Njála, 035

From WikiSaga
Revision as of 09:36, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 35== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 35== Það var siðvandi þeirra Gunnars og Njáls að sinn vetur þá hvor heimbo...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 35

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 35

Það var siðvandi þeirra Gunnars og Njáls að sinn vetur þá hvor heimboð að öðrum fyrir vináttu sakir. Þá átti Gunnar að sækja veturgrið að Njáli og fóru þau Gunnar og Hallgerður til Bergþórshvols. Þá voru þau Helgi eigi heima. Njáll tók vel við þeim Gunnari. Og þá er þau höfðu þar verið nokkura hríð kom Helgi heim og Þórhalla kona hans.

Þá gekk Bergþóra að pallinum og Þórhalla með henni og mælti Bergþóra til Hallgerðar: „Þú skalt þoka fyrir konu þessi.“

Hún mælti: „Hvergi mun eg þoka því að engi hornreka vil eg vera.“

„Eg skal hér ráða,“ sagði Bergþóra.

Síðan settist Þórhalla niður.

Bergþóra gekk að borðinu með laugar.

Hallgerður tók höndina Bergþóru: „Eigi er kosta munur með ykkur Njáli. Þú hefir kartnagl á hverjum fingri en hann er skegglaus.“

„Satt er það,“ sagði Bergþóra, „en hvortgi okkart gefur það öðru að sök. En eigi var skegglaus Þorvaldur búandi þinn og réðstu honum þó bana.“

„Fyrir lítið kemur mér,“ segir Hallgerður, „að eiga þann mann er vaskastur mun á Íslandi ef þú hefnir eigi þessa, Gunnar.“

Hann spratt upp og steig fram yfir borðið og mælti: „Heim mun eg fara og er það maklegast að þú sennir við heimamenn þína en eigi í annarra manna híbýlum enda á eg Njáli marga sæmd að launa og mun eg ekki vera eggjanarfífl þitt.“

Síðan fóru þau heim.

„Mun þú það, Bergþóra,“ sagði Hallgerður, „að við skulum eigi skildar.“

Bergþóra sagði að ekki skyldi hennar hluti batna við það. Gunnar lagði ekki til og fór heim til Hlíðarenda og var heima allan veturinn. Líður nú sumarið til alþingis framan.



Tilvísanir

Links