Egla, 60

From WikiSaga
Revision as of 14:52, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 60

Kafli 60

Andlát Skalla-Gríms

Þorgeir hét maður. Hann átti Þórdísi Yngvarsdóttur, systur Beru, móður Egils. Þorgeir bjó inn frá Álftanesi á Lambastöðum. Hann hafði komið út með Yngvari. Hann var auðigur og virður vel af mönnum. Sonur þeirra Þorgeirs var Þórður er bjó á Lambastöðum eftir föður sinn í þenna tíma er Egill kom til Íslands.

Það var þá um haustið nokkuru fyrir vetur að Þórður reið inn til Borgar að hitta Egil frænda sinn og bauð honum heim til veislu. Hafði hann látið heita mungát út þar. Egill hét ferðinni og var kveðið á vikustef nokkuð. Og er svo var liðið bjóst Egill til ferðar og með honum Ásgerður kona hans. Voru þau saman tíu eða tólf. Og er Egill var búinn þá gekk Skalla-Grímur út með honum og hvarf til hans áður Egill steig á bak og mælti: „Seint þykir mér þú Egill hafa greitt fé það er Aðalsteinn konungur sendi mér, eða hvernig ætlar þú að fara skuli fé það?“

Egill segir: „Er þér nú féfátt mjög faðir? Eg vissi það eigi. Þegar skal eg láta þig hafa silfur er eg veit er þú þarft en eg veit að þú munt enn hafa að varðveita eina kistu eða tvær, fullar af silfri.“

„Svo þykir mér,“ segir Skalla-Grímur, „sem þú munir þykjast skipt hafa lausafé með okkur. Muntu láta þér vel hugna að eg geri slíkt er mér líkar af því er eg varðveiti.“

Egill segir: „Þú munt engis lofs þykjast þurfa að biðja mig um þetta því að þú munt ráða vilja hvað sem eg mæli.“

Síðan reið Egill í brott þar til er hann kom á Lambastaði. Var þar tekið við honum vel og feginsamlega. Skyldi hann þar sitja þrjár nætur.

Það sama kveld er Egill hafði heiman farið lét Skalla-Grímur söðla sér hest. Reið hann þá heiman er aðrir menn fóru að sofa. Hann reiddi í knjám sér kistu vel mikla en hann hafði í handarkrika sér eirketil er hann fór í brott. Hafa menn það síðan fyrir satt að hann hafi látið fara annaðhvort eða bæði í Krumskeldu og látið þar fara á ofan hellustein mikinn.

Skalla-Grímur kom heim um miðnættisskeið og gekk þá til rúms síns og lagðist niður í klæðum sínum. En um morguninn er lýsti og menn klæddust þá sat Skalla-Grímur fram á stokk og var þá andaður og svo stirður að menn fengu hvergi rétt hann né hafið og var alls við leitað.

Þá var hesti skotið undir einn mann. Hleypti sá sem ákaflegast til þess er hann kom á Lambastaði. Gekk hann þegar á fund Egils og segir honum þessi tíðindi. Þá tók Egill vopn sín og klæði og reið heim til Borgar um kveldið og þegar hann hafði af baki stigið gekk hann inn og í skot er var um eldahúsið en dyr voru fram úr skotinu að setum innanverðum. Gekk Egill fram í setið og tók í herðar Skalla-Grími og kneikti hann aftur á bak, lagði hann niður í setið og veitti honum þá nábjargir. Þá bað Egill taka graftól og brjóta vegginn fyrir sunnan. Og er það var gert þá tók Egill undir höfðahlut Skalla-Grími en aðrir tóku fótahlutinn. Báru þeir hann um þvert húsið og svo út í gegnum vegginn þar er áður var brotinn. Báru þeir hann þá í hríðinni ofan í Naustanes. Var þar tjaldað yfir um nóttina. En um morguninn að flóði var lagður Skalla-Grímur í skip og róið með hann út til Digraness. Lét Egill þar gera haug á framanverðu nesinu. Var þar í lagður Skalla-Grímur og hestur hans og vopn hans og smíðartól. Ekki er þess getið að lausafé væri lagt í haug hjá honum.

Egill tók þar við arfi, löndum og lausum aurum. Réð hann þá fyrir búi. Þar var með Agli Þórdís dóttir Þórólfs og Ásgerðar.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links