Njála, 139

From WikiSaga
Revision as of 08:24, 25 June 2014 by Olga (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 139

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 139

Nú talar Ásgrímur Elliða-Grímsson við Gissur hvíta og Kára Sölmundarson, Hjalta Skeggjason, Mörð Valgarðsson, Þorgeir skorargeir: „Ekki þarf þetta í hljóðmæli að færa því að þeir einir menn eru hér að hver veit annars trúnað. Vil eg nú spyrja yður ef þér vitið nokkuð til ráðagerðar þeirra Flosa. Sýnist mér sem vér munum verða að gera ráð vort í annan stað.“

Gissur hvíti svarar: „Snorri goði sendi mann til mín og lét segja mér að Flosi hafði þegið mikið lið af Norðlendingum en Eyjólfur Bölverksson frændi hans hafði þegið gullhring af nokkurum og fór leynilega með. Og kvað Snorri það ætlan sína að Eyjólfur Bölverksson mundi ætlaður vera til að færa fram lögvarnir í málinu og mundi hringurinn til þess gefinn vera.“

Þeir urðu allir á það sáttir að það mundi svo vera.

Gissur mælti þá til þeirra: „Nú hefir Mörður Valgarðsson mágur minn tekið við málinu því er öllum mun torveldlegast þykja, að sækja Flosa. Vil eg nú að þér skiptið öðrum sóknum með yður því að nú mun brátt verða að lýsa sökum að Lögbergi. Vér munum og þurfa að biðja oss liðs.“

Ásgrímur sagði svo vera skyldu „en biðja viljum vér þig að þú sért í liðsbóninni með oss.“

Gissur kvaðst það mundu til leggja.

Síðan valdi Gissur með sér alla hina vitrustu menn af liði þeirra. Þar var Hjalti Skeggjason og Ásgrímur og Kári, Þorgeir skorargeir.

Þá mælti Gissur hvíti: „Nú munum vér fyrst ganga til búðar Skafta Þóroddssonar.“

Þeir gera nú svo. Gissur hvíti gekk fyrstur, þá Hjalti, þá Kári, þá Ásgrímur, þá Þorgeir skorargeir, þá bræður hans. Þeir gengu inn í búðina. Skafti sat á palli. Og er hann sá Gissur hvíta stóð hann upp í móti honum og fagnaði honum vel og öllum þeim og bað Gissur sitja hjá sér. Hann gerir nú svo.

Gissur mælti þá til Ásgríms: „Nú skaltu vekja til um liðveisluna við Skafta fyrst en eg mun leggja til slíkt sem sýnist.“

Ásgrímur mælti: „Til þess erum vér hingað komnir, Skafti, að sækja að þér traust og liðsinni.“

Skafti mælti: „Torsóttur þótti eg vera næstum er eg vildi ekki taka undir vandræði yður.“

Gissur mælti: „Nú er annan veg til farið. Nú er að mæla eftir Njál bónda og Bergþóru húsfreyju er saklaus voru inni brennd og eftir þrjá sonu Njáls og marga aðra menn. Og muntu aldrei það vilja gera að verða mönnum eigi að liði og veita frændum þínum og mágum.“

Skafti svarar: „Það var mér þá í hug er Skarphéðinn mælti við mig að eg hefði sjálfur borið tjöru í höfuð mér og skorið á mig jarðarmen og hann kvað mig orðið hafa svo hræddan að Þórólfur Loftsson bæri mig á skip út í mjölkýlum sínum og flutti mig svo til Íslands, að eg mundi eigi eftir hann mæla.“

Gissur hvíti mælti: „Ekki er nú á slíkt að minnast því að sá er nú dauður er þetta mælti og muntu vilja veita mér þótt þú viljir eigi gera fyrir sakir annarra manna.“

Skafti svarar: „Þetta mál kemur ekki til þín nema þú viljir vasast í með þeim.“

Gissur reiddist þá mjög og mælti: „Ólíkur ertu þínum föður. Þótt hann þætti nokkuð blandinn varð hann mönnum þó jafnan að liði er menn þurftu hans mest.“

Skafti mælti: „Vér erum óskaplíkir. Þið þykist hafa staðið í stórræðum. Þú, Gissur hvíti, þá er þú sóttir Gunnar að Hlíðarenda en Ásgrímur af því er hann drap Gauk fóstbróður sinn.“

Ásgrímur svarar: „Fár bregður hinu betra ef hann veit hið verra. En það munu margir mæla að eigi dræpi eg Gauk fyrr en mér væri nauður á. Er þér það nokkuð vorkunnarlaust að þú bregðir oss brigslum. Mundi eg það vilja um það er þessu þingi er lokið að þú fengir af þessum málum hina mestu óvirðing og bætti þér engi þá skömm.“

Þeir Gissur stóðu þá upp allir og gengu út og svo til búðar Snorra goða. Snorri sat á palli í búðinni. Þeir gengu inn í búðina. Hann kenndi þegar mennina og stóð upp í móti þeim og bað þá alla vel komna og gaf þeim rúm að sitja hjá sér. Síðan spurðust þeir almæltra tíðinda.

Ásgrímur mælti til Snorra: „Til þess erum við Gissur frændi minn komnir hingað að biðja þig liðveislu.“

Snorri goði svarar: „Það mælir þú þar er þér heldur vorkunn til, að mæla eftir mága þína slíka sem þú áttir. Þágum vér mörg ráð þægileg af Njáli þótt nú muni það fáir. Enda veit eg eigi hverrar liðveislu þér þykist mest þurfa.“

Ásgrímur svarar: „Mest þurfum vér ef vér berjumst hér á þinginu.“

Snorri mælti: „Svo er og að mikið liggur yður þá við. Er það og líkast að þér sækið með kappi enda munu þeir svo verja. Og munu hvorigir gera öðrum rétt. Munuð þér þá eigi þola þeim og ráða á þá. Er þá og sá einn til því að þeir vilja þá gjalda yður skömm fyrir mannskaða en svívirðing fyrir frændalát.“

Fannst það á að hann hvatti þá fram í öllu.

Gissur hvíti mælti þá: „Vel mælir þú, Snorri, og fer þér þá best jafnan og höfðinglegast er mest liggur við.“

Ásgrímur mælti: „Það vil eg vita hvað þú vilt þá veita oss ef svo fer sem þú segir.“

Snorri mælti: „Gera skal eg það vináttubragð þér er yður sæmd skal öll við liggja. En ekki mun eg til dóma ganga. En ef þér verðið forviða þá ráðið þér því aðeins á þá nema þér séuð allir sem öruggastir því að miklir kappar eru til móts. En ef þér verðið forviða munuð þér láta slá hingað til móts við oss því að eg mun þá hafa fylkt liði mínu hér fyrir og vera búinn að veita yður. En ef hinn veg fer að þeir hrökkvi fyrir þá er það ætlan mín að þeir muni ætla að renna til vígis í Almannagjá en ef þeir komast þangað þá fáið þér þá aldrei sótta. Mun eg það á hendur takast að fylkja þar fyrir liði mínu og verja þeim vígið en ekki munum vér eftir ganga hvort sem þeir hörfa með ánni norður eða suður. Og þá er þér hafið vegið í lið þeirra svo nokkuru mjög að mér þyki þér mega halda upp fébótum svo að þér haldið goðorðum yðrum og héraðsvistum mun eg til hlaupa með menn mína alla og skilja yður. Skuluð þér þá gera það fyrir mín orð að hætta bardaganum ef eg geri þetta sem nú hefi eg heitið.“

Gissur þakkaði honum vel og kvað þetta í allra þeirra nauðsyn mælt vera. Gengu þeir þá út allir.

Gissur mælti: „Hvert skulum vér nú ganga?“

„Til Norðlendingabúða,“ sagði Ásgrímur.



Tilvísanir

Links