Njála, 013
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 13
XXX.
ENSKA
References
Kafli 13
Bræður þrír eru nefndir til sögunnar. Hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriðji Glúmur. Þeir voru synir Ólafs halta og voru virðingamenn miklir og vel auðgir að fé. Þórarinn átti það kenningarnafn að hann var kallaður Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eftir Hrafn Hængsson. Hann var stórvitur maður. Hann bjó að Varmalæk og áttu þeir Glúmur bú saman. Glúmur hafði verið lengi í förum. Hann var mikill maður og sterkur og fríður sýnum. Ragi var vígamaður mikill, bróðir þeirra. Þeir bræður áttu suður Engey og Laugarnes.
Þeir bræður töluðu þá, Glúmur og Þórarinn, og spurði Þórarinn Glúm hvort hann ætlaði utan sem hann var vanur.
Hann svaraði: „Hitt hafði eg heldur nú ætlað að hætta kaupferðum.“
„Hvað er þér þá í skapi? Vilt þú biðja þér konu?“
„Það vil eg,“ sagði hann, „ef eg gæti vel fyrir mér séð.“
Þá taldi Þórarinn upp konur þær sem voru í Borgarfirði ógiftar og spurði ef hann vildi „nokkura þessa eiga og mun eg ríða til með þér.“
Hann svaraði: „Öngva vil eg þessa eiga.“
„Nefndu þá að því er þú vilt eiga,“ segir Þórarinn.
Glúmur svaraði: „Ef þú vilt það vita þá heitir hún Hallgerður og er dóttir Höskulds í Dölum vestur.“
„Eigi er nú það sem mælt er að þú látir þér annars víti að varnaði og var hún gift manni og réð hún þeim bana,“ sagði Þórarinn.
Glúmur mælti: „Má að hana hendi eigi slík ógifta í annað sinn. Og veit eg víst að hún ræður eigi mér bana. En ef þú vilt mér nokkura sæmd veita þá ríð þú til með mér að biðja hennar.“
Þórarinn mælti: „Ekki mun mega við gera. Það mun verða fram að koma sem ætlað er.“
Oft kom Glúmur að um þetta mál við Þórarin en hann fór lengi undan. En þar kom um síðir að þeir söfnuðu að sér mönnum og riðu tuttugu saman vestur til Dala og komu á Höskuldsstaði og tók Höskuldur við þeim vel og voru þeir þar um nóttina. En snemma um morguninn sendir Höskuldur eftir Hrúti og kom hann þangað og var Höskuldur úti er hann reið í tún. Höskuldur segir Hrúti hvað þar var komið manna.
„Hvað munu þeir vilja?“ sagði Hrútur.
„Engi hafa þeir erindi enn upp borið fyrir mig,“ sagði Höskuldur.
„Við þig munu þó vera erindin,“ segir Hrútur. „Þeir munu biðja Hallgerðar dóttur þinnar eða hversu munt þú svara?“
„Hvað þykir þér ráð?“ sagði Höskuldur.
„Vel skalt þú svara og segja þó kost og löst á konunni,“ segir Hrútur.
En í þessu tali þeirra bræðra ganga þeir út, gestirnir. Höskuldur fagnar þeim vel. Hrútur kvaddi og Þórarin og þá báða bræður.
Síðan gengu þeir allir samt á tal og mælti Þórarinn: „Eg er kominn hingað með Glúmi bróður mínum þess erindis að biðja Hallgerðar dóttur þinnar, Höskuldur, til handa Glúmi bróður mínum. Skalt þú það vita að hann er vel mannaður.“
„Veit eg það,“ sagði Höskuldur, „að þið eruð mikils háttar menn báðir. En eg vil og segja þér í móti að eg réð ráði hennar fyrri og varð oss það að mikilli ógæfu.“
Þórarinn svaraði: „Ekki munum vér það láta fyrir kaupum standa því að eigi skal einn eiður alla verða. Og má þetta verða þótt hitt yrði illa enda spillti Þjóstólfur þar mest um.“
Þá mælti Hrútur: „Gefa mundi eg yður til ráð ef þér viljið eigi þetta láta fyrir ráðum standa er áður hefir orðið um hagi Hallgerðar, að Þjóstólfur fari ekki suður með henni þótt ráðin takist og veri þar aldrei þrem nóttum lengur, nema Glúmur lofi, en falli óheilagur fyrir Glúmi ef hann er lengur, en heimilt á Glúmur að lofa það, en ekki er það mitt ráð. Skal nú og eigi svo fram fara sem fyrr að Hallgerður sé leynd. Skal hún nú vita allan þenna kaupmála og sjá Glúm og ráða sjálf hvort hún vill eiga hann eða eigi og megi hún eigi öðrum kenna þótt eigi verði vel. Skal þetta vélalaust vera.“
Þórarinn mælti: „Nú er jafnan að það mun best gegna að þín ráð séu höfð.“
Þá var sent eftir Hallgerði og kom hún þangað og tvær konur með henni. Hún hafði yfir sér vefjarmöttul blán og var undir í skarlatskyrtli og silfurbelti um sig en hárið tók ofan á bringuna tveim megin og drap hún undir belti sér. Hún settist niður í milli þeirra Hrúts og föður síns. Hún kvaddi þá alla góðum orðum og mælti vel og skörulega og spurði tíðinda. Síðan hætti hún að tala.
Glúmur mælti: „Um kaup vor föður þíns höfum við Þórarinn bróðir minn talað nokkuð að eg mundi fá þín, Hallgerður, ef það er þinn vilji sem þeirra. Munt þú nú segja ef þú ert skörungur hvort það er nokkuð nær þínu skapi. En ef þér er nokkuð um hug á kaupum við oss þá viljum vér ekki um tala.“
Hallgerður mælti: „Veit eg að þið eruð mikils háttar menn, bræður, og veit eg að eg mun nú miklu betur gefin en fyrr. En vita vil eg hvað þér hafið um talað eða hve mjög þér hafið fram mælt málinu. En svo líst mér á þig að eg mun þér vel unnandi verða ef við komum skapi saman.“
Glúmur sagði henni sjálfur allan kaupmála og veik hvergi af og spurði þá Höskuld og Hrút hvort hann hermdi rétt. Höskuldur sagði svo vera.
Hallgerður mælti þá: „Svo vel sem þér hefir farið þetta mál til mín, faðir minn, og Hrúti að eg vil að ykkru ráði gera og skal það í kaupmála vera sem þið hafið stofnað.“
Þá mælti Hrútur: „Það þykir mér ráð að við Höskuldur nefnum votta en Hallgerður festi sig sjálf ef lögmanni þykir það rétt.“
„Rétt er það,“ sagði Þórarinn.
Síðan voru virð fé Hallgerðar og skyldi Glúmur leggja í móti jafnmikið og skyldi vera helmingarfélag með þeim. Síðan fastnaði Glúmur sér Hallgerði og riðu þeir suður heim en Höskuldur skyldi hafa boð inni. Er nú kyrrt þar til er menn ríða til boðs.