Njála, 143
Njáls saga (Table of Contents) | |||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 | 32 | 33 | 34 | 35 | 36 | 37 | 38 | 39 | 40 | 41 | 42 | 43 | 44 | 45 | 46 | 47 | 48 | 49 | 50 | 51 | 52 | 53 | 54 | 55 | 56 | 57 | 58 | 59 | 60 |
61 | 62 | 63 | 64 | 65 | 66 | 67 | 68 | 69 | 70 | 71 | 72 | 73 | 74 | 75 | 76 | 77 | 78 | 79 | 80 | 81 | 82 | 83 | 84 | 85 | 86 | 87 | 88 | 89 | 90 |
91 | 92 | 93 | 94 | 95 | 96 | 97 | 98 | 99 | 100 | 101 | 102 | 103 | 104 | 105 | 106 | 107 | 108 | 109 | 110 | 111 | 112 | 113 | 114 | 115 | 116 | 117 | 118 | 119 | 120 |
121 | 122 | 123 | 124 | 125 | 126 | 127 | 128 | 129 | 130 | 131 | 132 | 133 | 134 | 135 | 136 | 137 | 138 | 139 | 140 | 141 | 142 | 143 | 144 | 145 | 146 | 147 | 148 | 149 | 150 |
151 | 152 | 153 | 154 | 155 | 156 | 157 | 158 | 159 |
Chapter 143
TITLE.
ENSKA
References
Kafli 143
Eyjólfur Bölverksson gekk þá að dómi og nefndi sér votta að því „að sú er lögvörn máls þessa að þér hafið sótt málið í Austfirðingadóm því að Flosi hefir sagst í þing með Áskatli goða. Eru hér nú hvorirtveggju vottarnir þeir er við voru og það munu bera að Flosi seldi af hendi goðorð sitt Þorgísli bróður sínum en síðan sagðist hann í þing með Áskatli goða. Nefni eg mér þessa votta eða þeim er njóta þurfa þessa vættis.“
Í annað sinn nefndi Eyjólfur sér votta, „nefni í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð Merði, er sök hefir að sækja, eða sakaraðila að hlýða til eiðspjalls míns og til framsögu varnar þeirrar er eg mun fram bera. Býð eg lögboði að dómi svo að dómendur heyra á.“
Eyjólfur nefndi sér enn votta, „nefni í það vætti að eg vinn eið að bók, lögeið, og segi það guði að eg skal svo mál þetta verja sem eg veit sannast og helst að lögum og öll lögmæt skil af hendi inna þau er undir mig koma á þessu þingi.“
Eyjólfur mælti: „Þessa tvo menn nefni eg í vætti að eg færi fram lögvörn þessa að mál þetta var sótt í annan fjórðungsdóm en vera átti. Tel eg fyrir það ónýta sök þeirra. Segi eg svo skapaða vörn þessa fram í Austfirðingadóm.“
Síðan lét hann bera fram vætti þau öll er vörninni áttu að fylgja. Síðan nefndi hann votta að öllum varnargögnum að nú voru öll fram komin.
Eyjólfur nefndi sér votta, „nefni í það vætti að ver goðalýriti dómöndum að dæma sök þeirra Marðar því að nú er lögvörn fram komin í dóminn. Ver eg lýriti, goðalýriti efalausu, lýriti fullu og föstu svo sem eg á að verja að alþingismáli réttu og allsherjarlögum.“
Síðan lét hann dæma vörnina. Þeir Ásgrímur létu sækja um brennumálin og gengu þau fram.