Egla, 41

From WikiSaga
Revision as of 14:23, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 41

Kafli 41

Af Birni

Björn hlaut annan bústað góðan og virðilegan. Gerðist hann ekki handgenginn konungi. Því var hann kallaður Björn höldur. Var hann maður vellauðigur og stórmenni mikið.

Þórólfur fór brátt á fund Bjarnar þegar er hann kom af hafi og fylgdi heim Ásgerði dóttur hans. Varð þar fagnafundur. Ásgerður var hin vænsta kona og hin gervilegasta, vitur kona og allvel kunnandi.

Þórólfur fór á fund Eiríks konungs. En er þeir hittust bar Þórólfur Eiríki konungi kveðju Skalla-Gríms og sagði að hann hafði þakksamlega tekið sending konungs, bar fram síðan langskipssegl gott er hann sagði er Skalla-Grímur hefði sent konungi. Eiríkur konungur tók vel við gjöf þeirri og bauð Þórólfi að vera með sér um veturinn.

Þórólfur þakkaði konungi boð sitt „eg mun nú fyrst fara til Þóris. Á eg við hann nauðsynjaerindi.“

Síðan fór Þórólfur til Þóris sem hann hafði sagt og fékk þar allgóðar viðtökur. Bauð Þórir honum að vera með sér.

Þórólfur sagði að hann mundi það þekkjast „og er sá maður með mér að þar skal vist hafa sem eg er. Hann er bróðir minn og hefir hann ekki fyrr heiman gengið og þarf hann að eg veiti honum umsjá.“

Þórir sagði að það var heimult þó að Þórólfur vildi fleiri menn hafa með sér þangað. „Þykir oss,“ segir hann, „sveitarbót að bróður þínum ef hann er nokkuð þér líkur.“

Síðan fór Þórólfur til skips síns og lét það upp setja og um búa en hann fór og Egill til Þóris hersis.

Þórir átti son er hét Arinbjörn. Hann var nokkuru eldri en Egill. Arinbjörn var þegar snemma skörulegur maður og hinn mesti íþróttamaður. Egill gerði sér títt við Arinbjörn og var honum fylgjusamur en heldur var fátt með þeim bræðrum.

[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links