölvir á með sér þá stund er Grímur skyldi koma á konungs fund. Fór þá Ölvir fyrst á brott og til konungs.

[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links