Egla, 44

From WikiSaga
Revision as of 14:25, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 44

Kafli 44

Af Ölvi

Ölvir hét maður. Hann var húskarl Þóris og var forstjóri og ráðamaður fyrir búi hans. Hafði hann skuldaheimtur og var féhirðir. Ölvir var af æskualdri og þó maður hinn hressasti.

Svo bar til að Ölvir átti heimanferð að heimta landskyldir Þóris þær er eftir höfðu staðið um vorið. Hafði hann róðrarferju og voru þeir á tólf húskarlar Þóris. Þá tók Egill að hressast og reis hann þá upp. Honum þótti þá gerast dauflegt heima er alþýða manna var á brott farin. Kom hann að máli við Ölvi og sagði að hann vildi fara með honum. En Ölvi þótti eigi góðum liðsmanni ofaukið því að skipkostur var ærinn. Réðst Egill til ferðar þeirrar. Egill hafði vopn sín, sverð og kesju og buklara. Fara þeir ferðar sinnar er þeir voru búnir og fengu veðrabálk harðan, hvöss veður og óhagstæð, en þeir sóttu ferðina knálega, tóku róðrarleiði.

Svo bar til ferð þeirra að þeir komu aftan dags til Atlaeyjar og lögðu þar að landi en þar var í eyjunni skammt upp bú mikið er átti Eiríkur konungur. En þar réð fyrir maður sá er Bárður hét. Hann var kallaður Atleyjar-Bárður og var sýslumaður mikill og starfsmaður góður. Ekki var hann kynstór maður en kær mjög Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu.

Þeir Ölvir drógu upp skip sitt úr flæðarmáli, gengu síðan til bæjar og hittu Bárð úti og sögðu honum um ferð sína, svo það að þeir vildu þar vera um nóttina. Bárður sá að þeir voru votir mjög og fylgdi hann þeim til eldahúss nokkurs. Var það brott frá öðrum húsum. Hann lét gera eld mikinn fyrir þeim og voru þar þurrkuð klæði þeirra.

En er þeir höfðu tekið klæði sín þá kom Bárður þar. „Nú munum vér,“ segir hann, „hér setja yður borð. Eg veit að yður mun vera títt að sofa. Þér eruð menn móðir af vosi.“

Ölvi líkaði það vel. Síðan var sett borð og gefinn þeim matur, brauð og smjör, og settir fram skyraskar stórir.

Bárður sagði: „Harmur er það nú mikill er öl er ekki inni það er eg megi yður fagna sem eg vildi. Verðið þér nú að bjargast við slíkt sem til er.“

Þeir Ölvir voru þyrstir mjög og supu skyrið. Síðan lét Bárður bera inn afur og drukku þeir það.

„Fús mundi eg,“ kvað Bárður, „að gefa yður betra drykk ef til væri.“

Hálm skorti þar eigi inni. Bað hann þá þar niður leggjast til svefns.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links