Njála, 119
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 119
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 119
Flosi var á þingi og skipaði alla búð sína. Runólfur skipaði Dalverjabúð en Mörður Rangæingabúð. Hallur af Síðu var lengst kominn austan en nær ekki annarra manna. Hallur af Síðu hafði þó fjölmennt mjög og fór þegar í lið með Flosa og bað hann sætta og friðar. Hallur var vitur maður og góðgjarn. Flosi svaraði öllu vel og tók þó lítið af. Hallur spurði hverjir honum hefðu liðsinni heitið.
Flosi nefndi til Mörð Valgarðsson og kvaðst hafa beðið dóttur hans til handa Starkaði frænda sínum.
Hallur kvað góðan kost í henni en kvað allt illt við Mörð að eiga „og muntu það reyna áður þessu þingi sé lokið.“
Síðan hættu þeir talinu.
Það var einnhvern dag að þeir Njáll og Ásgrímur töluðu lengi hljótt.
Síðan spratt Ásgrímur upp og mælti til Njálssona: „Ganga munum vér og leita oss vina að vér verðum eigi bornir ofliði því að þetta mál mun verða sótt með kappi.“
Ásgrímur gekk þá út og næst Helgi Njálsson, þá Kári Sölmundarson, þá Grímur Njálsson, þá Skarphéðinn, þá Þórhallur, þá Þorgrímur mikli, þá Þorleifur krákur. Þeir gengu til búðar Gissurar hvíta og gengu inn í búðina. Gissur stóð upp í móti þeim og bað þá sitja og drekka.
Ásgrímur svarar: „Eigi veit þannig við og skal þetta ekki á mutur mæla. Hverja liðveislu skal eg þar eiga er þú ert, frændi?“
Gissur mælti: „Það mundi Jórunn ætla að eg mundi eigi undan skerast þér að veita. Skal og svo vera nú og oftar að eitt skal yfir okkur ganga.“
Ásgrímur þakkaði honum og gekk í braut síðan.
Þá spurði Skaphéðinn: „Hvert skulum vér nú ganga?“
Ásgrímur svarar: „Til búðar Ölfusinga.“
Síðan gengu þeir þangað. Ásgrímur spurði hvort Skafti Þóroddsson væri að búð. Honum var sagt að hann var þar. Gengu þeir þá inn í búðina. Skafti sat á pallinum og fagnaði Ásgrími. Hann tók því vel. Skafti bauð Ásgrími að sitja hjá sér.
Ásgrímur kvaðst skamma dvöl eiga mundu „en þó er við þig erindið.“
„Lát heyra það,“ segir Skafti.
„Eg vil biðja þig liðsinnis að þú veitir að málum vorum.“
„Hitt hafði eg ætlað,“ segir Skafti, „að ekki mundi koma vandræði yður í híbýli mín.“
Ásgrímur svarar: „Illa er slíkt mælt að verða mönnum þá síst að liði er mest liggur við.“
„Hver er sá maður,“ segir Skafti, „er fjórir menn ganga fyrri, mikill maður og fölleitur, ógæfusamlegur, harðlegur og tröllslegur?“
Hann svarar: „Skarphéðinn heiti eg,“ segir hann, „og hefir þú séð mig jafnan á þingi en vera mun eg því vitrari en þú að eg þarf eigi að spyrja hvað þú heitir. Þú heitir Skafti Þóroddsson en fyrr kallaðir þú þig Burstakoll þá er þú hafðir drepið Ketil úr Eldu. Gerðir þú þér þá koll og barst tjöru í höfuð þér. Síðan keyptir þú að þrælum að rísta upp jarðarmen og skreiðst þú þar undir um nóttina. Síðan fórstu til Þórólfs Loftssonar á Eyrum og tók hann við þér og bar þig út í mjölsekkjum sínum.“
Eftir það gengu þeir Ásgrímur út.
Skarphéðinn spurði: „Hvert skulum vér nú ganga?“
„Til búðar Snorra goða.“
Síðan gengu þeir til búðar Snorra. Þar var einn maður úti fyrir búðinni. Ásgrímur spurði hvort Snorri væri í búð. Sá sagði að hann væri þar. Ásgrímur gekk inn í búðina og þeir allir. Snorri sat á palli. Ásgrímur gekk fyrir hann og kvaddi hann vel. Snorri tók honum blíðlega og bað hann sitja.
Ásgrímur kvaðst þar skamma dvöl mundu eiga „en við þig er erindið.“
Snorri bað hann segja það.
Ásgrímur mælti: „Eg vildi að þú færir til dóma með mér og veittir mér lið því að þú ert vitur og framkvæmdarmaður mikill.“
„Þungt ganga oss nú málaferlin,“ segir Snorri goði, „og draga sig nú fram mjög margir í móti oss og erum vér því trauðir að taka vandræði annarra í aðra fjórðunga.“
„Vorkunn er það,“ segir Ásgrímur, „því að þú átt oss ekki varlaunað.“
„Veit eg er þú ert góður drengur,“ segir Snorri, „og vil eg því heita þér að eg skal hvergi í móti þér vera og eigi veita lið óvinum þínum.“
Ásgrímur þakkaði honum.
Snorri goði mælti: „Hver er sá maður er fjórir ganga fyrri, fölleitur og skarpleitur og glottir við tönn og hefir öxi reidda um öxl?“
„Héðinn heiti eg,“ segir hann, „en sumir menn kalla mig Skarphéðin öllu nafni eða hvað viltu fleira til mín tala?“
Snorri goði mælti: „Það að mér þykir þú maður harðlegur og mikilfenglegur en þó get eg að þrotin sé þín hin mesta gæfa og skammt get eg eftir þinnar ævi.“
„Vel er það,“ segir Skarphéðinn, „því að þá skuld eiga allir að gjalda. En þó er þér meiri nauðsyn að hefna föður þíns en spá mér slíkar spár.“
„Margir hafa það mælt áður,“ segir Snorri, „og mun eg ekki við slíku reiðast.“
Eftir það gengu þeir út og fengu þar enga liðveislu. Þaðan fóru þeir til búðar Skagfirðinga. Þá búð átti Hafur hinn auðgi. Hann var son Þorkels Eiríkssonar úr Goðdölum, Geirmundarsonar, Hróaldssonar, Eiríkssonar örðumskeggja er felldi Grjótgarð í Sóknardal í Noregi. Móðir Hafurs hét Þórunn og var dóttir Ásbjarnar Myrkárskalla Hross-Bjarnarsonar. Þeir Ásgrímur gengu inn í búðina. Hafur sat í miðri búðinni og talaði við mann. Ásgrímur gekk að honum og heilsaði á hann. Hann tók því vel og bauð honum að sitja.
Ásgrímur mælti: „Hins vildi eg biðja þig að þú veittir mér lið og mágum mínum.“
Hafur svaraði skjótt og kvaðst ekki taka mundu undir vandræði þeirra „en þó vil eg spyrja hver sá er hinn fölleiti er fjórir menn ganga fyrri og svo illilegur sem genginn sé út úr sjávarhömrum.“
Skarphéðinn mælti: „Hirð ekki þú það, mjólki þinn, hver eg er því að eg mun þora þar fram að ganga er þú situr fyrir og mundi eg allt lítt hræðast þótt slíkir sveinar væru á götu minni. Er þér og skyldara að sækja Svanlaugu systur þína er Eydís járnsaxa og þau Steðjakollur tóku í braut úr híbýlum þínum og þorðir þú ekki að að hafa.“
Ásgrímur mælti: „Göngum út. Ekki er hér von liðveislu.“
Síðan gengu þeir til Möðruvellingabúðar og spurðu hvort Guðmundur hinn ríki væri í búðinni en þeim var sagt að hann var þar. Þeir gengu þá inn í búðina. Hásæti var í miðri búðinni og sat þar Guðmundur ríki. Ásgrímur gekk fyrir hann og kvaddi hann. Guðmundur tók honum vel og bauð honum að sitja.
Ásgrímur mælti: „Eigi vil eg sitja en biðja vil eg þig liðsinnis því að þú ert kappsamur og mikill höfðingi.“
Guðmundur mælti: „Ekki skal eg móti þér vera. En ef mér sýnist að veita þér lið þá munum við vel mega tala um það síðar“ og tók á öllu vel.
Ásgrímur þakkaði honum orð sín.
Guðmundur mælti: „Maður er sá einn í liði yðru er eg hefi horft á um hríð og líst mér ógurlegri flestum mönnum þeim er eg hefi séð.“
„Hver er sá?“ segir Ásgrímur.
„Fjórir ganga fyrri en hann,“ segir Guðmundur, „jarpur á hár og föllitaður, mikill vöxtum og ernlegur og svo skjótlegur til karlmennsku að heldur vildi eg hans fylgi hafa en tíu annarra. Og er þó maðurinn ógæfusamlegur.“
Skarphéðinn mælti: „Veit eg að þú þykist til mín mæla og er eigi einn veg farið ógæfu okkarri. Eg hefi ámæli af vígi Höskulds Hvítanesgoða sem vorkunn er en þeir gerðu illmæli um þig Þorkell hákur og Þórir Helgason og hefir þú af því hina mestu skapraun.“
Gengu þeir þá út. Skarphéðinn mælti þá: „Hvert skulum vér nú ganga?“
„Til Ljósvetningabúðar,“ segir Ásgrímur.
Þá búð hafði tjaldað Þorkell hákur. Hann var son Þorgeirs goða Tjörvasonar, Þorkelssonar langs, en móðir Þorgeirs var Þórunn Þorsteinsdóttir, Sigmundarsonar, Gnúpa-Bárðarsonar. Móðir Þorkels háks hét Guðríður. Hún var dóttir Þorkels hins svarta úr Hleiðrargarði, Þórissonar snepils, Brimilssonar, Örnólfssonar, Björnólfssonar, Grímssonar loðinkinna, Ketils hængs, Hallbjarnarsonar hálftrölls. Þorkell hákur hafði verið utan og framið sig í öðrum löndum. Hann hafði drepið spellvirkja austur á Jamtaskógi. Síðan fór hann austur í Svíþjóð og fór til lags með Sörkvi karli og herjuðu þeir í Austurveg. En fyrir austan Bálagarðssíðu átti Þorkell að sækja þeim vatn eitt kveld. Þá mætti hann finngálkni og varðist því lengi en svo lauk með þeim að hann drap finngálknið. Þaðan fór hann austur í Aðalsýslu. Þar vó hann að flugdreka. Síðan fór hann aftur til Svíþjóðar og þaðan til Noregs og síðan út til Íslands. Og lét hann gera þrekvirki þessi yfir lokhvílu sinni og á stóli fyrir hásæti sínu. Hann barðist og á Ljósvetningaleið við Guðmund hinn ríka með bræðrum sínum og höfðu Ljósvetningar sigur. Gerðu þeir síðan illmæli um Guðmund, Þórir Helgason og Þorkell hákur. Þorkell mælti svo að sá væri engi á Íslandi að hann mundi eigi ganga til einvígis við eða á hæl hopa. Var hann fyrir því kallaður Þorkell hákur að hann eirði engu hvorki í orðum né verkum við hvern sem hann átti.