Njála, 065

From WikiSaga
Revision as of 15:11, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 65== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 65== Þetta haust hið sama kom út Valgarður hinn grái og fór heim til Hofs. Þo...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 65

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 65

Þetta haust hið sama kom út Valgarður hinn grái og fór heim til Hofs. Þorgeir fór að finna þá Valgarð og Mörð og sagði hver firn voru er Gunnar skyldi hafa óhelgað þá alla er hann hafði vegið. Valgarður kvað það vera mundu ráð Njáls og þó eigi öll [upp komin þau sem hann mundi hafa ráðið honum. Þorgeir bað þá feðga liðveislu og atgöngu en þeir fóru lengi undan og mæltu til fé mikið að lyktum. Var það í ráðagerðum að Mörður skyldi biðja Þorkötlu dóttur Gissurar hvíta og skyldi Þorgeir þegar ríða vestur um ár með þeim Valgarði og Merði.

Annan dag eftir riðu þeir tólf saman og komu til Mosfells. Var þeim þar vel fagnað. Vekja þeir þá til við Gissur um bónorðið. Lýkur svo með þeim að ráðin skyldu takast og skyldi boð vera á hálfs mánaðar fresti að Mosfelli. Ríða þeir heim. Síðan ríða þeir heim til boðs. Var þar fjöldi fyrirboðsmanna og fór það vel fram. Fór Þorkatla heim með Merði og var fyrir búi en Valgarður fór utan um sumarið.

Mörður eggjar Þorgeir á málatilbúnað við Gunnar. Þorgeir fór að finna Önund, biður hann nú búa til vígsmál Egils bróður síns og sona hans „en eg mun búa til vígsmál bræðra minna og áverkamál mitt og föður míns.“

Hann kvaðst þess albúinn. Fara þeir þá og lýsa vígunum og kveðja níu vettvangsbúa.

Þessi málatilbúnaður spurðist til Hlíðarenda. Ríður Gunnar þá að finna Njál og segir honum og spurði hvað hann vildi þá láta að gera.

„Nú skalt þú,“ segir Njáll, „stefna vettvangsbúum þínum og nábúum saman og nefna votta og kjósa Kol til veganda að vígi Hjartar bróður þíns því að það er rétt. Síðan skalt þú lýsa víginu á hönd Kol þótt hann sé dauður. Þá skalt þú nefna þér votta og kveðja búa alþingisreiðar að bera um það hvort þeir væru í aðsókn þá er Hjörtur var veginn. Þú stefnir Þorgeiri um legorðssökina og svo Önundi um sökina Tyrfings.“

Gunnar fór nú með öllu sem honum var ráð til kennt af Njáli. Þetta þótti mönnum undarlegur málatilbúnaður. Fara nú þessi mál til þings.

Gunnar ríður til þings og synir Njáls og Sigfússynir. Gunnar hafði sent mann mágum sínum að þeir skyldu ríða til þings og fjölmenna mjög, kvað þeim þetta mundu mjög kappdrægt verða. Þeir fjölmenntu mjög vestan.

Mörður reið til þings og Runólfur úr Dal og þeir undan Þríhyrningi og Önundur úr Tröllaskógi.


Tilvísanir

Links