Njála, 064

From WikiSaga
Revision as of 15:10, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 64== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 64== Steinvör í Sandgili bað Þorgrím Austmann vera fyrir fjárforráðum sínum...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 64

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 64

Steinvör í Sandgili bað Þorgrím Austmann vera fyrir fjárforráðum sínum og fara ekki utan og muna svo lát félaga síns og frænda.

Hann sagði: „Það spáði mér Þórir félagi minn að eg mundi falla fyrir Gunnari ef eg væri hér á landi og mun hann vita það fyrir er hann vissi dauða sinn.“

„Eg mun gefa þér til Guðrúnu dóttur mína og féið allt.“

„Eigi vissi eg að þú mundir þessu svo miklu kaupa,“ segir hann.

Síðan kaupa þau þessu að hann skal fá hennar og er boð þetta um sumarið.

Gunnar ríður til Bergþórshvols og með honum Kolskeggur. Njáll var úti og synir hans og gengu í móti Gunnari og fögnuðu þeim vel. Síðan gengu þeir á tal.

Gunnar mælti: „Hingað er eg kominn að sækja heilræði að þér og traust.“

Njáll sagði: „Skylt er það.“

„Eg hefi ratað í vandræði mikil og drepið marga menn og vil eg vita,“ segir Gunnar, „hversu þú vilt vera láta.“

„Það munu margir mæla,“ segir Njáll, „að þú hafir mjög verið til neyddur. En nú skalt þú gefa mér tóm til ráðagerðar.“

Njáll gekk í braut einn saman og hugsaði ráðið og kom aftur og mælti: „Nú hefi eg nokkuð hugsað málið og líst mér sem þetta muni nú nokkuð með harðfengi og kappi verða að gera. Þorgeir hefir barnað Þorfinnu frændkonu mína og mun eg selja þér í hendur legorðssökina. Aðra skóggangssök sel eg þér á hendur Starkaði er hann hefir höggvið í skógi mínum á Þríhyrningshálsum og skalt þú sækja þær sakir báðar. Þú skalt fara þangað sem þér börðust og grafa upp hina dauðu fyrir það er þeir fóru með þann hug til fundar að veita þér ákomur og bráðan bana og bræðrum þínum. En ef þetta er prófað á þingi og því sé við lostið að þú hafir áður lostið Þorgeir og megir hvorki sækja þína sök né annarra, þá mun eg svara því máli og segja að eg helgaði þig á Þingskálaþingi að þú skyldir bæði mega sækja þitt mál og svo annarra og mun þá verða svarað máli því. Þú skalt og finna Tyrfing í Berjanesi og skal hann selja þér sök á hendur Önundi í Tröllaskógi er mál á eftir Egil bróður sinn.“

Reið þá Gunnar heim fyrst.

En nokkurum nóttum síðar riðu þeir Njálssynir og Gunnar þangað til sem líkin voru og grófu þá upp alla sem jarðaðir voru. Stefndi Gunnar þeim þá öllum til óhelgi fyrir aðför og fjörráð og reið heim eftir það.


65. KAFLI


Þetta haust hið sama kom út Valgarður hinn grái og fór heim til Hofs. Þorgeir fór að finna þá Valgarð og Mörð og sagði hver firn voru er Gunnar skyldi hafa óhelgað þá alla er hann hafði vegið. Valgarður kvað það vera mundu ráð Njáls og þó eigi öll [upp komin þau sem hann mundi hafa ráðið honum. Þorgeir bað þá feðga liðveislu og atgöngu en þeir fóru lengi undan og mæltu til fé mikið að lyktum. Var það í ráðagerðum að Mörður skyldi biðja Þorkötlu dóttur Gissurar hvíta og skyldi Þorgeir þegar ríða vestur um ár með þeim Valgarði og Merði.

Annan dag eftir riðu þeir tólf saman og komu til Mosfells. Var þeim þar vel fagnað. Vekja þeir þá til við Gissur um bónorðið. Lýkur svo með þeim að ráðin skyldu takast og skyldi boð vera á hálfs mánaðar fresti að Mosfelli. Ríða þeir heim. Síðan ríða þeir heim til boðs. Var þar fjöldi fyrirboðsmanna og fór það vel fram. Fór Þorkatla heim með Merði og var fyrir búi en Valgarður fór utan um sumarið.

Mörður eggjar Þorgeir á málatilbúnað við Gunnar. Þorgeir fór að finna Önund, biður hann nú búa til vígsmál Egils bróður síns og sona hans „en eg mun búa til vígsmál bræðra minna og áverkamál mitt og föður míns.“

Hann kvaðst þess albúinn. Fara þeir þá og lýsa vígunum og kveðja níu vettvangsbúa.

Þessi málatilbúnaður spurðist til Hlíðarenda. Ríður Gunnar þá að finna Njál og segir honum og spurði hvað hann vildi þá láta að gera.

„Nú skalt þú,“ segir Njáll, „stefna vettvangsbúum þínum og nábúum saman og nefna votta og kjósa Kol til veganda að vígi Hjartar bróður þíns því að það er rétt. Síðan skalt þú lýsa víginu á hönd Kol þótt hann sé dauður. Þá skalt þú nefna þér votta og kveðja búa alþingisreiðar að bera um það hvort þeir væru í aðsókn þá er Hjörtur var veginn. Þú stefnir Þorgeiri um legorðssökina og svo Önundi um sökina Tyrfings.“

Gunnar fór nú með öllu sem honum var ráð til kennt af Njáli. Þetta þótti mönnum undarlegur málatilbúnaður. Fara nú þessi mál til þings.

Gunnar ríður til þings og synir Njáls og Sigfússynir. Gunnar hafði sent mann mágum sínum að þeir skyldu ríða til þings og fjölmenna mjög, kvað þeim þetta mundu mjög kappdrægt verða. Þeir fjölmenntu mjög vestan.

Mörður reið til þings og Runólfur úr Dal og þeir undan Þríhyrningi og Önundur úr Tröllaskógi.


Tilvísanir

Links