Njála, 088
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
=Chapter 88
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 88
Nú er það sumar er Njálssynir fóru til Noregs af Orkneyjum og voru þar í kaupstefnu um sumarið. Þráinn Sigfússon bjó þá skip sitt til Íslands og var þá mjög búinn.
Þá fór Hákon jarl á veislu til Guðbrands. Um nóttina fór Víga-Hrappur til goðahúss þeirra jarls og Guðbrands. Hann gekk inn í húsið. Hann sá Þorgerði höldabrúði sitja og var hún svo mikil sem maður roskinn. Hún hafði mikinn gullhring á hendi og fald á höfði. Hann sviptir faldinum hennar og tekur af henni gullhringinn. Þá sér hann kerru Þórs og tekur af honum annan gullhring. Hann tók hinn þriðja af Irpu og dró þau öll út og tók af þeim allan búnaðinn. Síðan lagði hann eld í goðahúsið og brenndi upp. Eftir það gengur hann braut. Tók þá að morgna. Hann gengur um akurland nokkurt. Þar spruttu upp sex menn með vopnum og sækja þegar að honum en hann verst vel. Verða þær málalyktir að hann vegur þrjá menn en særir Þránd til ólífis en eltir tvo til skógar svo að þeir báru enga njósn jarli.
Hann gekk þá að Þrándi og mælti: „Kosti á eg nú að vega þig og vil eg eigi það. Skal eg meira virða mágsemd við þig en þér virðið við mig.“
Hrappur ætlar nú að snúa aftur á skóginn. Sér hann nú að menn eru komnir meðal skógarins og hans. Treystist hann þá eigi þangað á að leita. Leggst hann þá niður í runna nokkura og liggur þar um stund.
Þeir Hákon jarl og Guðbrandur gengu þenna morgun snemma til goðahússins og fundu það brunnið upp en úti þrjú goðin og úr öllum skrúðanum.
Þá tók Guðbrandur til orða: „Mikill máttur er gefinn goðum vorum er þau hafa gengið sjálf úr eldinum.“
„Eigi munu goðin þessu valda,“ segir jarl. „Maður mun brennt hafa hofið en borið út goðin. En goð hefna eigi alls þegar. Mun sá maður braut rekinn úr Valhöllu og þar aldrei koma er þetta hefir gert.“
Í því bili hljópu þangað menn jarls fjórir og sögðu þeim ill tíðindi, kváðust fundið hafa á akrinum menn þrjá vegna en særðan Þránd til ólífis.
„Hver mun slíku valda?“ segir jarl.
„Víga-Hrappur,“ sögðu þeir.
„Þá mun hann hafa brennt upp goðahúsið,“ segir jarl.
Þeim þótti hann víst til þess líklegur.
„Hvar mun hann nú vera?“ sagði jarl.
Þeir sögðu að Þrándur segði að hann hefði lagst niður í runna nokkura.
Jarl fer þangað að leita og var Hrappur þá í brottu. Skipaði jarl þá til að leita hans og fundu þeir hann eigi. Jarl var sjálfur í leitinni og bað hann þá hvílast fyrst.
Jarl gekk einn saman frá öllum mönnum og bað engan mann með sér ganga og dvaldist um stund. Hann féll á kné bæði og hélt fyrir augu sér. Síðan gekk hann aftur til þeirra.
Hann mælti við þá: „Gangið þér með mér.“
Þeir gengu með honum. Hann snýr þvers af leiðinni þeirri er þeir höfðu áður farið og komu að dalverpi einu. Þar spratt Hrappur upp fyrir þeim og hafði hann þar fólgið sig áður. Jarl eggjar menn að hlaupa eftir honum en Hrappur var svo fóthvatur að þeir komust hvergi í nánd honum.
Hrappur stefndi til Hlaða. Þar voru þeir þá búnir til hafs hvorirtveggju, Þráinn Sigfússon og Njálssynir. Hrappur hleypur þar að sem þeir eru fyrir Njálssynir.
Hann mælti: „Bjargið mér, góðir drengir, því að jarl vill drepa mig.“
Helgi leit við honum og mælti: „Ógæfusamlegur maður ert þú,“ segir Helgi, „og mun sá betur hafa er eigi tekur við þér.“
„Það mundi eg vilja,“ segir Hrappur, „að þið hlytuð af mér mest illt.“
„Maður er eg til þess,“ segir Helgi, „að hefna þér þess þá er stundir líða.“
Hrappur sneri þá til móts við Þráin Sigfússon og bað hann ásjá.
„Hvað er þér á höndum?“ segir Þráinn.
„Brennt hefi eg goðahús fyrir jarli og drepið menn nokkura og mun hann hér koma brátt því að hann er sjálfur í eftirleitinni.“
„Varla samir mér það,“ segir Þráinn, „svo mikið gott sem jarl hefir mér gert.“
Þá sýndi hann Þráni gripina þá er hann hafði borið úr goðahúsinu og bauð að gefa honum féið. Hann sagði að hann mundi eigi þiggja nema annað fé kæmi í móti.
Hrappur mælti: „Hér mun eg stað nema og skal mig hér drepa fyrir augum þér og munt þú þá bíða af hvers manns ámæli.“
Þá sjá þeir ferð jarls og manna hans. Þá tók Þráinn við Hrappi en lét skjóta báti og fluttist út á skipið.
Þráinn mælti: „Nú er þetta fylgsni helst að brjóta botn úr tunnum tveim og skaltu þar fara í.“
Svo var gert að hann fór í tunnurnar og voru bundnar saman síðan og látnar fyrir borð.
Þá kemur jarl með liði sínu til Njálssona og spurði ef Hrappur hefði komið þar. Þeir sögðu að hann kom. Jarl spurði hvert hann færi þaðan. Þeir kváðust eigi reiður hafa á hent.
Jarl mælti: „Sá skyldi mikla sæmd af mér hafa er mér segði til Hrapps.“
Grímur mælti hljótt við Helga: „Fyrir hví skulum við eigi segja? Eg veit eigi nema Þráinn launi okkur engu góðu.“
„Eigi skulum við segja að heldur,“ segir Helgi, „þar er líf hans liggur við.“
Grímur mælti: „Vera kann að jarl snúi á okkur hefndinni því að hann er svo reiður að niður mun nokkur verða að koma.“
„Ekki munum við að því fara,“ segir Helgi, „en þó skulum við nú braut leggja skipinu og í haf þegar gefur.“
Þeir leggja út undir eina ey og bíða þar byrjar.
Jarl gekk að skipamönnum og leitaði við alla þá en allir duldu að né eitt vissu til Hrapps.
Þá mælti jarl: „Nú munum vér ganga til Þráins félaga míns og mun hann selja fram Hrapp ef hann veit nokkuð til.“
Eftir það tóku þeir langskip eitt og fóru út til kaupskipsins. Þráinn kennir ferð jarls og stendur upp og heilsar honum.
Jarl svarar því vel og mælti svo: „Manns þess leitum vér er heitir Hrappur og er íslenskur. Hann hefir gert oss hvetvetna illt. Viljum vér nú þess biðja yður að þér seljið hann fram eða segið til hans.“
Þráinn mælti: „Vissuð þér að eg drap útlaga yðvarn, herra, og hætti þar til lífi mínu og þá eg fyrir það af yður stórsæmdir.“
„Meiri sæmdir skaltu nú hafa,“ segir jarl.
Þráinn hugsaði fyrir sér og þóttist eigi vita hvað jarl mundi mest meta. Þrætir þó nú að Hrappur sé þar og bað jarl leita. Hann hafði lítið við það og gekk á land einn frá öðrum mönnum og var þá reiður mjög svo að engi maður þorði við hann að mæla.
Jarl mælti: „Vísið mér til Njálssona og skal eg nauðga þeim til að þeir segi mér hið sanna.“
Þá var honum sagt að þeir höfðu út látið.
„Ekki má það þá,“ segir jarl, „en vatnkeröld tvö voru þar við skipið Þráins og má þar maður vel hafa fólgist í. Og ef Þráinn hefir fólgið hann þá mun hann þar í vera og munum vér nú fara í annað sinn að finna Þráin.“
Þráinn sér þetta, að jarl ætlar enn út, og mælti: „Svo reiður sem jarl var næstum þá mun hann nú vera hálfu reiðari og liggur nú við líf allra manna þeirra er á skipinu eru.“
Þeir hétu allir að leyna því að hver var um sig mjög hræddur. Þeir tóku sekka nokkura úr búlkanum en létu Hrapp koma þar í staðinn. Fóru nú aðrir sekkar á hann ofan þeir er léttir voru. Nú kemur jarl er þeir höfðu um Hrapp búið. Þráinn kvaddi vel jarl. Jarl tók kveðju hans og ekki skjótt. Sáu þeir að jarl var allmjög reiður.
Jarl mælti til Þráins: „Sel þú fram Hrapp því að eg veit víst að þú hefir fólgið hann.“
„Hvar mun eg hafa fólgið hann, herra?“ segir Þráinn.
„Þér mun það kunnugt,“ segir jarl, „en ef eg skal geta til þá ætla eg að þú hafir áðan fólgið hann í keröldunum.“
„Eigi vildi eg að þér vænduð mig lygi heldur vildi eg að þér leituðuð um skipið.“
Þá fór jarl upp á skipið og leitaði og fann eigi.
„Ber þú mig nú undan?“ segir Þráinn.
„Fjarri fer það,“ segir jarl, „en eigi veit eg hví vér finnum hann eigi. En eg þykist sjá allt í gegnum þá er kem á land en þá sé eg ekki til er eg kem hér.“
Lætur hann þá róa til lands með sig. Hann var svo reiður að ekki mátti við hann mæla. Sveinn son hans var þar með honum.
Hann mælti: „Undarlegt er það að láta óverða menn gjalda reiði sinnar.“
Jarl gekk þá einn í braut frá öðrum mönnum. Síðan gekk hann þegar aftur til þeirra: „Róum vér enn til þeirra.“
Þeir gerðu svo.
„Hvar mun hann fólginn hafa verið?“ segir Sveinn jarlsson.
„Eigi mun það nú skipta,“ segir jarl, „því að hann mun nú í brautu vera þaðan. Sekkar tveir lágu þar hjá búlkanum og mun Hrappur þar hafa komið í staðinn þeirra í búlkann.“
Þráinn tók til orða: „Fram hrinda þeir enn skipinu og munu ætla út hingað til vor. Skulum vér nú taka hann úr búlkanum og koma öðru í staðinn en þó skulu sekkarnir lausir.“
Þeir gerðu svo. Þráinn mælti þá: „Látum vér Hrapp nú í seglið, það er heflað upp við rána.“
Þeir gera svo. Jarl kemur þá til þeirra.
Var hann þá allreiður og mælti: „Viltu nú selja fram manninn, Þráinn? Og er nú verra en fyrr.“
Þráinn svarar: „Fyrir löngu seldi eg hann fram ef hann væri í minni varðveislu eða hvar mun hann verið hafa?“
„Í búlkanum,“ segir jarl.
„Hví leituðuð þér hans eigi þar þá?“ segir Þráinn.
„Eigi kom oss það í hug,“ segir jarl.
Síðan leituðu þeir hans um allt skipið og fundu hann eigi.
„Viljið þér mig nú undan bera?“ sagði Þráinn.
„Víst eigi,“ segir jarl, „því að eg veit að þú hefir fólgið manninn þótt eg finni hann eigi. En heldur vil eg að þú níðist á mér en eg á þér,“ segir jarl.
Fór hann þá til lands.
„Nú þykist eg sjá,“ sagði jarl, „að Þráinn hefir fólgið Hrapp í seglinu.“
Þá rann á byr og sigldu þeir Þráinn til hafs. Hann mælti þá þetta er lengi hefir uppi verið haft síðan:
„Látum geisa Gamminn,
gerrat Þráinn vægja.“
En er jarl spurði orð Þráins þá mælti hann: „Eigi ber hér til óviska mín heldur það samband þeirra er þeim dregur báðum til bana.“
Þráinn var skamma stund í hafi og kom til Íslands og fór heim til bús síns. Hrappur fór með Þráni og var með honum þau misseri en um vorið eftir fékk Þráinn honum bú á Hrappstöðum og bjó hann þar. Hann var þó lengstum að Grjótá. Hann þótti þar öllu spilla. Það mæltu sumir að vingott væri með þeim Hallgerði og hann fífldi hana en sumir mæltu því í móti.
Þráinn fékk skipið Merði órækju frænda sínum. Sá Mörður vó Odd Halldórsson austur í Gautavík í Berufirði.
Allir frændur Þráins héldu hann fyrir höfðingja.