Njála, 030

From WikiSaga
Revision as of 09:23, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 30== '''XXX.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 30== Gunnar hélt út úr elfinni og voru þeir Kolskeggur á einu skipi báðir en H...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 30

XXX.

ENSKA

References


Kafli 30

Gunnar hélt út úr elfinni og voru þeir Kolskeggur á einu skipi báðir en Hallvarður var á öðru skipi. Þeir sjá nú skipin fyrir sér.

Þá mælti Gunnar: „Verum vér að nokkuru við búnir ef þeir leita á oss en eigum vér ekki við þá ellegar.“

Þeir gerðu svo og bjuggust við á skipum sínum. Hinir skildu í sundur skipin og gerðu hlið í millum skipanna. Gunnar fór fram milli skipanna. Vandill þreif upp stafnljá og kastaði á meðal skipanna og skips Gunnars og dró þegar að sér. Ölvir hafði gefið Gunnari sverð gott. Gunnar hjó nú sverðinu og hafði hann eigi sett á sig hjálminn, hleypur þegar á saxið á skip Vandils og hjó þegar mann til bana. Karli lagði að öðrum megin sínu skipi og skaut um þvert skip Gunnars og stefndi á hann miðjan. Gunnar sér þetta og snerist svo skjótt að eigi mátti auga á festa og tók hinni vinstri hendi spjótið og skaut á skip til Karla og hafði sá bana er fyrir varð. Kolskeggur þreif upp akkeri og kastar á skip Karla og kom fleinninn í borðið og út í gegnum og féll þar inn sjár kolblár og hljópu menn allir á önnur skip. Gunnar hljóp nú aftur á sitt skip.

Þá kom að Hallvarður og tókst nú bardagi mikill. Sáu þeir nú er fyrirmaður var öruggur og gerði hver að slíkt er mátti. Gunnar gerði ýmist er hann hjó eða skaut og hafði margur maður bana fyrir honum. Kolskeggur fylgdi honum vel. Karli hljóp á skip til Vandils bróður síns og börðust þeir þaðan um daginn.

Kolskeggur tók hvíld um daginn á skipi Gunnars og sér Gunnar það. Hann kvað þá vísu:


9.Þú hefir átgjörnum erni,

etur hrafn, verið betri

greiðir, gumna dauða,

gjálfurdags en þér sjálfum.

Hér gengur margur í morgin

muninn bekki vargs drekka

æstur en þig tekur þyrsta,

þingálmur fetils stinga.


Síðan tók Kolskeggur jústu eina af miði fulla og drakk og barðist eftir það. Og þar kom að þeir bræður hljópu upp á skip þeirra Vandils og gekk Kolskeggur með öðru borði en Gunnar með öðru. Í móti Gunnari gekk Vandill og hjó þegar til hans og kom í skjöldinn. Gunnar snaraði skjöldinn og sverðið festi í og brotnaði undir hjaltinu. Gunnar hjó þá í móti og sýndust þrjú sverðin á lofti og sá hann eigi hversu hann skyldi forðast. Gunnar hjó þá undan honum báða fætur. Kolskeggur lagði Karla í gegnum með spjóti. Eftir það tóku þeir herfang mikið.

Þaðan héldu þeir suður til Danmerkur og þaðan héldu þeir austur í Smálönd og höfðu jafnan sigur. Ekki héldu þeir aftur að hausti.

Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. Síðan héldu þeir austur til Eysýslu og lágu þar nokkura hríð undir nesi einu. Þeir sáu mann einn ganga ofan af nesinu. Gunnar gekk á land upp að finna manninn og töluðu þeir. Gunnar spyr hann að nafni. Hann nefndist Tófi. Gunnar spurði hvað hann vildi.

„Þig vil eg finna. Herskip eru öðrum megin undir nesinu og mun eg segja þér hverjir fyrir ráða. Þar ráða fyrir bræður tveir. Heitir annar Hallgrímur en annar Kolskeggur. Þá veit eg mesta orustumenn og það með að þeir hafa vopn svo góð að eigi fær önnur slík. Hallgrímur hefir atgeir þann er hann hefir látið seiða til að honum skal ekki vopn að bana verða nema hann. Það fylgir og að þegar veit er víg er vegið með atgeirinum því að svo syngur í honum áður að langt heyrir til. Svo hefir hann náttúru mikla með sér.“

Gunnar kvað þá vísu:


10. Æst skal eg geir og geystan

gnýsvellanda fella,

hlæðir hildar skóða

hjálmangurs þegar fanga.

Ölungrundar skal eg, Endils

eykríðandi, of síðir

eiturs og eyðir láta

ört líf Sigars drífu.


„Kolskeggur hefir sax. Það er og hið besta vopn. Þeir hafa og lið þriðjungi meira en þér hafið. Fé hafa þeir og mikið og hafa fólgið á landi og veit eg gerla hvar er. En þeir hafa sent njósnarskip fyrir nesið og vita þeir allt til yðar. Þeir hafa nú og viðbúning mikinn og ætla þegar að yður að leggja er þeir eru búnir. Er yður nú annaðhvort til að leggja í braut þegar ella búist þér við sem skjótast. En ef þér hafið sigur þá skal eg fylgja þér til fjárins alls.“

Hann gaf honum fingurgull og gekk síðan til manna sinna og sagði þeim að herskip lágu öðrum megin nessins „og vita þeir allt til vor. Tökum vér vopn vor og búumst við vel.“ Og þá er þeir voru búnir sjá þeir að skip fara að þeim. Tekst nú orusta með þeim og berjast þeir lengi og verður mannfall mikið. Gunnar vó margan mann. Þeir Hallgrímur hljópu á skip til Gunnars. Gunnar sneri í móti honum. Hallgrímur lagði til hans með atgeirinum. Slá ein var um þvert skipið og hljóp Gunnar aftur yfir öfugur. Skjöldur Gunnars var fyrir framan slána og lagði Hallgrímur í hann og í gegnum og svo í slána. Gunnar hjó á hönd Hallgrími og lamdist handleggurinn en sverðið beit ekki. Féll þá niður atgeirinn. Gunnar tók atgeirinn og lagði í gegnum Hallgrím og kvað þá vísu:


11. Felldan hefi eg þann er eyddi öldu

eisu, er kunni holdi að reisa.

Seiddan frá eg að Hallgrímur hefði

hjálmavönd í öðrum löndum.

Allir viti hve að úlfa fylli

atgeir of kom, dyggvir skatnar.

Hann skal mér, því að herskap kunnum,

hendi fylginn lífs til enda.


Og það efndi Gunnar að hann bar atgeirinn meðan hann lifði. Þeir börðust nafnar og var nær hvorum vænna horfði. Þá kom Gunnar að og hjó Kolskegg banahögg. Eftir það beiddu víkingar sér griða. Gunnar lét þess kost og hann lét þá kanna valinn og taka fé það er dauðir menn höfðu átt en hann gaf hinum vopn sín og klæði, er hann gaf grið, og bað þá fara til fósturjarða sinna. Þeir héldu í braut en Gunnar tók fé það allt er eftir var.

Tófi kom að Gunnari eftir bardagann og bauð að fylgja honum til fjár þess er víkingar hafa fólgið og kvað það bæði vera meira og betra en þetta er þeir höfðu áður fengið. Gunnar kveðst það vilja. Gunnar gekk þá á land og Tófi fyrir til skógar en Gunnar eftir. Þeir komu að þar sem viður var borinn saman mikill. Tófi segir að þar var féið undir. Ruddu þeir þá af viðunum og fundu undir bæði gull og silfur, klæði og vopn góð. Þeir bera fé þetta til skipa. Gunnar spurði Tófa hverju hann vildi er hann launaði honum.

Tófi svaraði: „Eg er danskur maður að ætt og vildi eg að þú fylgdir mér til frænda minna.“

Gunnar spurði hví hann væri í Austurvegi.

„Eg var tekinn af víkingum,“ segir Tófi, „og var mér hér skotið á land í Eysýslu og hefi eg hér verið síðan.“


Tilvísanir

Links