Egla, 37

From WikiSaga
Revision as of 14:20, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 37

Kafli 37

Bjarmalandsferð

Eiríkur blóðex tók þá við ríki. Hann hafði yfirsókn á Hörðalandi og um Fjörðu. Tók hann þá og hafði með sér hirðmenn.

Og eitthvert vor bjó Eiríkur blóðex för sína til Bjarmalands og vandaði mjög lið til þeirrar ferðar. Þórólfur réðst til ferðar með Eiríki og var í stafni á skipi hans og bar merki hans. Þórólfur var þá hverjum manni meiri og sterkari og líkur um það föður sínum.

Í ferð þeirri var margt til tíðinda. Eiríkur átti orustu mikla á Bjarmalandi við Vínu. Fékk Eiríkur þar sigur, svo sem segir í kvæðum hans, og í þeirri ferð fékk hann Gunnhildar dóttur Össurar tota og hafði hana heim með sér. Gunnhildur var allra kvenna vænst og vitrust og fjölkunnig mjög. Kærleikar miklir voru með þeim Þórólfi og Gunnhildi. Þórólfur var þá jafnan á vetrum með Eiríki en á sumrum í víkingu.

Það var þá næst til tíðinda að Þóra kona Bjarnar tók sótt og andaðist en nokkuru síðar fékk Björn sér annarrar konu. Hún hét Ólöf, dóttir Erlings hins auðga úr Ostur. Þau áttu dóttur er Gunnhildur hét.

Maður hét Þorgeir þyrnifótur. Hann bjó á Hörðalandi í Fenhring. Þar heitir á Aski. Hann átti þrjá sonu. Hét einn Haddur, annar Berg-Önundur, þriðji hét Atli hinn skammi. Berg-Önundur var hverjum meiri og sterkari og var maður ágjarn og ódæll. Atli hinn skammi var maður ekki hár og riðvaxinn og var rammur að afli. Þorgeir var maður stórauðigur að fé. Hann var blótmaður mikill og fjölkunnigur. Haddur lá í víking og var sjaldan heima.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links