Njála, 003
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 3
XXX.
ENSKA
References
Kafli 3
Haraldur gráfeldur réð fyrir Noregi. Hann var son Eiríks blóðöxar Haraldssonar hárfagra. Gunnhildur hét móðir hans og var dóttir Össurar tota. Þau höfðu aðsetu austur í Konungahellu.
Nú spurðist skipkoman austur þangað til Víkurinnar. Og þegar er þetta fréttir Gunnhildur spurði hún eftir hvað íslenskra manna væri á skipi. Henni var sagt að Hrútur hét maður og var bróðurson Össurar.
Gunnhildur mælti: „Eg veit gjörla – hann mun heimta erfð sína en sá maður hefir að varðveita er Sóti heitir.“
Síðan kallar hún á skósvein sinn er Ögmundur hét: „Eg vil senda þig til Víkurinnar á fund Össurar og Hrúts og seg að eg býð þeim báðum til mín í vetur og seg að eg vil vera vin þeirra. Og ef Hrútur fer mínum ráðum fram þá skal eg sjá um fémál hans og um það annað er hann tekur að henda. Eg skal og koma honum fram við konunginn.“
Síðan fór hann og kom á fund þeirra. En þegar þeir vissu að hann var sveinn Gunnhildar tóku þeir vel við honum. Hann sagði erindi sín þeim af hljóði.
Síðan töluðu þeir leynilega ráðagerð sína og ræddi Össur við Hrút: „Svo líst mér, frændi, sem nú munum við hafa gert ráð okkað því að eg kann skapi Gunnhildar. Jafnskjótt sem við viljum eigi fara til hennar mun hún reka okkur úr landi en taka fé okkað allt með ráni. En ef við förum til hennar þá mun hún gera okkur slíka sæmd sem hún hefir heitið.“
Ögmundur fór heim og er hann fann Gunnhildi sagði hann erindislok sín og það að þeir mundu koma.
Gunnhildur mælti: „Slíks var von því að Hrútur er vitur maður sagður og vel að sér. En nú hafðu njósn af nær þeir koma til bæjarins og seg mér.“
Þeir Hrútur fóru austur til Konungahellu. En er þeir komu þar gengu í móti þeim frændur og vinir og fögnuðu þeim vel. Þeir spurðu hvort konungur var í bænum. Þeim var sagt að hann var þar. Síðan mættu þeir Ögmundi.
Hann sagði þeim kveðju Gunnhildar og það með að hún mundi ekki bjóða þeim fyrr en þeir hefðu fundið konung fyrir orðs sakir „„að svo þyki sem eg grípi gulli á við þá. En eg mun til leggja slíkt sem mér sýnist og veri Hrútur djarfmæltur við konung og biðji hann hirðvistar.“ Hér eru og tignarklæði er hún sendi þér, Hrútur. Skalt þú í þeim ganga fyrir konunginn.“
Síðan fór hann aftur.
Annan dag eftir mælti Hrútur: „Göngum fyrir konung.“
„Það má vel,“ sagði Össur.
Þeir gengu tólf saman og voru þeir allir frændur þeirra og vinir. Þeir komu í höllina er konungur sat yfir drykkju. Gekk Hrútur fyrst og kvaddi konung. Konungur hugði vandlega að manninum er vel var búinn og spurði hann að nafni. Hann nefnir sig.
„Ertu íslenskur maður?“ sagði konungur.
Hann sagði að svo var.
„Hvað hvatti þig hingað á vorn fund?“
„Að sjá tign yðra, herra, og það annað að eg á erfðamál mikið hér í landi og mun eg yðvar þurfa við að njóta ef eg fæ rétt af.“
Konungur sagði: „Hverjum manni hefi eg heitið lögum hér í landi eða hver eru fleiri erindi þín á vorn fund?“
„Herra,“ sagði Hrútur, „eg vil biðja yður hirðvistar og gerast yðvar maður.“
Konungur þagnar við.
Gunnhildur mælti: „Svo líst mér sem sjá maður bjóði yður hina mestu sæmd því að mér líst svo ef slíkir væru margir innan hirðar sem þá væri vel skipað.“
„Er hann vitur maður?“ sagði konungur.
„Bæði er hann vitur og framgjarn,“ segir hún.
„Það þykir mér sem móðir mín vilji að þú fáir nafnbót slíka sem þú mælir til. En fyrir tignar sakir vorrar og landssiðar þá kom þú til mín á hálfs mánaðar fresti. Skalt þú þá gerast hirðmaður minn en móðir mín haldi þér kost þar til og kom þá á minn fund.“
Gunnhildur sagði: „Ögmundur, fylgdu þeim til húsa minna og ger þeim þar góða veislu.“
Ögmundur gekk út og þeir með honum og fylgdi hann þeim í eina steinhöll. Þar var tjaldað hinum fegursta borða. Þar var og hásæti Gunnhildar.
Þá mælti Ögmundur: „Nú mun það sannast er eg sagði þér frá Gunnhildi. Hér er hásæti hennar og skalt þú í setjast og halda máttu þessu sæti þótt hún komi sjálf til.“
Síðan veitti hann þeim veislu. Þeir höfðu skamma hríð setið áður þar kom Gunnhildur. Hrútur vildi upp spretta og fagna henni.
„Sit þú,“ segir hún, „og skalt þú jafnan þessu sæti halda þá er þú ert í boði mínu.“
Síðan settist hún hjá Hrúti og drukku þau. Og um kveldið mælti hún: „Þú skalt liggja í lofti hjá mér í nótt og við tvö saman.“
„Þér skuluð slíku ráða,“ sagði hann.
Síðan gengu þau til svefns og læsti hún þegar loftinu innan og sváfu þau þar um nóttina. En um morguninn fóru þau til drykkju. Og allan hálfan mánuð lágu þau þar tvö ein í loftinu.
Þá mælti Gunnhildur við þá menn er þar voru: „Þér skuluð engu fyrir týna nema lífinu ef þér segið nokkurum frá um hagi vora.“
Hrútur gaf henni hundrað álna hafnarvoðar og tólf vararfeldi. Gunnhildur þakkaði honum gjöfina. Hrútur gekk í braut og minntist við hana áður og þakkaði henni. Hún bað hann vel fara.
Og um daginn eftir gekk hann fyrir konung við þrjá tigu manna og kvaddi konung.
Konungur mælti: „Nú munt þú vilja að eg efni við þig, Hrútur, það sem eg hét þér.“
Síðan gjörðist hann hirðmaður.
Hrútur mælti: „Hvar skal eg sitja?“
„Móðir mín skal því ráða,“ sagði konungur.
Síðan fékk hún honum hið sæmilegsta sæti og var hann með konungi um veturinn vel metinn.