Egla, 28

From WikiSaga
Revision as of 14:09, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 1

Kafli 1

Skalla-Grímur nam land

Skalla-Grímur kom þar að landi er nes mikið gekk í sæ út og eið mjótt fyrir ofan nesið og báru þar farm af. Það kölluðu þeir Knarrarnes.

Síðan kannaði Skalla-Grímur landið og var þar mýrlendi mikið og skógar víðir, langt í milli fjalls og fjöru, selveiðar nógar og fiskifang mikið. En er þeir könnuðu landið suður með sjónum og varð þá fyrir þeim fjörður mikill en er þeir fóru inn með firði þeim þá léttu þeir eigi fyrr ferðinni en þeir fundu förunauta sína, Grím hinn háleyska og þá förunauta. Varð þar fagnafundur. Sögðu þeir Skalla-Grími að Kveld-Úlfur var þar til lands kominn og þeir höfðu hann jarðað. Síðan fylgdu þeir Skalla-Grími þar til og sýndist honum svo sem þaðan mundi skammt á brott þar er bólstaðargerð góð mundi vera.

Fór Grímur þá í brott og aftur til skipverja sinna og sátu þar hvorir um veturinn sem þeir höfðu að komið.

Þá nam Skalla-Grímur land milli fjalls og fjöru, Mýrar allar út til Selalóns og hið efra til Borgarhrauns en suður til Hafnarfjalla og allt það land er vatnföll deila til sjóvar. Hann flutti um vorið eftir skipið suður til fjarðarins og inn í vog þann er næstur var því er Kveld-Úlfur hafði til lands komið og setti þar bæ og kallaði að Borg en fjörðinn Borgarfjörð og svo héraðið upp frá kenndu þeir við fjörðinn.

Grími hinum háleyska gaf hann bústað fyrir sunnan Borgarfjörð þar er kallað var á Hvanneyri. Þar skammt út frá skarst inn vík ein eigi mikil. Fundu þeir þar andir margar og kölluðu Andakíl en Andakílsá er þar féll til sjávar. Upp frá á þeirri til þeirrar ár er kölluð var Grímsá, þar í milli átti Grímur land.

Um vorið þá er Skalla-Grímur lét reka kvikfé sitt utan með sjó þá komu þeir á nes eitt lítið og veiddu þar álftir nokkurar og kölluðu Álftanes.

Skalla-Grímur gaf land skipverjum sínum. Ána gaf hann land milli Langár og Háfslækjar og bjó hann að Ánabrekku. Son hans var Önundur sjóni. Grímólfur byggði fyrst á Grímólfsstöðum. Við hann er kennd Grímólfsfit og Grímólfslækur. Grímur hét son hans er bjó fyrir sunnan fjörð. Hans son var Grímar er bjó á Grímarsstöðum. Um hann deildu þeir Þorsteinn og Tungu-Oddur. Grani bjó að Granastöðum í Digranesi. Þorbirni krum gaf hann land upp með Gufá og Þórði beigalda. Bjó Krumur í Krumshólum en Þórður að Beigalda. Þóri þurs og þeim bræðrum gaf hann land upp frá Einkunnum og hið ytra með Langá. Þórir þurs bjó á Þursstöðum. Hans dóttir var Þórdís stöng er bjó í Stangarholti síðan. Þorgeir bjó á Jarðlangsstöðum.

Skalla-Grímur kannaði land upp um hérað, fór fyrst inn með Borgarfirði til þess er fjörðinn þraut en síðan með ánni fyrir vestan er hann kallaði Hvítá því að þeir förunautar höfðu eigi séð fyrr vötn þau er úr jöklum höfðu fallið. Þótti þeim áin undarlega lit. Þeir fóru upp með Hvítá til þess er sú á varð fyrir þeim er féll úr norðri frá fjöllum. Þá kölluðu þeir Norðurá og fóru upp með þeirri á til þess er enn varð á fyrir þeim og var það lítið vatnfall. Fóru þeir yfir á þá og enn upp með Norðurá. Sá þá brátt hvar hin litla áin féll úr gljúfrum og kölluðu þá Gljúfurá. Síðan fóru þeir yfir Norðurá og fóru aftur enn til Hvítár og upp með henni. Varð þá enn brátt á sú er þvers varð fyrir þeim og féll í Hvítá. Þá kölluðu þeir Þverá. Þeir urðu þess varir að þar var hvert vatn fullt af fiskum. Síðan fóru þeir út aftur til Borgar.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links