Njála, 066
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 66
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 66
En er þeir koma á þing ganga þeir í lið með Gissuri hvíta og Geir goða. Gunnar og Sigfússynir og Njálssynir gengu allir í einum flokki og fóru svo snúðigt að menn urðu að gæta sín er fyrir urðu að eigi féllu. Og var ekki jafntíðrætt um allt þingið sem um málaferli þessi hin miklu.
Gunnar gekk til móts við mága sína og fögnuðu þeir Ólafur honum vel. Þeir spurðu Gunnar um fundinn en hann sagði þeim frá gerla og bar öllum vel og sagði þeim hvað hann hafði síðan að gert.
Ólafur mælti: „Mikils er vert hversu fast Njáll stendur þér um alla ráðagerð.“
Gunnar kvaðst aldrei það mundu launað geta en beiddi þá liðveislu. En þeir sögðu að það væri skylt.
Fara nú mál hvortveggja í dóm. Flytja hvorir sitt mál. Mörður spurði hví sá maður skyldi hafa mál fram er áður hafði til óhelgi unnið við Þorgeir sem Gunnar.
Njáll svaraði: „Varstu á Þingskálaþingi of haustið?“
„Var eg víst,“ segir Mörður.
„Þá friðhelgaði eg Gunnar,“ segir Njáll, „til allra löglegra mála.“
„Rétt er þetta,“ segir Mörður, „en hví sætti það er Gunnar lýsti vígi Hjartar á hendi Kol þar sem Austmaðurinn vó hann?“
„Rétt var það,“ segir Njáll, „þar sem hann kaus hann til veganda með vottum.“
„Rétt mun þetta víst,“ segir Mörður, „en fyrir hvað stefndi Gunnar þeim öllum til óhelgi?“
„Eigi þarftu þessa að spyrja,“ segir Njáll, „þar sem þeir fóru til áverka og manndrápa.“
„Eigi kom það fram við Gunnar,“ segir Mörður.
Njáll mælti: „Bræður Gunnars voru þeir Kolskeggur og Hjörtur og hafði annar bana en annar sár á sér.“
„Lög hafið þér að mæla,“ segir Mörður, „þótt hart sé undir að búa.“
Þá gekk fram Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal og mælti: „Ekki hefi eg hlutast til málaferla yðvarra en nú vil eg vita hvað þú vilt gera fyrir mín orð, Gunnar, og vináttu.“
„Hvers beiðist þú,“ segir Gunnar.
„Þess,“ segir hann, „að þér leggið málin öll til jafnaðardóms og dæmi góðir menn.“
Gunnar mælti: „Þá skalt þú aldrei vera í móti mér við hverja sem eg á um.“
„Því vil eg heita,“ segir hann.
Eftir það átti hann hlut að við mótstöðumenn Gunnars og kom því við að þeir sættust allir og eftir það veittu hvorir öðrum tryggðir. En fyrir áverka Þorgeirs kom legorðssökin en skógarhögg fyrir áverka Starkaðar. En bræður Þorgeirs voru bættir hálfum bótum en hálfar féllu niður fyrir tilför við Gunnar en jafnt skyldi vera vígið Egils og sökin Tyrfings. Fyrir víg Hjartar skyldi koma víg Kols og Austmannsins. Þá voru aðrir bættir hálfum bótum. Njáll var í gerð þessi og Ásgrímur Elliða-Grímsson og Hjalti Skeggjason. Njáll átti fé mikið undir Starkaði og í Sandgili og gaf hann það allt Gunnari til bóta þessa. Svo átti Gunnar marga vini á þingi að hann bætti þá upp öll vígin þegar en gaf gjafir mörgum höfðingjum þeim er honum höfðu lið veitt og hafði hina mestu sæmd af málinu. Og urðu allir á það sáttir að engi væri hans jafningi í Sunnlendingafjórðungi.
Ríður Gunnar heim af þingi og situr um kyrrt. En þó öfunduðu mótstöðumenn hans mjög hans sæmd.