Njála, 156

From WikiSaga
Revision as of 08:08, 25 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 156== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 156== Það bar við eina nótt að gnýr mikill kom yfir þá Bróður svo að þ...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 156

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 156

Það bar við eina nótt að gnýr mikill kom yfir þá Bróður svo að þeir vöknuðu allir og spruttu upp og fóru í klæði sín. Þar með rigndi á þá blóði vellanda. Hlífðu þeir sér þá með skjöldum og brunnu þó margir. Undur þetta hélst allt til dags. Maður hafði látist af hverju skipi. Sváfu þeir þá um daginn.

Aðra nótt varð enn gnýr og spruttu þá enn allir upp. Þá renndu sverð úr slíðrum en öxar og spjót flugu í loft upp og börðust. Sóttu þá vopnin svo fast að þeim að þeir urðu að hlífa sér og urðu þó margir sárir en dó maður af hverju skipi. Hélst undur þetta allt til dags. Sváfu þeir þá enn um daginn eftir.

Þriðju nótt varð gnýr með sama hætti. Þá flugu að þeim hrafnar og sýndist þeim úr járni nefin og klærnar. Hrafnarnir sóttu þá svo fast að þeir urðu að verja sig með sverðum en hlífðu sér með skjöldum. Gekk þessu enn til dags. Þá hafði enn látist maður af hverju skipi. Þeir sváfu þá enn fyrst.

En er Bróðir vaknaði varp hann mæðilega öndunni og bað skjóta utan báti „því að eg vil finna Óspak.“ Steig hann þá í bátinn og nokkurir menn með honum. En er hann fann Óspak sagði hann honum undur þau er fyrir þá hafði borið og bað hann segja sér fyrir hverju vera mundi. Óspakur vildi eigi segja honum fyrr en hann seldi honum grið. Bróðir hét honum griðum en Óspakur dró þó undan allt til nætur.

Óspakur mælti þá: „Þar sem blóði rigndi á yður þar munuð þér hella út margs manns blóði, bæði yðru og annarra. En þar sem þér heyrðuð gný mikinn þar mun yður sýndur heimsbrestur og munuð þér deyja allir brátt. En þar er vopnin sóttu að yður, það mun vera fyrir orustu. En þar sem hrafnar sóttu að yður, það merkir djöfla þá er þér trúið á og yður munu draga til helvítis kvala.“

Bróðir var þá svo reiður að hann mátti engu svara og fór þegar til manna sinna og lét þekja sundið allt með skipum og bera strengi á land og ætlaði að drepa þá alla eftir um morguninn. Óspakur sá ráðagerð þeirra alla. Þá hét hann að taka trú og fara til Bríans konungs og fylgja honum til dauðadags. Hann lét þá það ráðs taka að þekja öll skipin og forka með landinu og höggva strengi þeirra Bróður. Tók þá að reiða saman skipin en þeir voru sofnaðir.

Þeir Óspakur fóru þá út úr firðinum og svo vestur til Írlands og komu til Kantaraborgar. Sagði Óspakur þá Bríani konungi allt það er hann var vís orðinn og tók skírn og fal sig konungi á hendi.

Síðan lét Brían konungur safna liði um allt ríki sitt og skyldi kominn herinn allur til Dyflinnar í vikunni pálmdrottinsdag.


Tilvísanir

Links