Egla, 35

From WikiSaga
Revision as of 14:18, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 35

Kafli 35

Fædd Ásgerður

Þóra ól barn um sumarið og var það mær. Var hún vatni ausin og nafn gefið og hét Ásgerður. Bera fékk til konu að gæta meyjarinnar.

Björn var um veturinn með Skalla-Grími og allir skipverjar hans. Þórólfur gerði sér títt við Björn og var honum fylgjusamur.

En er vor kom þá var það einhvern dag að Þórólfur gekk til máls við föður sinn og spurði hann þess hvert ráð hann vildi leggja til við Björn veturgest sinn, eða hverja ásjá hann vildi honum veita. Grímur spurði Þórólf hvað hann ætlaðist fyrir.

„Það ætla eg,“ segir Þórólfur, „að Björn vildi helst fara til Noregs ef hann mætti þar í friði vera. Þætti mér það ráð fyrir liggja faðir að þú sendir menn til Noregs að bjóða sættir fyrir Björn og mun Þórir mikils virða orð þín.“

Svo kom Þórólfur fyrirtölum sínum að Skalla-Grímur skipaðist við og fékk menn til utanferðar um sumarið. Fóru þeir menn með orðsendingar og jartegnir til Þóris Hróaldssonar og leituðu um sættir með þeim Birni. En þegar er Brynjólfur vissi þessa orðsending þá lagði hann allan hug á að bjóða sættir fyrir Björn. Kom þá svo því máli að Þórir tók sættir fyrir Björn því að hann sá það að þá var svo komið að Björn þurfti þá ekki að óttast um sig. Tók Brynjólfur þá sættum fyrir Björn en sendimenn Gríms voru um veturinn með Þóri en Björn var þann vetur með Skalla-Grími.

En eftir um sumarið fóru sendimenn Skalla-Gríms aftur. En er þeir komu aftur um haustið þá sögðu þeir þau tíðindi að Björn var í sætt tekinn í Noregi. Björn var hinn þriðja vetur með Skalla-Grími en eftir um vorið bjóst hann til brottferðar og sú sveit manna er honum hafði þangað fylgt.

En er Björn var búinn ferðar sinnar þá sagði Bera að hún vill að Ásgerður fóstra hennar sé eftir en þau Björn þekktust það og var mærin eftir og fæddist þar upp með þeim Skalla-Grími.

Þórólfur son Skalla-Gríms réðst til ferðar með Birni og fékk Skalla-Grímur honum fararefni. Fór hann utan um sumarið með Birni. Greiddist þeim vel og komu af hafi utan að Sognsæ. Sigldi Björn þá inn í Sogn og fór síðan heim til föður síns. Fór Þórólfur heim með honum. Tók Brynjólfur þá við þeim feginsamlega.

Síðan voru ger orð Þóri Hróaldssyni. Lögðu þeir Brynjólfur stefnu sín í milli. Kom þar og Björn til þeirrar stefnu. Tryggðu þeir Þórir þá sættir með sér. Síðan greiddi Þórir af hendi fé það er Þóra átti í hans garði og síðan tóku þeir upp, Þórir og Björn, vináttu með tengdum. Var Björn þá heima á Aurlandi með Brynjólfi. Þórólfur var og þar í allgóðu yfirlæti af þeim feðgum.

[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links