Njála, 117
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 117
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 117
Sigfússynir spurðu að Flosi var við Holtavað og riðu þangað til móts við hann og var þar Ketill úr Mörk og Lambi bróðir hans, Þorkell og Mörður Sigfússynir, Sighvatur bróðir þeirra og Lambi Sigurðarson og Gunnar Lambason og Grani Gunnarsson, Vébrandur Hámundarson. Flosi stóð upp í móti og fagnaði þeim glaðlega.
Þeir gengu fram að ánni. Flosi hafði af þeim sannar sögur og skildi þá ekki á og Runólf úr Dal.
Flosi mælti til Ketils úr Mörk: „Þig kveð eg að þessu. Hversu harðsnúinn ertu á þetta mál eða aðrir Sigfússynir?“
Ketill mælti: „Það vildi eg að sættir yrðu með oss. En þó hefi eg svarið eiða að skiljast eigi við þessi mál fyrr en yfir lýkur með nokkuru móti og leggja líf á.“
Flosi mælti: „Drengur ertu góður og er slíkum mönnum allvel farið.“
Þeir tóku báðir senn til orða Grani Gunnarsson og Gunnar Lambason: „Sektir viljum vér er fram komi og mannráð.“
Flosi mælti: „Eigi er ráðið að bæði sé að við kjósum og deilum.“
Grani mælti: „Það var mér þá í hug er þeir drápu Þráin við Markarfljót en síðan Höskuld son hans að eg mundi aldrei sættast við þá heilum sáttum því að eg vildi vera þar gjarna er þeir væru allir drepnir.“
Flosi mælti: „Setið hefir þú svo nær að þú mættir hafa hefnt þessa ef þú hefðir haft til þrek og karlmennsku. Þykir mér sem þess biðjir þú nú og margir aðrir er mundir mikið fé til gefa að þú hefðir eigi orðið við staddur. Sé eg það gjörla þótt vér dræpum Njál eða sonu hans, þá eru þeir svo mikils háttar menn að þar mun svo mikið eftirmál verða að vér munum fyrir margs manns kné ganga verða og biðja oss liðs áður vér komum oss í sætt og úr þessum vanda. Megið þér og svo til ætla að þeir munu margir snauðir er áður eiga stórfé en sumir munu láta bæði féið og lífið.“
Mörður Valgarðsson reið til fundar við Flosa og kvaðst ríða vilja til þings með honum með öllu liði sínu. Flosi tók því vel og hóf bónorð við hann að hann skyldi gifta Rannveigu dóttur sína Starkaði er bjó að Stafafelli, bróðursyni Flosa. Gekk Flosa það til að hann þóttist svo ráða undir sig trúnað hans og fjölmenni. Mörður tók vænlega á og veik undir Gissur hvíta og bað tala um á þingi. Mörður átti Þorkötlu dóttur Gissurar hvíta. Þeir Mörður og Flosi riðu báðir saman á þing og töluðu alla daga.