Egla, 25

From WikiSaga
Revision as of 14:07, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 25

Kafli 25

Ferð Skalla-Gríms á konungs fund

Skalla-Grímur bjóst til ferðar þeirrar er fyrr var frá sagt. Hann valdi sér menn af heimamönnum sínum og nábúum þá er voru sterkastir að afli og hraustastir þeirra er til voru. Maður hét Áni, bóndi einn auðigur. Annar hét Grani, þriðji Grímólfur og Grímur bróðir hans, heimamenn Skalla-Gríms, og þeir bræður Þorbjörn krumur og Þórður beigaldi. Þeir voru kallaðir Þórörnusynir. Hún bjó skammt frá Skalla-Grími og var fjölkunnig. Beigaldi var kolbítur. Einn hét Þórir þurs og bróðir hans Þorgeir jarðlangur. Oddur hét maður einbúi, Grís lausingi. Tólf voru þeir til fararinnar og allir hinir sterkustu menn og margir hamrammir.

Þeir höfðu róðrarferju er Skalla-Grímur átti, fóru suður með landi, lögðu inn í Ostrarfjörðu, fóru þá landveg upp á Vors til vatns þess er þar verður, en leið þeirra bar svo til að þeir skyldu þar yfir fara. Fengu þeir sér róðrarskip það er við þeirra hæfi var, reru síðan yfir vatnið en þá var eigi langt til bæjar þess er konungurinn var á veislu. Komu þeir Grímur þar þann tíma er konungur var genginn til borða. Þeir Grímur hittu menn að máli úti í garðinum og spurðu hvað þar var tíðinda. En er þeim var sagt þá bað Grímur kalla til máls við sig Ölvi hnúfu.

Sá maður gekk inn í stofuna og þar til er Ölvir sat og sagði honum: „Menn eru hér komnir úti tólf saman ef menn skal kalla en líkari eru þeir þursum að vexti og að sýn en mennskum mönnum.“

Ölvir stóð upp þegar og gekk út. Þóttist hann vita hverjir komnir mundu. Fagnaði hann vel Grími frænda sínum og bað hann ganga inn í stofu með sér.

Grímur sagði förunautum sínum: „Það mun hér vera siður að menn gangi vopnlausir fyrir konung. Skulum vér ganga inn sex en aðrir sex skulu vera úti og gæta vopna vorra.“

Síðan ganga þeir inn. Gekk Ölvir fyrir konunginn. Skalla-Grímur stóð að baki honum.

Ölvir tók til máls: „Nú er Grímur hér kominn, sonur Kveld-Úlfs. Kunnum vér nú aufúsu konungur að þér gerið hans för góða hingað svo sem vér væntum að vera muni. Fá þeir margir af yður sæmd mikla er til minna eru komnir en hann og hvergi nær eru jafnvel að sér gervir um flestar íþróttir sem hann mun vera. Máttu þenna hlut svo gera konungur að mér þykir mestu máli skipta ef þér þykir það nokkurs vert.“ Ölvir talaði langt og snjallt því að hann var orðfær maður. Margir aðrir vinir Ölvis gengu fyrir konung og fluttu þetta mál.

Konungur litaðist um. Hann sá að maður stóð að baki Ölvi og var höfði hærri en aðrir menn og sköllóttur.

„Er þetta hann Skalla-Grímur,“ sagði konungur, „hinn mikli maður?“

Grímur sagði að hann kenndi rétt.

„Eg vil þá,“ sagði konungur, „ef þú beiðist bóta fyrir Þórólf að þú gerist minn maður og gangir hér í hirðlög og þjónir mér. Má mér svo vel líka þín þjónusta að eg veiti þér bætur eftir bróður þinn eða aðra sæmd eigi minni en eg veitti honum Þórólfi bróður þínum og skyldir þú betur kunna að gæta en hann ef eg gerði þig að svo miklum manni sem hann var orðinn.“

Skalla-Grímur svarar: „Það var kunnigt hversu miklu Þórólfur var framar en eg er að sér ger um alla hluti og bar hann enga gæfu til að þjóna þér konungur. Nú mun eg ekki taka það ráð. Eigi mun eg þjóna þér því að eg veit að eg mun eigi gæfu til bera að veita þér þá þjónustu sem eg mundi vilja og vert væri. Hygg eg að mér verði meiri muna vant en Þórólfi.“

Konungur þagði og setti hann dreyrrauðan á að sjá. Ölvir sneri þegar í brott og bað þá Grím ganga út. Þeir gerðu svo, gengu út og tóku vopn sín. Bað Ölvir þá fara í brott sem skjótast. Gekk Ölvir á leið með þeim til vatnsins og margir menn með honum.

Áður þeir Skalla-Grímur skildust mælti Ölvir: „Annan veg var för þín, Grímur frændi, til konungs en eg mundi kjósa. Fýsti eg þig mjög hingaðfararinnar en nú vil eg hins biðja að þú farir heim sem skyndilegast og þess með að þú komir eigi á fund Haralds konungs nema betri verði sætt ykkur en mér þykir nú á horfast og gæt þín vel fyrir konungi og hans mönnum.“

Síðan fóru þeir Grímur yfir vatnið en þeir Ölvir gengu þar til skip þau voru er upp voru sett við vatnið og hjuggu svo að ekki var fært því að þeir sáu mannför ofan frá konungsbænum. Voru þeir menn margir saman og vopnaðir mjög og fóru æsilega. Þá menn hafði Haraldur konungur sent eftir þeim til þess að drepa Grím.

Hafði konungur tekið til orða litlu síðar en þeir Grímur höfðu út gengið, sagði svo: „Það sé eg á skalla þeim hinum mikla að hann er fullur upp úlfúðar og hann verður að skaða þeim mönnum nokkurum er oss mun þykja afnám í ef hann náir. Megið þér það ætla, þeir menn er hann mun kalla að í sökum séu við hann, að sá skalli mun engvan yðvarn spara ef hann kemst í færi. Farið nú þá eftir honum og drepið hann.“

Síðan fóru þeir og komu til vatnsins og fengu þar engi skip þau er fær væru. Fóru aftur síðan og sögðu konungi sína ferð og svo það að þeir Grímur mundu þá komnir yfir vatnið.

Skalla-Grímur fór leið sína og föruneyti hans til þess er hann kom heim. Sagði Skalla-Grímur Kveld-Úlfi frá ferð þeirra. Kveld-Úlfur lét vel yfir því er Grímur hafði eigi farið til konungs þess erindis að ganga til handa honum, sagði enn sem fyrr að þeir mundu af konungi hljóta skaða einn en enga uppreist.

Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur ræddu oft um ráðagerð sína og kom það allt ásamt með þeim, sögðu svo að þeir mundu ekki mega vera þar í landi heldur en aðrir menn þeir er í ósætt væru við konung og mundi þeim hitt ráð að fara af landi á brott og þótti þeim það fýsilegt að leita til Íslands því að þá var sagt þar vel frá landkostum. Þar voru þá komnir vinir þeirra og kunningjar, Ingólfur Arnarson og förunautar hans, og tekið sér landskosti og bústaði á Íslandi. Máttu menn þar nema sér lönd ókeypis og velja bústaði. Staðfestist það helst um ráðagerð þeirra að þeir mundu bregða búi sínu og fara af landi á brott.

Þórir Hróaldsson hafði verið í barnæsku að fóstri með Kveld-Úlfi og voru þeir Skalla-Grímur mjög jafnaldrar. Var þar allkært í fóstbræðralagi. Þórir var orðinn lendur maður konungs er þetta var tíðinda en vinátta þeirra Skalla-Gríms hélst ávallt.

Snemma um vorið bjuggu þeir Kveld-Úlfur skip sín. Þeir höfðu mikinn skipakost og góðan, bjuggu tvo knörru mikla og höfðu á hvorum þrjá tigu manna þeirra er liðfærir voru og umfram konur og ungmenni. Þeir höfðu með sér lausafé allt það er þeir máttu með komast, en jarðir þeirra þorði engi maður að kaupa fyrir ríki konungs.

En er þeir voru búnir þá sigldu þeir í brott. Þeir sigldu í eyjar þær er Sólundir heita. Það eru margar eyjar og stórar og svo mjög vogskornar að það er mælt að þar munu fáir menn vita allar hafnir.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links