Njála, 126

From WikiSaga
Revision as of 06:31, 4 August 2014 by Olga (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 126

.


References


Kafli 126

Flosi bjó sig austan þá er tveir mánuðir voru til vetrar og stefndi til sín öllum sínum mönnum þeim sem honum höfðu liði og ferð heitið. Hver þeirra hafði tvo hesta og góð vopn. Þeir komu allir til Svínafells og voru þar um nóttina. Flosi lét snemma veita sér tíðir drottinsdaginn en síðan gekk hann til borðs. Hann sagði fyrir öllum heimamönnum sínum hvað hvergi skyldi starfa meðan hann væri í brautu. Síðan gekk hann til hesta sinna.

Þeir Flosi riðu fyrst vestur á sand. Flosi bað þá fyrst ekki allákaft ríða og kvað þó hinn veg lúka mundu. Hann bað alla bíða ef nokkur þyrfti að dveljast. Þeir riðu vestur til Skógahverfis og komu í Kirkjubæ. Flosi bað alla menn koma til kirkju og biðjast fyrir. Menn gerðu svo.

Síðan stigu þeir á hesta sína og riðu á fjall og svo til Fiskivatna og riðu nokkuru fyrir vestan vötnin og stefndu svo vestur á sandinn. Létu þeir þá Eyjafjallajökul á vinstri hönd sér og svo ofan í Goðaland og svo til Markarfljóts og komu um nónskeið annan dag vikunnar á Þríhyrningshálsa og biðu til miðs aftans.

Komu þar þá allir nema Ingjaldur frá Keldum. Sigfússynir töldu á hann mjög en Flosi bað þá ekki ámæla Ingjaldi meðan hann væri eigi hjá „en þó skulum vér gjalda honum síðar.“



Tilvísanir

Links