Njála, 008

From WikiSaga
Revision as of 09:05, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 8

XXX.

ENSKA

References


Kafli 8

Hrútur kom heim og brá mjög í brún er kona hans var í brautu og er þó vel stilltur og var heima öll þau misseri og réðst við engan mann um sitt mál.

Annað sumar eftir reið hann til þings og Höskuldur bróðir hans með honum og fjölmenntu mjög. En er hann kom á þing þá spurði hann hvort Mörður gígja væri á þingi. Honum var sagt að hann var þar og ætluðu allir að þeir mundu tala um mál sín en það varð ekki.

Einnhvern dag er þeir gengu til Lögbergs og aðrir þingmenn nefndi Mörður sér votta og lýsti fésök á hendur Hrúti um fémál dóttur sinnar og taldi níu tigu hundraða fjár. Lýsti hann til gjalda og útgreiðslu og lét varða þriggja marka útlegð. Hann lýsti í fjórðungsdómi þeim sem sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing og í heyranda hljóði að Lögbergi.

En er hann hafði þetta mælt svaraði Hrútur: „Meir sækir þú þetta mál með fjárágirnd og kappi er heyrir til dóttur þinnar heldur en við góðvild eða drengskap enda mun eg hér láta nokkuð í móti koma því að þú hefir enn eigi féið í hendi þér það er eg fer með. Mæli eg svo fyrir að þeir séu allir heyrandi vottar er hjá eru að Lögbergi að eg skora þér á hólm. Skal þar við liggja mundurinn allur og þar legg eg í móti annað fé jafnmikið og eigi sá hvorttveggja féið er af öðrum ber. En ef þú vilt eigi berjast við mig þá skalt þú af allri fjárheimtinni.“

Þá þagnaði Mörður og réðst um við vini sína um hólmgönguna.

Honum svaraði Jörundur goði: „Eigi þarft þú við oss ráð að eiga um þetta mál því að þú veist ef þú berst við Hrút að þú munt láta bæði lífið og féið. Er honum vel farið. Hann er mikill af sjálfum sér og manna fræknastur.“

Þá kvað Mörður það upp að hann mundi eigi berjast við Hrút. Þá varð óp mikið að Lögbergi og óhljóð og hafði Mörður af hina mestu svívirðu. Síðan ríða menn heim af þingi.

Þeir bræður riðu vestur til Reykjardals, Höskuldur og Hrútur og gistu að Lundi. Þar bjó þá Þjóstólfur son Bjarnar gullbera. Regn hafði verið mikið um daginn og höfðu menn orðið votir og voru gervir máleldar. Þjóstólfur bóndi sat í milli þeirra Höskulds og Hrúts. En sveinar tveir léku á gólfinu. Þeir voru veislusveinar Þjóstólfs og lék mær ein hjá þeim. Þeir voru málgir mjög því að þeir voru óvitrir.

Annar þeirra mælti: „Eg skal þér Mörður vera og stefna þér af konunni og finna það til foráttu að þú hafir ekki sorðið hana.“

Annar svaraði: „Eg skal þér Hrútur vera. Tel eg þig af allri fjárheimtunni ef þú þorir eigi að berjast við mig.“

Þetta mæltu þeir nokkurum sinnum. Þá gerðist hlátur mikill af heimamönnum. Þá reiddist Höskuldur og laust hann sveininn með sprota, þann er Mörður nefndist, en sprotinn kom í andlitið og sprakk fyrir.

Höskuldur mælti við sveininn: „Verð úti og drag engan spott að oss.“

Hrútur mælti: „Gakk hingað til mín.“

Sveinninn gerði svo. Hrútur dró fingurgull af hendi sér og gaf honum og mælti: „Far braut og leita á engan mann síðan.“

Sveinninn fór braut og mælti: „Þínum drengskap skal eg við bregða æ síðan.“

Af þessu fékk Hrútur gott orð. Síðan fóru þeir vestur heim og er lokið þrætum þeirra Marðar.


Tilvísanir

Links