Njála, 063

From WikiSaga
Revision as of 15:10, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 63== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 63== Síðan eggjaði Starkaður sína menn. Snúa þeir þá fram í nesið að þ...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 63

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 63

Síðan eggjaði Starkaður sína menn. Snúa þeir þá fram í nesið að þeim. Sigurður svínhöfði fór fyrstur og hafði törguskjöld einn rauðan en sviðu í annarri hendi. Gunnar sér hann og skýtur til hans af boganum. Hann brá upp hátt skildinum er hann sá örina hátt fljúga og kom örin í gegnum skjöldinn og í augað svo að út kom í hnakkann og varð það víg fyrst. Annarri ör skaut Gunnar að Úlfhéðni manni Starkaðar og kom sú á hann miðjan og féll hann fyrir fætur bónda einum og bóndinn um hann. Kolskeggur kastar til steini og kom í höfuð bóndanum og varð það hans bani.

Þá mælti Starkaður: „Ekki mun oss þetta duga að hann komi boganum við og göngum að fram vel og snarplega.“

Síðan eggjaði hver annan. Gunnar varði sig með boganum og örum meðan hann mátti. Síðan kastar hann þeim niður. Tók hann þá atgeirinn og sverðið og vegur með báðum höndum. Er bardagi hinn harðasti lengi en þó vegur Gunnar mennina drjúgum og Kolskeggur.

Þá mælti Þorgeir Starkaðarsonur: „Eg hét að færa Hildigunni höfuð þitt, Gunnar.“

Þá kvað Gunnar vísu:


20. Hygg að það muni þykja

þvengláðs Njörun öngu

dýnu, darra reynir

driftar, máli skipta;

móins jarðar, gakk þú, myrðir

meir fram í dyn geira

leygs ef reiði skal ráða

Rínar höfði mínu.


„Ekki mun henni það þykja svo miklu varða,“ segir Gunnar, „en þó munt þú þá nær ganga verða.“

Þorgeir mælti við bræður sína: „Hlaupum vér að honum fram allir senn. Hann hefir engan skjöld og munum vér hafa ráð hans í hendi.“

Þeir hljópu fram Börkur og Þorkell og urðu skjótari en Þorgeir. Börkur höggur til Gunnars. Gunnar laust við atgeirinum svo hart að sverðið hraut úr hendi Berki. Sér hann þá til annarrar handar Þorkel standa í höggfæri við sig. Gunnar stóð nokkuð höllum fæti. Gunnar sveiflar sverðinu og kom á hálsinn Þorkatli og fauk af höfuðið.

Kolur mælti Egilsson: „Látið mig fram að Kolskeggi“ og mælti: „Það hefi eg lengi mælt að við mundum mjög jafnfærir til vígs.“

„Slíkt megum við nú reyna,“ segir Kolskeggur.

Kolur leggur til hans spjóti. Kolskeggur hafði þá vegið mann og átti sem mest að vinna og kom eigi fyrir sig skildinum og kom lagið í lærið utanfótar og gekk í gegnum.

Kolskeggur brást við fast og óð að honum og hjó með saxinu á lærið og undan fótinn og mælti: „Hvort nam þig eða eigi?“

„Þess galt eg nú,“ segir Kolur, „er eg var berskjaldaður“ og stóð nokkura stund á hinn fótinn og leit á stúfinn.

Kolskeggur mælti: „Eigi þarftu að líta á, jafnt er sem þér sýnist, af er fóturinn.“

Kolur féll þá dauður niður. En er þetta sér Egill hleypur hann að Gunnari og höggur til hans. Gunnar leggur í móti atgeirinum og kom á hann miðjan. Gunnar vegur hann upp á atgeirinum og kastar honum út á Rangá.

Þá mælti Starkaður: „Allvesall ertu, Þórir Austmaður, er þú situr hjá en nú er veginn húsbóndi þinn og mágur.“

Þá spratt upp Austmaðurinn og var mjög reiður. Hjörtur hafði orðið tveggja manna bani. Austmaðurinn hleypur að honum og höggur framan á brjóstið. Hjörtur féll þá þegar dauður niður. Gunnar sér þetta og var skjótur til höggs við Austmanninn og sníður hann í sundur í miðju. Litlu síðar skýtur Gunnar til Barkar atgeirinum og kom á hann miðjan og í gegnum hann og niður í völlinn. Þá höggur Kolskeggur höfuð af Hauki Egilssyni en Gunnar höggur hönd af Óttari í olbogabót.

Þá mælti Starkaður: „Flýjum nú, ekki er við menn um að eiga.“

Gunnar mælti: „Það mun ykkur illt frásagnar þykja ef ekki skal mega sjá á ykkur að þið hafið í bardaga verið.“

Síðan hljóp Gunnar að þeim feðgum og veitti þeim áverka. Eftir það skildu þeir og höfðu þeir Gunnar marga þá særða er undan héldu.

Á fundinum létust fjórtán menn og Hjörtur hinn fimmtándi. Gunnar reiddi Hjört heim á skildi sínum og var hann þar heygður. Margir menn hörmuðu hann því að hann var vinsæll.

Starkaður kom og heim og græddi Hildigunnur sár þeirra Þorgeirs og mælti: „Yður væri mikið gefanda til að þér hefðuð ekki illt átt við Gunnar.“

„Svo væri það,“ segir Starkaður.


Tilvísanir

Links