Egla, 72

From WikiSaga
Revision as of 15:17, 8 November 2011 by Jón Karl Helgason (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 72

Kafli 72

Sendiferð til Vermalands

Haraldur konungur hinn hárfagri hafði lagt undir sig austur Vermaland. Vermaland hafði unnið fyrstur Ólafur trételgja, faðir Hálfdanar hvítbeins, er fyrst var konungur í Noregi sinna kynsmanna, en Haraldur konungur var þaðan kominn að langfeðgatali og höfðu þeir allir langfeðgar ráðið fyrir Vermalandi og tekið skatta af en setta menn yfir til landsgæslu.

Og er Haraldur konungur var gamall orðinn þá réð fyrir Vermalandi jarl sá er Arnviður hét. Var þar þá sem mjög víða annars staðar að skattar greiddust verr en þá er Haraldur konungur var á léttasta skeiði aldurs, svo og þá er synir Haralds deildu um ríki í Noregi. Var þá lítt séð eftir um skattlöndin þau er fjarri lágu.

En þá er Hákon sat í friði þá leitaði hann eftir um ríki það allt er Haraldur faðir hans hafði haft. Hákon konungur hafði sent menn austur á Vermaland, tólf saman. Höfðu þeir fengið skatt af jarlinum. Og er þeir fóru aftur um Eiðaskóg þá komu að þeim stigamenn og drápu þá alla. Á sömu leið fór um aðra sendimenn er Hákon konungur sendi austur á Vermaland að menn voru drepnir en fé kom eigi aftur. Var það þá sumra manna mál að Arnviður jarl mundi setja menn sína til að drepa menn konungsins en hafa féið að færa jarlinum.

Þá sendir Hákon konungur hina þriðju menn. Var hann þá í Þrándheimi. Og skyldu þeir fara í Vík austur til fundar við Þorstein Þóruson með þeim orðum að hann skyldi fara austur á Vermaland að heimta skatta konungi til handa en að öðrum kosti skyldi Þorsteinn fara úr landi, því að konungur hafði þá spurt að Arinbjörn móðurbróðir hans var kominn suður til Danmerkur og var með Eiríkssonum, það og með að þeir höfðu þar miklar sveitir og voru í hernaði um sumrum. Þótti Hákoni konungi þeir allir saman ekki trúlegir því að honum var von ófriðar af Eiríkssonum ef þeir hefðu styrk nokkurn til þess að gera uppreist móti Hákoni konungi. Þá gerði hann til allra frænda Arinbjarnar og mága eða vina, rak hann þá marga úr landi eða gerði þeim aðra afarkosti. Kom það og þar fram er Þorsteinn var að konungur gerði fyrir þá sök þetta kostaboð.

Maður sá er erindi þetta bar, hann var allra landa maður, hafði verið löngum í Danmörk og í Svíaveldi. Var honum þar allt kunnigt fyrir, bæði um leiðir og mannadeili. Hann hafði og víða farið um Noreg. Og er hann bar þetta mál Þorsteini Þórusyni þá segir Þorsteinn Agli með hverjum erindum þessir menn fóru og spurði hversu svara skyldi.

Egill segir: „Auðsætt líst mér um orðsending þessa að konungur vill þig úr landi sem aðra frændur Arinbjarnar því að þetta kalla eg forsending svo göfgum manni sem þú ert. Er það mitt ráð er þú kallir til tals við þig sendimenn konungs og vil eg vera við ræðu yðra. Sjáum þá hvað í gerist.“

Þorsteinn gerði sem hann mælti, kom þeim í talið. Sögðu þá sendimenn allt hið sanna frá erindum sínum og orðsending konungs að Þorsteinn skyldi fara þessa sendiför en vera útlægur að öðrum kosti.

Þá segir Egill: „Sé eg gerla um erindi yðvart. Ef Þorsteinn vill eigi fara þá munuð þér fara skulu að heimta skattinn.“

Sendimenn sögðu að hann gat rétt.

„Eigi mun Þorsteinn fara þessa ferð því að hann er ekki þess skyldur, svo göfugur maður, að fara svo óríflegar sendiferðir. En hitt mun Þorsteinn gera, er hann er til skyldur, að fylgja konungi innan lands og utan lands ef konungur vill þess krefja, svo og ef þér viljið nokkura menn hafa héðan til þessar ferðar þá mun yður það heimult og allan farargreiða þann er þér viljið Þorsteini til segja.“

Síðan töluðu sendimenn sín í milli og kom það ásamt með þeim ef Egill vildi fara í ferðina. „Er konungi,“ sögðu þeir, „allilla til hans og mun honum þykja vor ferð allgóð ef vér komum því til leiðar að hann sé drepinn. Má hann þá reka Þorstein úr landi ef honum líkar.“

Síðan segja þeir Þorsteini að þeir láta sér líka ef Egill fer og sitji Þorsteinn heima.

„Það skal þá vera,“ segir Egill, „að eg mun Þorstein undan ferð þessi leysa eða hversu marga menn þykist þér þurfa héðan að hafa?“

„Vér erum saman átta,“ sögðu þeir, „viljum vér að héðan fari fjórir menn. Erum vér þá tólf.“

Egill segir að svo skyldi vera.

Önundur sjóni og þeir nokkurir sveitungar Egils höfðu farið út til sjóvar að sjá um skip þeirra og annan varnað er þeir höfðu selt til varðveislu um haustið og komu þeir eigi heim. Þótti Agli það mikið mein því að konungsmenn létu óðlega um ferðina og vildu ekki bíða.


[1]

References

  1. REFERENCE TEXT(Fræðigrein:DISPLAY AS OTHER INFO)

Links