Njála, 006

From WikiSaga
Revision as of 09:03, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter X== '''XXX.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 1== Hrútur var með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. En er voraðist gerist h...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter X

XXX.

ENSKA

References


Kafli 1

Hrútur var með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. En er voraðist gerist hann hljóður mjög.

Gunnhildur finnur það og mælti til hans er þau voru tvö saman: „Ert þú hugsjúkur?“

Hrútur sagði: „Það er sem mælt er, að illt er þeim er á ólandi er alinn.“

„Vilt þú til Íslands?“ segir hún.

„Það vil eg,“ sagði hann.

„Átt þú konu nokkura út þar?“ segir hún.

„Eigi er það,“ sagði hann.

„Það hefi eg þó fyrir satt,“ segir hún.

Síðan hættu þau málinu.

Hrútur gekk fyrir konung og kvaddi hann.

Konungur mælti: „Hvað vilt þú nú, Hrútur?“

„Eg vil beiðast, herra, að þér gefið mér orlof að fara til Íslands.“

„Mun þín sæmd þar meiri en hér?“ segir konungur.

„Eigi mun það,“ sagði Hrútur, „en það verður hver að vinna er ætlað er.“

„Við ramman mun reip að draga,“ sagði Gunnhildur, „og leyfið þér honum að fara sem honum gegnir best.“

Þá var ært illa í landi en þó fékk Gunnhildur honum mjöl sem hann vildi hafa.

Nú býst hann út til Íslands og Össur með honum. Og er þeir voru albúnir gekk Hrútur að finna konung og Gunnhildi.

Hún leiddi hann á einmæli og mælti til hans: „Hér er gullhringur er eg vil gefa þér“ og spennti á hönd honum.

„Marga gjöf góða hefi eg af þér þegið,“ segir Hrútur.

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: „Ef eg á svo mikið vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram koma við konu þá er þú ætlar þér á Íslandi en fremja skalt þú mega vilja þinn við aðrar konur. Og hefir nú hvortgi okkað vel. Þú trúðir mér eigi til málsins.“

Hrútur hló að og gekk í braut.

Síðan gekk hann til móts við konung og þakkar honum. Konungur mælti vel til hans og bað hann vel fara.

Hrútur gekk þegar til skips og gaf honum vel byri og tóku Borgarfjörð. En þegar skip var landfast reið Hrútur vestur heim en Össur lét ryðja skipið. Hrútur reið á Höskuldsstaði. Höskuldur tók við honum vel og segir Hrútur honum allt um ferðir sínar. Síðan sendu þeir mann austur til Marðar gígju að búast við boði. En þeir riðu síðan bræður til skips og sagði Höskuldur Hrúti fjárhagi sína og hafði á græðst meðan hann var í brautu.

Hrútur mælti: „Minni munu verða launin er vert væri en fá vil eg þér mjöl svo sem þú þarft í bú þitt í vetur.“

Síðan réðu þeir skipinu til hlunns og bjuggu um en færðu allan varninginn vestur til Dala.

Var Hrútur heima á Hrútsstöðum til sex vikna.

Þá bjuggust þeir bræður og Össur með þeim að ríða til brúðlaups Hrúts og riðu við sex tigu manna. Þeir riðu þar til er þeir koma austur á Rangárvöllu. Þar var fjöldi fyrirboðsmanna. Skipuðust menn þar í sæti en konur skipuðu pall og var brúðurin döpur heldur. Drekka þeir veisluna og fer hún vel fram. Mörður greiðir fram heimanfylgju dóttur sinnar og ríður hún vestur með þeim. Þau riðu þar til er þau komu heim. Hrútur fékk henni ráð í hendur fyrir innan stokk og líkaði það öllum vel. En fátt var með þeim Hrúti um samfarar og fer svo fram allt til vors.

Og þá er voraði átti Hrútur fé í Vestfjörðum að heimta fyrir varning sinn. En áður hann fór talar kona hans við hann: „Hvort ætlar þú aftur að koma áður menn ríða til þings?“

„Hvað er að því?“ segir Hrútur.

„Eg vil ríða til þings,“ segir hún, „og finna föður minn.“

„Svo skal þá vera,“ sagði hann, „og mun eg ríða til þings.“

„Vel er það og,“ segir hún.

Síðan reið hann heiman og vestur í fjörðu og byggði allt féið og reið heim síðan.

Og er hann kom vestan þá býr hann sig til alþingis og lét ríða með sér alla nábúa sína. Höskuldur reið og, bróðir hans.

Hrútur mælti við konu sína: „Ef þér er jafnmikill hugur á að fara til þings sem þú lést þá bú þú þig og ríð til þings með mér.“

Hún bjó sig skjótt og síðan ríða þau á þing.

Unnur gekk til búðar föður síns. Hann fagnaði henni vel en henni var skapþungt nokkuð.

Og er hann fann það mælti hann til hennar: „Séð hefi eg þig með betra bragði eða hvað býr þér í skapi?“

Hún tók að gráta og svaraði engu.

Þá mælti hann við hana: „Til hvers reiðst þú til þings ef þú vilt eigi segja mér trúnað þinn eða þykir þér eigi gott vestur þar?“

Hún svaraði: „Gefa mundi eg til alla eigu mína að eg hefði þar aldrei komið.“

Mörður mælti: „Þessa mun eg skjótt vís verða.“

Þá sendi hann mann eftir þeim Höskuldi og Hrúti. Þeir fóru þegar. Og er þeir komu á fund Marðar stóð hann upp í móti og fagnaði þeim vel og bað þá sitja. Töluðu þeir lengi og fór tal þeirra vel.

Þá mælti Mörður til Höskulds: „Hví þykir dóttur minni svo illt vestur þar?“

Hrútur mælti: „Segi hún til ef hún hefir sakagiftir nokkurar við mig.“

En þær urðu engar upp bornar við Hrút. Þá lét Hrútur eftir spyrja nábúa sína og heimamenn hversu hann gerði til hennar. Þeir báru honum gott vitni og sögðu hana eina ráða því sem hún vildi.

Mörður mælti: „Heim skalt þú fara og una vel við ráð þitt því að honum ganga öll vitni betur en þér.“

Síðan reið Hrútur heim af þingi og kona hans með honum og var nú vel með þeim um sumarið. En þá er voraði þá dró til vanda með þeim og var þess verr er meir leið á vorið.

Hrútur átti ferð vestur í fjörðu og lýsti því að hann mundi eigi til alþingis ríða. Unnur kona hans talaði fátt um. Hrútur fór í fjörðu vestur.


Tilvísanir

Links