Njála, 034

From WikiSaga
Revision as of 09:35, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 34== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 34== Þráinn hét maður. Hann var Sigfússon Sighvatssonar hins rauða. Hann bjó...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 34

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 34

Þráinn hét maður. Hann var Sigfússon Sighvatssonar hins rauða. Hann bjó að Grjótá í Fljótshlíð. Hann var frændi Gunnars og virðingamaður mikill. Hann átti Þórhildi skáldkonu. Hún var orðgífur mikið og fór með flimtan. Þráinn unni henni lítið. Honum var boðið til boðs og konu hans. Hún gekk að beina og Bergþóra Skarphéðinsdóttir kona Njáls. Ketill hét annar Sigfússon. Hann bjó í Mörk fyrir austan Markarfljót. Hann átti Þorgerði Njálsdóttur. Þorkell hét hinn þriðji Sigfússon, fjórði Mörður, fimmti Lambi, sétti Sigmundur, sjöundi Sigurður. Þessir voru allir frændur Gunnars og voru kappar miklir. Þeim bauð Gunnar öllum til boðsins. Gunnar hafði og boðið Valgarði hinum grá og Úlfi aurgoða og sonum þeirra, Runólfi og Merði.

Þeir Höskuldur og Hrútur komu til boðsins fjölmennir. Þar voru synir Höskulds, Þorleikur og Ólafur. Þar var brúður í för með þeim og Þorgerður dóttir hennar og var hún kvenna fríðust. Hún var fjórtán vetra gömul. Margt var með henni annarra kvenna. Þar var og Þórhalla dóttir Ásgríms Elliða-Grímssonar og dætur Njáls tvær, Þorgerður og Helga.

Gunnar hafði marga fyrirboðsmenn og skipaði hann svo sínum mönnum. Hann sat á miðjan bekk en innar frá Þráinn Sigfússon, þá Úlfur aurgoði, þá Valgarður hinn grái, þá Mörður og Runólfur, þá Sigfússynir. Lambi sat innstur. Hið næsta Gunnari utar frá sat Njáll, þá Skarphéðinn, þá Helgi, þá Grímur, þá Höskuldur, þá Hafur hinn spaki, þá Ingjaldur frá Keldum, þá synir Þóris austan úr Holti. Þórir vildi sitja ystur virðingamanna því að þá þótti hverjum gott þar sem sat. Höskuldur sat á miðjan bekk en synir hans innar frá honum. Hrútur sat utar frá Höskuldi. En þá er eigi frá sagt hversu öðrum var skipað. Brúður sat á miðjum palli en til annarrar handar henni Þorgerður dóttir hennar. Á aðra hönd sat Þórhalla dóttir Ásgríms Elliða-Grímssonar.

Þórhildur gekk um beina og báru þær Bergþóra mat á borð. Þráinn Sigfússon var starsýnn á Þorgerði Glúmsdóttur. Þetta sá Þórhildur kona hans. Hún reiðist og gerði kviðling til hans:


„Era gapripur góðar,

gægur er þér í augum, Þráinn,“ segir hún.


Hann steig þegar fram yfir borðið og sagði skilið við Þórhildi, „vil eg eigi hafa flimtan hennar né fáryrði yfir mér.“

Og svo var hann kappsamur of þetta að hann vildi eigi vera að veislunni nema hún sé í braut rekin. Og það var að hún fór í braut. Og nú sat hver maður í sínu rúmi og drukku og voru glaðir.

Þá tók Þráinn til orða: „Ekki mun eg færa það í hljóðmæli er mér er í skapi. Þess vil eg spyrja þig, Höskuldur Dala-Kollsson, viltu gifta mér Þorgerði frændkonu þína?“

„Eigi veit eg það,“ sagði Höskuldur, „mér þykir þú hafa illa skilið við þessa er þú áttir áður eða hver maður er hann, Gunnar?“

Gunnar svarar: „Eigi vil eg segja frá manninum því að mér er maðurinn skyldur og seg þú frá, Njáll,“ segir Gunnar, „því að allir munu því trúa.“

Njáll mælti: „Það er frá manni að segja að maður er vel auðigur að fé og ger að sér um allt og hið mesta mikilmenni og megið þér fyrir því gera honum kostinn.“

Þá mælti Höskuldur: „Hvað sýnist þér ráð, Hrútur frændi?“

„Gera mátt þú fyrir því kostinn að þetta er henni jafnræði.“

Þá tala þeir um kaup og verða á allt sáttir. Stendur þá Gunnar upp og Þráinn og ganga að pallinum. Spurði Gunnar þær mæðgur hvort þær vildu játa þessum kaupum. Þær kváðust eigi bregða mundu og fastnaði Hallgerður dóttur sína. Þá var skipað konum í annað sinn. Sat þá Þórhalla meðal brúða. Fór nú boð vel fram og er lokið var ríða þeir Höskuldur vestur en Rangæingar til sinna heimila. Gunnar gaf mörgum mönnum gjafir og virðist það vel.

Hallgerður tók við búráðum og var fengsöm og atkvæðamikil. Þorgerður tók við búráðum að Grjótá og var góð húsfreyja.



Tilvísanir

Links