Egla, 52

From WikiSaga
Revision as of 14:42, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 52

Kafli 52

Af liðs samandrætti

Ólafur Skotakonungur dró saman her mikinn og fór síðan suður á England. En er hann kom á Norðimbraland fór hann allt herskildi. En er það spurðu jarlarnir er þar réðu fyrir stefna þeir saman liði og fara móti konungi. En er þeir finnast varð þar orusta mikil og lauk svo að Ólafur konungur hafði sigur en Goðrekur jarl féll en Álfgeir flýði undan og mestur hluti liðs þess er þeim hafði fylgt og brott komst úr bardaga. Fékk Álfgeir þá enga viðstöðu. Lagði Ólafur konungur þá allt Norðimbraland undir sig. Álfgeir fór á fund Aðalsteins konungs og sagði honum ófarar sínar.

En þegar er Aðalsteinn konungur spurði að her svo mikill var kominn í land hans þá gerði hann þegar menn frá sér og stefndi að sér liði, gerði orð jörlum sínum og öðrum ríkismönnum. Sneri konungur þegar á leið með það lið er hann fékk og fór í mót Skotum.

En er það spurðist að Ólafur Skotakonungur hafði fengið sigur og hafði lagt undir sig mikinn hluta af Englandi, hafði hann þá her miklu meira en Aðalsteinn en þá sótti til hans margt ríkismanna. En er þetta spyrja þeir Hringur og Aðils, höfðu þeir saman dregið lið mikið, þá snúast þeir í lið með Ólafi konungi. Höfðu þeir þá ógrynni liðs.

En er Aðalsteinn spurði þetta allt þá átti hann stefnu við höfðingja sína og ráðamenn, leitaði þá eftir hvað tiltækilegast væri, sagði þá allri alþýðu greinilega það er hann hafði frétt um athöfn Skotakonungs og fjölmenni hans. Allir mæltu þar eitt um að Álfgeir jarl hafði hinn versta hlut af og þótti það til liggja að taka af honum tignina. En sú ráðagerð staðfestist að Aðalsteinn konungur skyldi fara aftur og fara á sunnanvert England og hafa þá fyrir sér liðsafnað norður eftir landi öllu, því að þeir sáu ellegar mundi seint safnast fjölmennið, svo mikið sem þyrfti, ef eigi drægi konungur sjálfur að liðið.

En sá her er þá var þar saman kominn þá setti konungur þar yfir höfðingja Þórólf og Egil. Skyldu þeir ráða fyrir því liði er víkingar höfðu þangað haft til konungs en Álfgeir sjálfur hafði þá enn forráð síns liðs. Þá fékk konungur enn sveitarhöfðingja þá er honum sýndist. En er Egill kom heim af stefnunni til félaga sinna þá spurðu þeir hvað hann kynni að segja þeim tíðinda frá Skotakonungi. Hann kvað:

Ólafr of kom jöfri, ótt, víg, á bak flótta, þingharðan spyr eg þengil þann, er felldi annan. Glapstígu lét gnóga Goðrekr á mó troðna. Jörð spenr Engla skerðir Álfgeir, und sig hálfa.

Síðan gera þeir sendimenn til Ólafs konungs og finna það til erinda að Aðalsteinn konungur vill hasla honum völl og bjóða orustustað á Vínheiði við Vínuskóga og hann vill að þeir herji eigi á land hans en sá þeirra ráði ríki á Englandi er sigur fær í orustu, lagði til vikustef um fund þeirra en sá bíður annars viku er fyrr kemur. En það var þá siður þegar konungi var völlur haslaður að hann skyldi eigi herja að skammlausu fyrr en orustu væri lokið. Gerði Ólafur konungur svo að hann stöðvaði her sinn og herjaði ekki og beið til stefnudags. Þá flutti hann her sinn til Vínheiðar.

Borg ein stóð fyrir norðan heiðina. Settist Ólafur konungur þar í borgina og hafði þar mestan hlut liðs síns því að þar var út í frá héruð stór og þótti honum þar betra til aðflutninga um föng þau er herinn þurfti að hafa. En hann sendi menn sína upp á heiðina þar sem orustustaðurinn var ákveðinn. Skyldu þeir taka þar tjaldstaði og búast þar um áður herinn kæmi. En er þeir menn komu í þann stað er völlurinn var haslaður þá voru þar settar upp heslistengur allt til ummerkja þar er sá staður var er orustan skyldi vera. Þurfti þann stað að vanda, að hann væri sléttur, er miklum her skyldi fylkja. Var þar og svo er orustustaðurinn skyldi vera að þar var heiður slétt en annan veg frá féll á ein en á annan veg frá var skógur mikill.

En þar er skemmst var milli skógarins og árinnar, og var það mjög löng leið, þar höfðu tjaldað menn Aðalsteins konungs. Stóðu tjöld þeirra allt milli skógarins og árinnar. Þeir höfðu svo tjaldað að eigi voru menn í hinu þriðja hverju tjaldi og þó fáir í einu.

En er menn Ólafs konungs komu til þeirra þá höfðu þeir fjölmennt fyrir framan tjöldin öll og náðu þeir ekki inn að ganga. Sögðu menn Aðalsteins að tjöld þeirra væru öll full af mönnum svo að hvergi nær hefði þar rúm lið þeirra. En tjöldin stóðu svo hátt að ekki mátti yfir upp sjá hvort þau stóðu mörg eða fá á þykktina. Þeir hugðu að þar mundi vera her manns.

Ólafs konungs menn tjölduðu fyrir norðan höslurnar og var þangað allt nokkuð afhallt. Aðalsteins menn sögðu og annan dag frá öðrum að konungur þeirra mundi þá koma eða vera kominn í borg þá er var sunnan undir heiðinni. Lið dróst til þeirra bæði dag og nótt.

En er stefna sú var liðin er ákveðið var þá senda menn Aðalsteins erindreka á fund Ólafs konungs með þeim orðum að Aðalsteinn konungur er búinn til orustu og hefir her allmikinn en hann sendir Ólafi konungi þau orð að hann vill eigi að þeir geri svo mikið mannspell sem þá horfðist til, bað hann heldur fara heim í Skotland en Aðalsteinn vill fá honum að vingjöf skilding silfurs af plógi hverjum um allt ríki sitt og vill að þeir leggi með sér vináttu.

En er sendimenn koma til Ólafs konungs þá tók hann að búa her sinn og ætlaði að að ríða. En er sendimenn báru upp erindi þá stöðvaði konungur ferð sína þann dag, sat þá í ráðagerð og höfðingjar hers með honum. Lögðu menn þar allmisjafnt til. Sumir fýstu mjög að þenna kost skyldi taka, sögðu að það var þá orðin hin mesta fremdarferð að þeir færu heim og hefðu tekið gjald svo mikið af Aðalsteini. Sumir löttu og sögðu að Aðalsteinn mundi bjóða miklu meira í annað sinn ef þetta væri eigi tekið og var sú ráðagerð staðfest.

Þá báðu sendimenn Ólaf konung að gefa sér tóm til að þeir hittu enn Aðalstein konung og freistuðu ef hann vildi enn meira gjald af hendi reiða til þess að friður væri. Þeir beiddu griða einn dag til heimreiðar en annan til umráða en hinn þriðja til afturferðar. Konungur játtaði þeim því. Fara sendimenn heim og koma aftur hinn þriðja dag sem ákveðið var, segja Ólafi konungi að Aðalsteinn vill gefa allt slíkt sem hann bauð fyrr og þar umfram til hlutskiptis liði Ólafs konungs skilding manni hverjum frjálsbornum en mörk sveitarhöfðingja hverjum þeim er réði fyrir tólf mönnum eða fleirum en mörk gulls hirðstjóra hverjum en fimm merkur gulls jarli hverjum.

Síðan lét konungur þetta upp bera fyrir lið sitt. Var enn sem fyrr að sumir löttu en sumir fýstu en að lyktum veitti konungur úrskurð, segir að þenna kost vill hann taka ef það fylgir að Aðalsteinn konungur lætur hann hafa Norðimbraland allt með þeim sköttum og skyldum er þar liggja.

Sendimenn biðja enn fresta um þrjá daga og þess með að Ólafur konungur sendi þá menn sína að heyra orð Aðalsteins konungs hvort hann vill eða eigi þenna kost, segja að þeir hyggja að Aðalsteinn konungur mundi láta fátt við nema að sættin tækist. Ólafur konungur játtir því og sendir menn sína til Aðalsteins konungs. Ríða þá sendimenn allir saman og hitta Aðalstein konung í borg þeirri er var næst heiðinni fyrir sunnan.

Sendimenn Ólafs konungs bera upp erindi sín fyrir Aðalstein konung og sættaboð. Aðalsteins konungs menn sögðu og með hverjum boðum þeir höfðu farið til Ólafs konungs og það með að það var ráðagerð vitra manna að dvelja svo orustu meðan konungur kæmi eigi.

En Aðalsteinn konungur veitti skjótan úrskurð um þetta mál og sagði sendimönnum svo: „Berið þau orð mín Ólafi konungi að eg vil gefa honum orlof til þess að fara heim til Skotlands með lið sitt og gjaldi hann aftur fé það allt er hann tók upp að röngu hér í landi. Setjum hér síðan frið í millum landa vorra og herji hvorigir á aðra. Það skal og fylgja að Ólafur konungur skal gerast minn maður og halda Skotland af mér og vera undirkonungur minn. Farið nú,“ segir hann, „aftur og segið honum svo búið.“

Sendimenn sneru aftur leið sína þegar um kveldið og komu til Ólafs konungs nær miðri nótt, vöktu þá upp konung og sögðu honum þegar orð Aðalsteins konungs. Konungur lét þegar kalla til sín jarlana og aðra höfðingja, lét þá sendimenn koma til og segja upp erindislok sín og orð Aðalsteins konungs. En er þetta var kunnigt gert fyrir liðsmönnum þá var eitt orðtak allra að það mundi fyrir liggja að búast til orustu. Sendimenn sögðu og það með að Aðalsteinn hafði fjölda liðs og hann hafði þann dag komið til borgarinnar sem sendimenn komu.

Þá mælti Aðils jarl: „Nú mun það fram komið konungur sem eg sagði að yður mundu þeir reynast brögðóttir hinir ensku. Höfum vér hér setið langa stund og beðið þess er þeir hafa dregið að sér allt lið sitt en konungur þeirra mun verið hafa hvergi nær þá er vér komum hér. Munu þeir nú hafa safnað liði miklu síðan vér settumst. Nú er það ráð mitt konungur að við bræður ríðum þegar í nótt fyrir með okkru liði. Má það vera að þeir óttist nú ekki að sér er þeir hafa spurt að konungur þeirra er nær með her mikinn. Skulum við þá veita þeim áhlaup en er þeir verða forflótta þá munu þeir láta lið sitt en ódjarfari síðan í atgöngu að móti oss.“

Konungi þótti þetta ráð vel fundið „munum vér búa her vorn þegar er lýsir og fara til móts við yður.“

Staðfestu þeir þetta ráð og luku svo stefnunni.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links