Egla, 29

From WikiSaga
Revision as of 14:10, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 29

Kafli 29

Af iðju Skalla-Gríms

Skalla-Grímur var iðjumaður mikill. Hann hafði með sér jafnan margt manna, lét sækja mjög föng þau er fyrir voru og til atvinnu mönnum voru því að þá fyrst höfðu þeir fátt kvikfjár hjá því sem þurfti til fjölmennis þess sem var. En það sem var kvikfjárins þá gekk öllum vetrum sjálfala í skógum. Skalla-Grímur var skipasmiður mikill en rekavið skorti eigi vestur fyrir Mýrar. Hann lét gera bæ á Álftanesi og átti þar bú annað, lét þaðan sækja útróðra og selveiðar og eggver er þá voru nóg föng þau öll, svo rekavið að láta að sér flytja. Hvalakomur voru þá og miklar og skjóta mátti sem vildi. Allt var það þá kyrrt í veiðistöð er það var óvant manni. Hið þriðja bú átti hann við sjóinn á vestanverðum Mýrum. Var þar enn betur komið að sitja fyrir rekum og þar lét hann hafa sæði og kalla að Ökrum. Eyjar lágu þar út fyrir er hvalur fannst í og kölluðu þeir Hvalseyjar. Skalla-Grímur hafði og menn sína uppi við laxárnar til veiða. Odd einbúa setti hann við Gljúfurá að gæta þar laxveiðar. Oddur bjó undir Einbúabrekkum. Við hann er kennt Einbúanes. Sigmundur hét maður er Skalla-Grímur setti við Norðurá. Hann bjó þar er kallað var á Sigmundarstöðum. Þar er nú kallað að Haugum. Við hann er kennt Sigmundarnes. Síðan færði hann bústað sinn í Munaðarnes, þótti þar hægra til laxveiða.

En er fram gekk mjög kvikfé Skalla-Gríms þá gekk féið upp til fjalla allt á sumrum. Hann fann mikinn mun á að það fé varð betra og feitara er á heiðum gekk, svo það að sauðfé hélst á vetrum í fjalldölum þótt ei verði ofan rekið. Síðan lét Skalla-Grímur gera bæ uppi við fjallið og átti þar bú, lét þar varðveita sauðfé sitt. Það bú varðveitti Grís og er við hann kennd Grísartunga. Stóð þá á mörgum fótum fjárafli Skalla-Gríms.

Stundu síðar en Skalla-Grímur hafði út komið kom skip af hafi í Borgarfjörð og átti sá maður er Óleifur var kallaður hjalti. Hann hafði með sér konu sína og börn og annað frændlið sitt og hafði svo ætlað ferð sína að fá sér bústað á Íslandi. Óleifur var maður auðigur og kynstór og spakur að viti. Skalla-Grímur bauð Óleifi heim til sín til vistar og liði hans öllu en Óleifur þekktist það og var hann með Skalla-Grími hinn fyrsta vetur er Óleifur var á Íslandi.

En eftir um vorið vísaði Skalla-Grímur Óleifi til landskostar fyrir sunnan Hvítá upp frá Grímsá til Flókadalsár. Óleifur þekktist það og fór þangað búferli sínu og setti þar bústað er heitir að Varmalæk. Hann var göfugur maður. Hans synir voru þeir Ragi í Laugardal og Þórarinn Ragabróðir er lögsögu tók á Íslandi næst eftir Hrafn Hængsson. Þórarinn bjó að Varmalæk. Hann átti Þórdísi, dóttur Ólafs feilans, systur Þórðar gellis.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links