Njála, 082
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 82
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 82
Nú er þar til máls að taka að Þráinn Sigfússon kom til Noregs. Þeir komu norður við Hálogaland og til Hlaða. En þegar Hákon jarl spurði það sendi hann menn til þeirra og vildi vita hvað manna væri á skipi. Þeir komu aftur og sögðu honum hverjir voru. Jarlinn sendi þá eftir Þráni Sigfússyni og kom hann á hans fund. Jarl spurði hverrar ættar hann væri. Hann segir að hann væri skyldur mjög Gunnari að Hlíðarenda.
Jarl mælti: „Njóta skaltu þess því að séð hefi eg marga íslenska menn og engan hans nóta.“
Þráinn mælti: „Herra, viljið þér að eg sé með yður í vetur?“
Jarl tók við honum. Var Þráinn þar um veturinn og virðist vel.
Kolur hét maður. Hann var víkingur mikill. Hann var son Ásmundar eskisíðu austan úr Smálöndum. Hann lá í Gautelfi austur og hafði fimm skip og lið mikið. Þaðan hélt Kolur úr Elfinni til Noregs og gekk upp á Foldinni og kom á óvart Hallvarði sóta og fundu hann í lofti einu. Hann varðist þaðan vel þar til er þeir báru eld að. Þá gafst hann upp en þeir drápu hann og tóku þar fé mikið og héldu þaðan til Ljóðhúsa.
Þessi tíðindi spurði Hákon jarl og lét dæma Kol útlagan um allt ríki sitt og lagði fé til höfuðs honum.
Einhverju sinni var það að jarl tók svo til orða: „Of fjarri er oss nú Gunnar að Hlíðarenda. Hann mundi drepa útlaga minn ef hann væri hér en nú munu Íslendingar drepa hann og er það illa er hann hefir eigi til vor farið.“
Þráinn Sigfússon svaraði: „Eigi er eg Gunnar en þó skyldur til honum og vil eg játast undir þessa ferð.“
Jarl mælti: „Það vil eg gjarna. Skal og þína för allvel búa.“
Síðan tók Eiríkur son hans til orða: „Við marga hefir þú heit góð en misjafnt þykir út seljast. Er þetta hin torveldlegasta för því að víkingur sjá er harður og illur viðureignar. Muntu þurfa að vanda til ferðar þessar bæði menn og skip.“
Þráinn mælti: „Þó skal eg fara þótt ferðin sé órífleg.“
Síðan fékk jarl honum fimm skip og öll vel skipuð. Með þeim var Gunnar Lambason og Lambi Sigurðarson. Gunnar var bróðurson Þráins og hafði komið til hans ungur og unni hvor öðrum mikið. Eiríkur jarlsson gekk til með þeim og hugði að mönnum og vopnaafla og skipti þar um er honum þótti þurfa. Síðan er þeir voru búnir fékk Eiríkur þeim leiðsögumann.
Sigldu þeir þá suður með landi. En hvar sem þeir kæmu við heimilaði jarl þeim það er þeir þyrftu að hafa. Þeir héldu austur til Ljóðhúsa. Þá spurðu þeir að Kolur var farinn austur til Danmerkur. Héldu þeir þá suður þangað. En þá spurðu þeir að Kolur var þar fyrir og mundi þar dveljast um hríð.
Veðurdagur var góður. Þá sá Kolur skipin er að fóru og kvað sig dreymt hafa Hákon jarl um nóttina og kvað þetta vera mundu menn hans og bað alla menn sína taka vopn sín. Síðan bjuggust þeir við og tekst þar orusta. Berjast þeir lengi svo að eigi urðu umskipti. Síðan hljóp Kolur upp á skip Þráins og ruddist um fast og drepur margan mann. Hann hafði gylltan hjálm. Nú sér Þráinn að eigi mun duga, eggjar nú mennina með sér en hann gengur sjálfur og mætir Kol. Kolur höggur til hans og kom í skjöldinn Þráins og klauf ofan skjöldinn. Þá fékk Kolur steinshögg á höndina. Féll þá niður sverðið. Þráinn hjó til Kols og kom á fótinn svo að af tók. Eftir það drápu þeir Kol. Hjó Þráinn höfuð af honum en steypti búkinum fyrir borð en varðveitti höfuð hans.
Þeir tóku þar fé mikið, héldu þá norður til Þrándheims og fara á fund jarls. Tekur jarl vel við honum. Hann sýndi jarli höfuð Kols en jarl þakkaði honum verk það. Eiríkur kvað meira vert en orða einna. Jarlinn svaraði að svo var og bað þá ganga með sér. Gengu þeir þangað sem jarl hafði gera látið skip gott það er eigi var gert sem langskip. Þar var gammshöfuð á og búið mjög.
Jarl mælti: „Þú ert skrautmenni mikið, Þráinn, og hafið þið svo verið báðir frændur þið Gunnar. Vil eg nú gefa þér skip þetta en skipið heitir Gammur. Þar skal fylgja með vinátta mín. Vil eg að þú sért með mér svo lengi sem þú vilt.“
Hann þakkaði honum velgerning sinn og kveðst ekki fýsast til Íslands að svo búnu.
Jarl átti ferð austur til landamæris að finna Svíakonung. Fór Þráinn með honum um sumarið og var skipstjórnarmaður og stýrði Gamminum og sigldi svo mikið að fáir þurftu við hann og var hann öfundaður mjög. En það fannst á jafnan að jarl virti mikils Gunnar því að hann setti þá harðlega aftur alla er á Þráin leituðu. Var Þráinn með jarli allan þann vetur. En um vorið spurði jarl Þráin hvort hann vildi þar vera eða fara til Íslands en hann kvaðst eigi það hafa ráðið við sig og sagðist vita vilja áður tíðindi af Íslandi. Jarl sagði að svo skyldi vera sem honum þætti henta. Var Þráinn með jarli.
Þá spurðust tíðindi af Íslandi þau er mörgum þóttu mikil, lát Gunnars frá Hlíðarenda. Þá vildi jarl eigi að Þráinn færi út og var hann með honum eftir.