Njála, 106

From WikiSaga
Revision as of 08:16, 25 June 2014 by Olga (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 106

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 106

Sá atburður varð þrem vetrum síðar á Þingskálaþingi að Ámundi hinn blindi var á þingi, Höskuldsson Njálssonar. Hann lét leiða sig búða í millum. Hann kom í búð þá er Lýtingur var inni af Sámsstöðum. Hann lætur leiða sig inn í búðina og þar sem Lýtingur sat.

Hann mælti: „Er hér Lýtingur af Sámsstöðum?“

„Hvað viltu?“ segir Lýtingur.

„Eg vil vita,“ segir Ámundi, „hverju þú vilt bæta mér föður minn. Eg er laungetinn og hefi eg við engum bótum tekið.“

„Bætt hefi eg víg föður þíns fullum bótum og tók við föðurfaðir þinn og föðurbræður en bræður mínir voru ógildir. Og var bæði að eg hafði illa til gert enda kom eg allhart niður.“

„Ekki spyr eg að því,“ segir Ámundi, „að þú hefir bætt þeim. Veit eg að þér eruð sáttir. Og spyr eg að því hverju þú vilt mér bæta.“

„Alls engu,“ segir Lýtingur.

„Eigi skil eg,“ segir Ámundi, „að það muni rétt fyrir guði svo nær hjarta sem þú hefir mér höggvið. Enda kann eg að segja þér ef eg væri heileygur báðum augum að hafa skyldi eg annaðhvort fyrir föður minn fébætur eða mannhefndir enda skipti guð með okkur.“

Eftir það gekk hann út. En er hann kom í búðardyrin snýst hann innar eftir búðinni. Þá lukust upp augu hans.

Þá mælti hann: „Lofaður sé drottinn. Sé eg nú hvað hann vill.“

Eftir það hleypur hann innar eftir búðinni þar til er hann kemur fyrir Lýting og höggur með öxi í höfuð honum svo að hún stóð á hamri og kippir að sér öxinni. Lýtingur féll áfram og var þegar dauður. Ámundi gengur út í búðardyrin. Og er hann kom í þau hin sömu spor sem upp höfðu lokist augu hans þá lukust aftur og var hann alla ævi blindur síðan.

Eftir það lætur hann fylgja sér til Njáls og sona hans. Hann segir þeim víg Lýtings.

„Ekki má saka þig um þetta,“ segir Njáll, „því að slíkt er mjög á kveðið en viðvörunarvert ef slíkir atburðir verða að stinga eigi af stokki við þá er svo nær standa.“

Síðan bauð Njáll sætt frændum Lýtings. Höskuldur Hvítanesgoði átti hlut að við frændur Lýtings að þeir tækju bótina og var þá lagið mál í gerð og féllu hálfar bætur niður fyrir sakastaði þá er hann þótti á eiga. Eftir það gengu menn til tryggða og veittu frændur Lýtings Ámunda tryggðir.

Menn riðu heim af þingi og er nú kyrrt lengi.



Tilvísanir

Links